Ekki er nauðsynleg að setja reiðhjólið inn í geymslu þó vetur konungur sé kominn í heimsókn í nokkrar vikur. En það er nauðsynlegt að útbúa fákinn þannig að við komumst sem áhættuminnst og auðveldast allra okkar ferða.

Fjallareiðhjól henta afar vel til vertrarhjólreiða, þau eru hönnuð til notkunar þar sem erfiðara er að komast yfir og ógreiðfært. Gerð og lögun grindar eða stells, gírafjöldi og gírhlutföll auk annars staðalbúnaðar gera fjallahjólin að hentugu faratæki fyrir veturinn. Samt eru nokkrar endurbætur nauðsynlegar fyrir veturinn.

Nagladekk

Fyrst má nefna dekkinn. Hægt er að fá nagladekk fyrir reiðhjól og þau eru alveg bráðnauðsynleg ef maður ætlar sér að nota reiðhjólið reglulega í vetur. Til eru ýmsar gerðir og tegundir, með mismunandi mörgum nöglum í, allt frá sjötíu til hátt í þrjúhundruð. Mestu skiptir þó með vetrar- eða nagladekkinn á reiðhjólinu, að gúmmíblandan í vetrardekkjunum harðnar ekki eins í kulda líkt og ódýru sumardekkin gera. Allt þýðir þetta aukið grip, sem er afar nauðsynleg fyrir hjólreiðamanninn að vetrarlagi. Alþekkt er umræðan um nagladekk eða ekki nagladekk undir bifreiðar að vetrarlagi. Það þarf ekki að ræða vegna reiðhjóla, þar gegna nagladekkin einu meginhlutverki, að hjálpa til við að halda jafnvægi á hjólinu. Slíkt er ekki vandamál við vetrarakstur bifreiða, bíllinn er alltaf á öllum fjórum. Á reiðhjóli er grip framdekksins afar mikilvægt, reiðhjólið eltir alltaf framhjólið og á stjórn framhjólsins veltur stöðugleiki reiðhjólsins. Já stöðugleikinn og jafnvægið veltur á framhjólinu í orðsins fyllstu merkingu. Það er lítið vandamál ef reiðhjólið skrikar til að aftan, þá leggst það bara rólega á hliðina, en ef framhjólið rennur til þá verður fallið verra og alvarlegra. Þessvegna setjum við nagladekk á reiðhjól, helst bæði hjól en undantekningalaust að framan. Nagladekk á reiðhjóli veita nauðsynlegt öryggi og gera hjólreiðarnar yfir veturinn auðveldari.

Bretti og aurhlífar

Bretti og aurhlíf á frambretti setjum við einnig á hjólið, þá verða föt hjólreiðamannsins og hjólið sjálft, síður útötuð í slabbi, bleytu og saltpækli sem safnast á göngu og hjólastíga að vetrarlagi. Bretti sem eru skrúfuð á stell reiðhjólsins en ekki smellt eru best. Smellubrettin svokölluðu gera lítið gagn, eru meira til vandræða. Langflest ný reiðhjól í dag eru seld með þessum áskrúfuðu brettum sem eru eins og brettin sem voru á reiðhjólum í gamla daga, bara úr plasti í stað járnsins sem ryðgaði. Aurhlíf eða drullusokkur eru áföst á mörgum frambrettum sem seld eru með nýjum hjólum í dag. Þessar aurhlífar gera þó takmarkað gagn því þær eru of litlar. Betra er að útbúa sjálfur sína aurhlíf úr hæfilega stífu plasti, PVC-efni eða gúmmíi. Stærðin er sem næst venjulegu A-4 blaði, og er aurhlífin heftuð með öflugum heftara utan um neðstu festingar frambrettisins. Bestu aurhlífarnar voru þó gúmmíaurhlífarnar sem fengust í gamla daga og þótti afar sportlegt að vera með á reiðhjólinu. En tímarnir breytast, nú er það léttleikinn sem gildir í reiðhjólahönnun, og gúmmíaurhlífarnar ófáanlegar. Góð aurhlíf neðst á frambretti ræður hvort hjólreiðamaðurinn sé holdvotur til fóta, eða tærnar og skótauið þurrt og hlýtt.

Góð ljós að framan og aftan

Góð ljós að framan og aftan eru nauðsynleg í vetrarmyrkinu. Rafhlöður hafa stuttan líftíma í kuldanum, og því þarf að muna að endurnýja þær reglulega, eða endurhlaða séu notaðar hleðslurafhlöður. Það er öryggisatriði að vera með tvö ljós að framan, gott ljós til að lýsa upp það sem framundan er, og blikkljós. Ólíklegt er að rafhlöðurnar verði búnar í báðum ljósum samtímis. Hleðslurafhlöður eru fljótar að borga sig upp.

Bremsur þarf að stilla vel og athuga oft, bremsugetan minnkar að vetrarlagi, einkum vegna bleytu sem sest á gjarðirnar á dekkjum reiðhjólsins. Í djúpum snjó getur hjólið orðið bremsulaust eða bremsulítið, en í slíku færi er hraðin líka orðinn mjög lítill.

Notkun gíra við vetrarhjólreiðar skiptir sköpum, við notum alltaf mun léttari gíra en þegar hjólað er að sumarlagi. Mótstaðan er í heild meiri, aukin vindur, undirlagið óslétt og meiri mótstaða í vetrardekkjunum. Hæfileg áreynsla fæst því með réttri noktun á gírum reiðhjólsins. Meðalhraði hjólreiðamannsins minnkar nokkuð að vetrarlagi, svo stundum þarf að leggja aðeins fyrr af stað.

Þegar við hjólum á veturnar, þá reynum við að hjóla eingöngu á göngu- og hjólastígum, en ekki á götunni. Það er stórhættulegt að vera á reiðhjóli á umferðargötum þegar snjór og hálka er. Hjólför sem myndast við akstur bifreiða eru hættuleg fyrir reiðhjólafólk, og þá duga bestu reiðhjóla nagladekk skammt. Að ekki sé minnst á hættuna sem stafar af bílunum.

Börn eiga ekkert erindi í vetrarhjólreiðar, ekki nema í tengivagni eða tengihjóli aftan í hjóli foreldrana. Það krefst leikni og einbeitingar að hjóla að vetrarlagi. Börn líta á reiðhjólið meira sem leiktæki en farartæki. Reiðhjól barnanna eru því best geymd niðri í geymslu þar til vorar. Unglingar geta alveg notað hjólið yfir veturinn, og haft gaman af. Að reyna að komast yfir eða gegnum erfiðar hindranir reynir á og er skemmtilegt. Útbúa þarf hjólið svo það hæfi vetrarnotkun, það er mikilvægast. Þeir sem eiga svokölluð BMX-hjól, þessi litlu og nettu, ættu að prufa þau einhvern góðviðrisdaginn þegar snjórinn er orðinn nógu mikill og búið að ýta honum upp í skafla. Bara að muna það að allur leikur á að eiga sér stað fjarri akandi umferð.

Mokstur á göngu og hjólastígum er efni í annan pistil. Best er að hafa samband við þá aðila sem eiga að sjá um slíkt ef illa er staðið að snjómokstri. Gangandi og hjólandi vegfarendur eiga að fá sína þjónustu alveg eins og akandi umferð. Ekki gleyma að lofa það sem vel er gert, munið að láta einnig vita af því þegar vel er mokað og sandborið.

Svo er bara að leggja varlega af stað, það er gaman að hjóla á veturna.

Fatnaðurinn

Hinn hjólandi maður þarf að vera viðbúinn hinu fjölbreytta íslenska veðurfari að vetrarlagi. Þá skiptast á rigning og slagveður, snjór og fjúk, eða sólskinsdagar og froststillur. Helsta vandamál hjólreiðamannsins að vetrarlagi eru kuldinn og fjölbreyttar tegundir af úrkomu.

Þó að ekki sé mjög kalt í veðri, þá getur vindkæling verið öllu útivistarfólki varasöm. Dálítil gola þegar lofthiti er rétt undir frostmarki, getur aukið raunverulega kælingu á bert hold, til dæmis í andliti, umtalsvert. Og þar sem hjólandi fólk er auk þess á hreyfingu, þá gætir vindkælingar enn frekar.

Annað atriði sem miklu málir skiptir, er að hindra eða draga sem mest úr rakamyndun innan ysta skjólfatnaðar. Slík rakamyndun, hvort sem hún er vegna úrkomu eða vegna rakamyndunar frá líkamanum, dregur úr einagrunargildi fatnaðar. Hitaeinangrun fatnaðar felst í því að halda heitu lofti við líkamann, og ef raki kemst í fatnaðinn, þá missir hann oftast einangrunargildi sitt.

Þó að nauðsynlegt sé að klæða sig rétt, til að verjast kuldanum og bleytunni, þá má samt má ekki klæða sig of vel þegar lagt er af stað á reiðhjólinu að vetrarlagi. Við hjólreiðarnar hitnar líkaminn, og sá hiti og raki sem myndast þarf að komast út úr skjólflíkunum, án þess að hleypa of miklu af köldu vetrarlofti að líkamanum. Þess vegna er ekki gott að vera kappklæddur þegar lagt er af stað á reiðhjólinu á köldum vetrarmorgni. Betra er að hafa aukafatnað með og geyma hann í vatnsþéttri tösku eða í plastpoka í hjólatöskunni. Ekki þarf að fara mikið fyrir slíkum aukafatnaði. Regnjakki og buxur, aukavettlingar, þykkari eða þynnri peysa. Allt eftir því hverju við klæðumst þegar lagt er af stað. Klæðnaður hjólreiðamannsins þarf alltaf að miðast við veðurútlit dagsins, og aldrei er meiri fjölbreytni í íslensku veðurfari en einmitt á veturnar.

En hverju eigum við að klæðast, eða hvaða fatnað er gott að hafa meðferðis í hjólatöskunni að vetrarlagi? Fatnaður úr svokölluðum öndunarefnum, það er efni sem á ytra yfirborði hrindir frá sér vætu og er vindþétt, en hleypir þó gegnum sig raka sem berst frá líkamanum, er afar hentugur sem ystu skjólflíkur. Margir hjólreiðamenn klæðast sem ystu skjólflíkum, fötum sem aðeins eru vatns- og vindheld að framanverðu, en úr fleece eða öðrum gerviefnum á baki. Þannig klæðnaður dugar líka ágætlega að vetrarlagi. Kostir hans eru til dæmis þeir, að umframhiti og raki leita út um bakhluta klæðnaðarins. Þannig verður þeim sem hjólar, aldrei of heitt og rakamyndun vegna svita er lítil.

Undir ystu skjólflíkunum er gott að vera í hæfilegra þykkri peysu úr fleece efni eða einhverju gerviefni sem hefur svipaða eiginleika. Ullarpeysur má líka nota, en þær hafa þann ókost að vera þungar og fyrirferðamiklar, stundum of heitar, og afar lengi að þorna ef þær blotna.

Innst fata er best að vera í þunnum bol úr efni sem hleypir vel í gegnum sig raka. Bómullarbolir eru óhentugir, þar sem bómullarefni safnar í sig rakanum og eru lengi að þorna. Sumum finnst best að vera bara í peysu úr góðu fleece- eða gerviefni, og engu þar innanundir.

Neðan mittis er best að vera í stuttum hjólabuxum, þannig helst hæfilegur hiti á lærvöðvum og ýmsum viðkvæmum stöðum líkamans. Yst fata er gott að vera í síðum buxum úr efni sem situr vel að líkamanum, heldur vel hita og er ekki mjög rakadrægt. Ýmsar íþróttabuxur eða útivistarfatnaður kemur til greina, en langbest er að eiga síðar hjólabuxur með vind- og vatnsþéttu efni að framan. Þannig buxur hafa fengist í betri hjólreiða- og útilífsverslunum, úr mismunandi efni og í ýmsum verðflokkum.

Bestu síðu hjólabuxurnar eru án efa frá kanadíska fyrirtækinu Mountain Equipment Co-op. Þær eru úr teygjanlegu Lycra efni og klæddar með Gore Tex- vind og regnheldu efni að framan. Þessar buxur henta ekki síður á köldum haust eða vordögum, og margir hjólreiðamenn nota þær allt árið. Því miður eru þær ekki fáanlegar í verslunum hérlendis um þessar mundir, en hægt er að panta þær gegnum póstverslun og hefur Íslenski fjallahjólaklúbburinn aðstoðað félagsmenn við að útvega þær, sem og annað sem vöntun er á en ekki á boðstólum hérlendis.

Skóhlífar og hjólavettlingar

Til fóta getum við verið í sömu skóm og þegar við hjóluðum í sumar. Notast má við venjulega íþróttaskó, góða gönguskó eða kuldaskó í svipuðum stíl. Best er þó að eiga sérstaka hjólaskó. En sama hvernig skóm við klæðumst, þá er afar gott að kaupa sérstakar skóhlífar fyrir reiðhjólafólk. Þær eru úr þunnu vatnsheldu nælonefni, og er á afar auðveldan og fljótlegan hátt smeygt upp á skóna. Skóhlífarnar ná mismunandi langt upp á fótlegginn, eftir því hvaða tegund við kaupum. Fyrir þá sem nota hjólið mest innanbæjar er nóg að kaupa þá gerð af skóhlífum sem ná rétt upp fyrir ökkla. Skóhlífarnar verja okkur fyrir bleytu og slabbi sem fylgir vetrinum, en það er einmitt nauðsynlegt í borgum og bæjum þar sem fólk kýs að nota salt á göturnar en ekki í grautinn. Reyndar eru hjólaskóhlífar mikið þarfaþing allan ársins hring, í þeim þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að blotna í fæturnar eða skemma skótauið okkar. Þá þarf ekki lengur að sveigja hjá pollum eða búa við blauta fætur í haustrigningunni.

Ekki má gleyma efri útlimum hjólreiðafólks, höndunum. Í hjólaverslunum er mikið úrval af hjólavettlingum fyrir veturinn. Þar verður hver og einn að finna hvað hentar. Einnig eru fáanlegir svokallaðir stýrishanskar, nokkurskonar hólkar sem smeygt er upp á stýrisenda reiðhjólsins. Stýrishanskarnir eru afar hlýir, vind og vatnsþéttir. Innanundir þeim má vera berhentur eða bara í hjólagrifflum, engin vettlingatök lengur hjá þeim sem nota þá. Og svo eru þeir fáanlegir frá íslenkum framleiðanda.

Fatnaður fyrir vetrarhjólreiðar þarf ekki að vera dýr, það má kaupa þetta smá saman eftir því sem áhuginn eykst. Svo hentar hjólafatnaður einnig vel sem skíðagöngufatnaður þegar allt er komið á kaf í hvíta mjöll.

Heimir H. Karlsson