Þetta eru góðar reglur og auðvelt að fara eftir þeim en það sem flestir klikka á, sem reyna þó að útbúa sig vel, er þetta með að ljósin skuli lýsa nægilega vel. Rauðu blikkljósin sjást vel af bílstjórum sem koma aftan að hjólreiðamanni en flest framljósin eru of dauf og týnast innan um önnur borgarljós. Hliðargeislinn er oftast svo lélegur að bílstjórar sem koma úr hliðargötu sjá ljósin alls ekki og við þær aðstæður duga glitljósin heldur ekki þar sem hjólið er ekki í ljósgeisla bifreiðarinnar. Fyrir utan þau þrjú ljós sem fengu góða einkunn í ljósaprófuninni okkar eru bestu framljósin, að mínu mati, hvítu blikkljósin sem nota skæra Xenon flass peru svipaða þeim sem notuð eru í ljósmyndavélum (og á ekkert skilt með daufu grænu LED ljósadíóðunum).

Blikkið gerir gæfumuninn í baráttunni við að vekja athygli bifreiðastjóra í umferðinni. Það getur margborgað sig að borga aðeins meira fyrir ljós sem gagnast sem öryggistæki frekar en að kaupa ódýrt drasl sem veldur fölsku öryggi og slysahættu. Ef notað er hleðslutæki og hleðslubatterí er rekstrarkostnaðurinn sáralítill og svo má auðvitað nota gamla góða dýnamóinn. Magnús Bergsson hefur undanfarið verið að prófa framnaf með innbyggðum rafal sem gefur næga orku til að hann sést næstum jafn vel í umferðinni og bifreið og ætlar að fara yfir aðra rafala á markaðnum fljótlega og vonandi skrifa um í næsta Hjólhest.

Hér er að lokum teikning af einföldum blikkara sem er hægt að mixa inn í flest ljós og ná betur athygli bílstjóra. Ég hef svona í mínu ljósi og fann mikinn mun strax eftir að ég byrjaði að nota þetta, bílstjórnarnir voru allt í einu svo tillitssamir að það var eins og þeir héldu og hjólalöggan væri að koma með blikkandi ljós.

blikk.gif

Sjáumst í myrkrinu.

Páll Guðjónsson.

© Hjólhesturinn 2.tlb. 5.árg. 1996 og 9.9.97.