Eyrnahlífar: |
Efni: |
|
Settu hjálminn þinn upp. Troddu blaði undir böndin og yfir eyrun, strikaðu á blaðið til að fá út snið og stærð hlífana. Hlífin sjálf er úr tveimur lögum, fleece-efni innra og einhverju vindheldu efni ytra. Þegar þú ert búinn að sníða pjötlurnar tvær eftir blaðinu skaltu taka þér í hönd 2 lítra kókflösku og dúkahníf. Skerðu tvo stóra búta úr "öxlum" kókflöskunar og sníddu þá til þangað til þeir passa inn á milli pjatlanna. Saumið því næst pjötlurnar saman með plastinu og annan hluta Velcro-lássins inn í. Hinn hluta Velcro-lássins saumið þið í vindhelda efnið. Nú eigið þið að vera komin með hlíf sem er eilítið kúpt og heldur þannig betur að eyrunum og minnkar næðing. Athugið að láta efri hlutann á öxlum flöskunnar snúa niður í hlífinni. |
|
|
Hnéhlífar. Taktu hjólabuxurnar þínar og snúðu þeim á rönguna. Taktu þér dagblað í hönd strikaðu út fyrir efnisbút sem nær u.þ.b. frá þar sem stuttbuxunum sleppir fyrir ofan hnéð og vel niður á legg. Hægt er að gera þetta bæði að aftan og framan en mér hefur fundist nóg að gera þetta á framhlið buxnana. Fleece-efni hefur reynst mér vel í þetta. Saumaðu bútana síðan á. Ef buxurnar eru vatns- og vindheldar, passið ykkur þá að sauma ekki í "Tex" efnið. Óþarfi er að sauma þá mjög fast og vandlega, þú verður jú að geta náð þeim af með góðu móti í vor. Snúðu því næst buxunum á réttuna, farðu í þær og bjóddu Kuldabola birginn. |
|
Með von um ófrosin eyru og heit hné!
Pétur Magnússon.
Teikningar Jón Örn Bergsson
©Hjólhesturinn.