Hjólafærni hefur verið kennd í skólanum frá haustdögum 2009. Þannig hafa allir nemendur í 6. og 7. bekk skólans komið á lítið verkstæði sem útbúið var sérstaklega fyrir hjólaviðgerðakennslu, og fengið þar leiðsögn í að gera við sprungið dekk og skipta um bremsupúða. Síðan eru tveir útitímar þar sem farið er yfir ýmis konar stillingar á hjálmum og stelli, bremsum og gírum. Nokkrir vinsælir hjólaleikir eru stundaðir þar sem lagt er upp með að sleppa höndum og líta aftur fyrir sig. Einnig er farið vel yfir samvinnu á stígum á milli annarra vegfarenda hjólandi og gangandi og að lokum er staðsetning hjólandi á umferðargötu skoðuð.
Á hverju vori gerast svo nemendur í 7. bekk aðstoðarkennarar annarra starfsmanna og foreldra skólans, þegar Hjóladagarnir eru. Þá eru 7 stöðvar opnaðar; hjálmastöðin, hreinsistöðin, pumpu- og smurstöðin, þrautastöðin, leikjastöðin, ferðastöðin og ástandsskoðunarstöðin hjá Dr. Bæk. Þar eru hjólin yfirfarin samkvæmt ástandsskoðunarvottorði Dr. Bæk og að lokum er límmiði settur á hvert skoðað hjól. Allir nemendur skólans eru hvattir til þess að koma með hjólin sín og það tekur tvo daga að koma öllum að á öllum stöðvum. Þetta er á meðal fastra liða á skóladagatali Fossvogsskóla.
Um nokkurt skeið hefur íþróttakennari skólans staðið fyrir hjólafrímínútum að hausti. Þá eru nemendur hvattir til að koma í rösklegar hjólaferðir í löngu frímínútunum. Það hefur gefist vel og allir notið öndvegis hreyfingar. Skólastjórinn átti síðan jólaskreytingu ársins 2012, þegar hann vafði jólaseríum utan um gamlan racer og hengdi upp í námsveri Fossvogsskóla – svo að blasti við hjólandi vegfarendum um Fossvoginn. Auk þess vafði hann seríum utan um ótal gjarðir og hengdi upp í gluggana við inngang skólans. Það voru regluleg hjólajól í Fossvogsskóla 2012.