Forsíðumyndina tók undirritaður á ferð sinni til London og sýnir hún hjólarein. Nánari umfjöllun um aðstöðuna fyrir hjólandi í London er á bls. 18-20. Þar er fyrst kynnt hjólastæði með boggrindum „sem auðvelt er að festa hjólin við með traustum lásum“, þremur árum seinna kynnti Reykjavíkurborg sinn ágæta staðal með svipuðum boggrindum: Hjólastæði fyrir Reykjavíkurborg, fyrirkomulag og útlit
Einnig sýndum við mynd af götu þar sem einstefna var á bíla en ferðast mátti í báðar áttir á reiðhjóli. Ætli það séu ekki tvö ár síðan slíkt sást fyrst í Reykjavík á hluta Suðurgötu norðan Hringbrautar meðfram gamla kirkjugarðinum.
Aðrar hjólareinar líkt og á forsíðunni eru líklega ekki til á Íslandi nema í stubbaformi en eitthvað er farið að bóla á hjólastígum, eins og þeir heita þegar eitthvað skilur þá frá akreinum bifreiða og ekki er um að ræða stíg með blandaðri umferð gangandi og hjólandi.
Sérreinar fyrir strætó og reiðhjól eru reyndar ekki til í lögum enn og hérlendis skilst mér að Strætó leggist alfarið á móti því að deila svokölluðum strætóreinum með hjólandi ólíkt því sem gerist í stórborgum eins og London og París.
Einnig var smá kveðskapur frá Birni Finns og notaði hann þar meðal annars ýmis nýyrði sem spurning er hvort hafi náð að festa sig í sessi, eða hver kannast við þessi ágætu heiti hjólabúnaðar:
Ýmis heiti hjóla og búnaðar, með skýringum:
stinningur | mýkilaust hjól |
stýrmýkill | stýri á mýkifestingu |
harðrassi | hjól með mýkikvísl |
hálfmýkill | hjól með mýkikvísl eða bakmýkli |
rassmýkill | sætisstöng með mýkli |
mýkikvísl | gaffall með mýkli/mýklum |
almýkill | hjól með bakmýkli og mýkikvísl |
bakmýkill | mýkill á afturhluta hjóls |
mýkill | dempari |
Á stinningi stíga flestir en stýrmýkill léttir hald, harðrassar haldnir brestir, hálfmýkill veitir vald. Bakmýkill - rassmýkli betri beri hann mýkikvísl. Almýkill eflist að vetri við alskonar hjóla sýsl. Björn Finnsson |
Meiri kveðskapur er á vef okkar undir Pistlar og Greinar > Kveðskapur
Blaðið má skoða hér: Hjólhesturinn 7. árg. 1. tbl. mars 1998