„Ég hugsa að í um 2/3 tilfella noti ég hjólið til að komast til og frá vinnu. Hjólið er meira notað yfir sumartímann en aðeins minna yfir veturinn. Svo nota ég líka bílinn ef ég þarf að sinna ýmsum öðrum erindum yfir daginn en hjólið er aðalsamgöngutækið mitt í dag.“
Mikil vitundarvakning hefur orðið hér á landi undanfarin ár hvað hjólreiðar varðar og segir Fjölnir marga þætti spila þar inn í. Fyrst og fremst sé þó um viðhorfsbreytingu að ræða enda fólk farið að hugsa betur um heilsuna og stunda meiri útivist en áður.
Fjölnir segir mikilvægast fyrir hjólreiðamenn að hafa í huga í vetur að vera á góðum nagladekkjum enda sé betra heima setið en út farið ef ekki er grip á dekkjunum í snjó og hálku.
„Nagladekkin eru frábær og í raun nauðsynlegur kostur fyrir íslenska veturinn. Margir hafa verið hikandi við að fjárfesta í þeim enda kosta þau sitt. Þau endast hins vegar mjög lengi og eru um leið mikilvægasti öryggisþátturinn. Auðvitað skiptir hjálmurinn líka máli en án nagladekkja eru hjólreiðamenn í raun bremsulausir. Það er nefnilega betra að koma í veg fyrir slys en að sleppa vel úr þeim.
Svo má ekki gleyma hugarfarinu, sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Hjólreiðamenn þurfa að sætta sig við að þeir fara ekki eins hratt yfir eins og á góðum sumardegi.“ Einnig nefnir Fjölnir góðan fatnað, ljós og glitauga sem þætti sem skipta miklu máli fyrir hjólreiðamenn í vetur. Þar skipta góðir vettlingar og húfa miklu auk skófatnaðar.
Að lokum bendir Fjölnir á mikilvægi þess að vera vel sjáanlegur í umferðinni, enda eigi ökumenn erfitt með að vera tillitssamir ef þeir sjái ekki hjólreiðamennina. „Þá eru vesti góður kostur ef hjólað er mikið á götum. Sjálfur kýs ég að hjóla frekar á göngustígum þótt leiðin verði aðeins lengri fyrir vikið. Það er samt allur gangur á því.“
Uppruni: Fréttablaðið 20. nóv. 2012