Síðan var gerð viðhofskönnun hjá borgarbúum dagana á eftir. Hringt var í 600 íbúa á aldrinum 15 - 70 ára. 97% svarenda töldu jákvætt að halda hvíldardag bílsins. Raunveruleg þátttaka var samkvæmt svarendum 33% þó að sumir haldi því fram að mun minni þátttaka hafí verið. Greinilegt er af könnuninni að mikill meirihluti svarenda vill draga úr einkabílanotkun. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar: 50.8% vegna umhverfisins, 39.9% vegna heilsunnar, 38.2% vegna kostnaðar við rekstur bílsins og svo 29.9% vegna kostnaðar sem þjóðfélagið ber af bílum. Athyglisvert er að fólk setur umhverfið og heilsuna í fyrstu sæti og svo pyngjuna í annað sæti. Í könnuninni kom fram að til þess að fleiri hvíli bílinn þá þurfi að bæta aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi (65.4%), fargjöld strætisvagna lækki (41.9%) og að ferðir strætisvagna verði tíðari (50.4%).

Framkvæmd dagsins fór fram í samvinnu við ýmis áhugafélög. Íþróttir fyrir alla, Náttúruverndarfélag suðvesturlands, Landsamtök hjólreiðamanna og Íslenski fjallahjólaklúbburinn fengu að koma að því hvernig dagurinn fór fram og tóku virkan þátt í honum. Eftir á að hyggja þá var ekki nægilegt samráð haft við áður greinda aðila sem kynntu valkosti við bílinn. Gagnrýni á daginn beindist að því að litlu púðri var eytt í að virkja áhugamenn við kynninguna og framkvæmdina. Fjármuni hefði frekar mátt setja í áhugafélögin og styrkja þau í að fá „græna“ bílnotendur út undir bert loft og stíga á sveif með okkur hinum. Greinilegt er að vilji borgarbúa stefnir í rétta átt. Það vantar einungis framkvæmdina. Með bættri hjólaaðstöðu, bættri þjónustu strætisvagna og breyttu hugarfari þá eru raunhæfar líkur á því að Reykjavíkurborg verði mannvænleg til búsetu.

Óskar Dýrmundur Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.

Tekið úr skýrslunni „Hvíldardagur bílsins 22. ágúst 1996, viðhorf og þáttaka“ sem unnin var af Félagsvísindastofnun í september 1996.
Birtist fyrst í Hjólhestinum febrúar 1997.