Athugasemdir við göngu- og hjólastíga við mislæg gatnamót Víkurvegar og Vesturlandavegar
Við hönnun göngu- og hjólreiðastíga þarf að forðast óþarfa hlykki og krappar beygjur. Miða þarf við að stígurinn liggi skemmstu leið milli staða. Lyfta þarf stígnum upp frá umhverfi sínu svo ekki liggi og renni á honum yfirborðsvatn eða safnist þar fyrir klaki. Koma þarf fyrir ræsum við stíginn þar sem hætta er á að vatn safnist saman. Undirlag þarf að vera frostþolið og á stígnum bundið slitlag. Breidd stígsins þarf að vera 4 metrar, líka á brúm og í undirgöngum. Svo litið sé til nágrannalanda þá má gera ráð fyrir því að í framtíðinni verði leyfð umferð léttra bifhjóla á stígum sem þessum og því muni stígnum verða skipt milli bifhjóla, reiðhjóla og gangandi. Huga þarf samtímis að greiðum tengingum áfram til vesturs og til Mosfellsbæjar. Mikilvægt er að framkvæmdahraði við lagningu stíga sé í samræmi við framkvæmdahraða akbrauta svo að ekki skapist hætta og óvissuástand fyrir gangandi og hjólandi. Koma þarf upp vegvísum við stígamót. Umferðarmerki þurfa að koma upp á þeim stöðum þar sem stígar þvera akvegi. Til að minnka áhrif sjónmengunar, hávaðamengunar, loftmengunar og áhrif vinds þá leggjum við til að trjám verð komið fyrir á opnum svæðum samtímis og unnið er við frágang á þeim svæðum. Til að stígar þveri sem sjaldnast akvegi leggjum við til að stígurinn liggi í undirgöngum á öllum stöðum þar sem því verði við komið. Til að minnka kostnað við slíkar aðgerðir leggjum við til að stígar verði lagðir um ræsisrör svipað því sem sjá má undir Grafningsvegi (360) milli Heiðarbæjar og Þingvallavegar (36).

Landssamtök hjólreiðamanna og Íslenski fjallahjólaklúbburinn gera 5 athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir sem sjá má merkt með rauðum lit á meðfylgjandi teikningum.

ath010215.gif

Athugasemd 1
Þar sem líta verður á Vesturlandsveg sem aðalbraut þá verður að fækka hlykkjum á stígnum og leggja hann með sem minnstum hæðarbreytingum. Það er ótvíræð hætta á slysum ef stígurinn þverar tvisvar akbrautina á gatnamótum núverandi Víkurvegar og Vesturlandsvegar. Því leggjum við til að stigurinn liggi í undirgöngum undir akbrautina samkvæmt athugasemd 1 og þaðan í beinu framhaldi undir tilvonandi brú undir Víkurveg.

Athugasemd 2
Í framhaldi af athugasemd 1 þarf stígurinn að taka tillit til landslagsins svo hann liggi eins beint og hægt er og mishæðir séu sem minnstar á leiðinni í átt til Mosfellsbæjar. Við viljum svo árétta það að stígurinn liggi í göngum undir tilvonandi rampa eins og gert er ráð fyrir á teikningum (athugasemd 1 og 2).

Athugasemd 3
Um leið og stígurinn kemur af brúnni til suðurs þarf hann að liggja í mjúkum sveig frá veginum og yfir rampinn sem kemur frá Vesturlandsvegi. Þar sem stígurinn meðfram Víkurvegi hefur aðalbrautarrétt þarf að setja biðskyldu fyrir bíla. Umferðarmerki sem varar bílstjóra við hjólandi umferð úr báðum áttum þarf að setja á áberandi stað við rampinn.

Athugasemd 4
Yfir að gatnamótum Þúsaldar og Víkurvegar liggur stígurinn í beinni línu að og yfir götuna Þúsöld (engar óþarfa beygjur). Þar verður að setja stöðvunarlínu á stíginn og sérstök umferðarljós fyrir hjólreiðamenn og sér fyrir gangandi. Stöðvunarlína umferðarljósa fyrir bíla færist því aftar sem þessu nemur.

Athugasemd 5
Það sama gildir um athugasemd 5 og athugasemd 4. Til útskýringar þá leggjum við þetta til, þar sem þetta er stysta leið yfir akveg og gatnamót. Þarna skapast minnsta slysahættan um leið og jafnræði ríkir milli vegfarenda.

F.h Landssamtök hjólreiðamanna
Sigurður M. Grétarsson formaður This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

F.h. Íslenska fjallahjólaklúbbsins
Alda Jónsdóttir formaður This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 © ÍFHK