Nýlega birtist hér saga hjólreiðamanns sem hjólaði um götur borgarinnar eins og lög mæla til um en var stöðvaður af lögreglu eftir að hún varð vitni af því að bifreiða var ekið í veg fyrir hjólreiðamanninn. Þegar hann vildi ekki hlýða tilmælum lögregluþjónanna um að hætta að hjóla á götunum var reynt að sekta hann fyrir að óhlýðnast tilmælum lögreglu, en síðar var málið látið niður falla. Sjá nánar hér
Síðan hafa nokkrir tjáð sig um svipuð mál. Til dæmis sendi Pétur Halldórsson inn pistil á umræðusíðuna okkar þar sem sagði meðal annars: "Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum hjólreiðamanna að þeir þráist við að hjóla innan um bíla á götum eins og Miklubraut. Við hjólreiðamenn megum ekki koma á okkur því óorði að við séum sérvitringar sem berjist við bílana eins og Don Kíkóti barðist við vindmyllurnar forðum."
Hér er pistill eftir Björn Finnsson um samgöngur á hjólum þar sem segir meðal annars: "Nú þurfa umferðarmannvirki að fara í umhverfismat. Betra væri að setja slík í mannlífsmat. Kanna útblástur og hávaða, hugsanleg byggingarefni (asfalt virðist mjög mengandi), tilvonandi hraða samfara hættu fyrir gangandi mann og hversu ólífvænn lífmáti er á ferðinni." Lesið allan pistilinn
Jón Örn Bergsson sendi okkur pistil undir yfirskriftinni Umferðartuð þar sem hann lætur allt flakka: "Sagt er að ofbeldis- og klámmyndir í sjónvarpinu hafi slæm áhrif á börn og unglinga. Það má vel vera að óvitar og veikgeðja fólk rugli saman sjónvarpsefni og raunveruleikanum og víst er að sjónvarpsefni eins og Formúla 1 hafi verulega slæm áhrif á bílstjóra. Í huga bílstjórans eru götur Reykjavíkur ekkert annað en keppnisvöllur fyrir þá og koltvísýringskýrnar þeirra, og keppnin er svona sambland af formúlu 1 og krónubílakrossi. "Reglur eru til þess að brjóta þær og í versta falli fyrir aðra" er mottó sem er vel þekkt í umferðinni þegar keppnisandinn heltekur bílstjórana." Lesið allan pistilinn.
Hér er annar pistill eftir Björn Finnsson og er sá færður í stílinn. " ÞÚ! Bílguðinn sem ökumenn nútímans tigna með því að aka sem óðir séu um mjóslegna bifreiðastíga samfélagsins, svo sem þú gerðir við vagn hafra þinna um ómælisvíddir himinsins. Þú sem umluktir andrúmsloftið með brennisteinsstækju eldinganna og hljóðmengun þrumunnar. Þú sem lést hamarinn falla á allt það er þér var skapi mót. Tókst þú tillit til annarar umferðar eða mannfólksins?" Lesið allan pistilinn.
PG 6.3.2001