Hjólreiðar í Osló – Þróun og áhrif stefnu
Samkvæmt nýjustu ferðavenjukönnun fyrir Osló (RVU 2022/23) er hlutfall hjólreiða í daglegum ferðum í Osló 8,6%, sem er 39% aukning frá könnuninni RVU 2013/14. Þetta telst veruleg aukning, sérstaklega þar sem hlutfall hjólreiða í Osló og á landsvísu hafði verið lágt og dalað lítillega í tvo áratugi fram að RVU 2013/14.
Úttektin á áhrifum hjólreiðaáætlunar Oslóborgar sýnir að vinna samkvæmt áætluninni hefur verið lykilatriði í að snúa þessari þróun við. Eftir ítarlega úttekt var niðurstaða skýrsluhöfunda sú að hjólreiðaáætlunin væri aðalástæðan fyrir auknu hlutfalli hjólreiða í borginni.
Ef ekki hefði verið fyrir rausnarlega niðurgreiðslu á rafmagnsbílum, bæði við kaup og í rekstri, hefði aukning hjólreiða að öllum líkindum verið enn meiri. Rafmagnsbílar hafa lengi notið sérkjara, svo sem engra eða mjög lágra bílastæðagjalda, auk þess að fá að nota forgangsakreinar strætisvagna. Þá var það ekki fyrr en nýlega sem þrengslaskattar/tollhlið borgarinnar tóku til rafmagnsbíla, og jafnvel nú er gjaldið enn mjög lágt.
Ennfremur hefur ofgnótt rafmagnshlaupahjóla líklega dregið úr hjólreiðum, þar sem fleiri hefðu annars valið að hjóla.
Áhrif aukinna hjólreiða á slysatíðni og samfélagslegan ábata
Aukning hjólreiða á tímabilinu 2015-2024 hefur haft ýmis jákvæð áhrif. Til dæmis fækkaði þeim slysum við samgönguhjólreiðar sem leiddu til meðferðar á bráðamóttöku, um 32% á tímabilinu miðað við hverja milljón km hjólaða.
Útreikningar sýna að samfélagslegur ábati af hjólreiðaáætluninni er töluverður. Aðgerðirnar skila nettóvirði upp á 3,9 milljarða NOK í samfélagslegum ábata. Helstu áhrifaþættir eru:
- Bætt lýðheilsa
- Minni óöryggistilfinning meðal hjólreiðafólks
- Minnkuð hætta á meiðslum
Hverjir hjóla og hvernig?
Reiðhjólið er sérstaklega hentugt fyrir ferðir til og frá vinnu. Hlutfall hjólreiða í slíkum ferðum er 15,9%, sem er töluvert hærra en meðaltalið yfir allar ferðir (8,6%). Þetta er veruleg aukning frá 2013/14, þegar hlutfallið var aðeins 6,3%.
Karlmenn eru enn stærsti hópurinn meðal þeirra sem hjóla þó hlutfall hjólandi kvenna hafi jafnframt aukist. Einnig hefur orðið aukning meðal eldri borgara (60+ ára), háskólanema og lágtekjufólks.
Fjölbreyttari gerðir reiðhjóla hafa einnig stuðlað að aukningu í hjólreiðum. Í ferðavenjukönnuninni 2022/23 kom fram að 40% af öllum hjólreiðaferðum í Osló voru farnar á rafmagnshjólum.
Niðurstaða og næstu skref
Matið á hjólreiðastefnu Oslóarborgar sýnir að markviss stefna og úrbætur í innviðum hafa bein áhrif á aukningu hjólreiða. Árangurinn sem náðst hefur í Osló á síðustu 10 árum gæti verið fyrirmynd fyrir aðrar borgir.
Heimild: Evaluering av Oslos sykkelstrategi 2015-2025 (2024)
Mynd tekin úr hönnunarleiðbeiningum Osló, „Gatenormal for Oslo“.