Nú þegar er búið að uppgötva svæðið sem vettvang fyrir hetjulegar keppnir. Vesturgatan er löngu orðin þekkt en fyrir skemmstu er Skutulsfjörður kominn á kortið hjá Enduro-fólki. Um þá blómlegu starfsemi má lesa í síðasta hefti Hjólhestsins. Nýlega voru heimskunnir hjólreiðamenn á ferðinni um Vestfirði og heilluðust af þeim og létu það álit sitt rækilega í ljós á miðlum sínum. Þekktastur þeirra er Bandaríkjamaðurinn Chris Burkard. Hann er ævintýramaður sem tekur ljósmyndir og kvikmyndir og er talsmaður umhverfisvænna ferðamáta og spennandi náttúruupplifanna. Lael Wilcox er meðal þekktustu og sigursælustu keppnismanneskjum heims. Þau, ásamt þremur félögum, hjóluðu Vestfjarðaleiðina í septemberbyrjun 2021. Afraksturinn er heil ósköp af ferðalýsingum í orðum og ljósmyndum auk kvikmyndar. Önnur kvikmynd um hjólreiðar á Vestfjörðum er nýkomin út. Hún er um ferðalag hjólreiðakonunnar Jenny Graham um kjálkann.

Halldóra Björk Norðdahl heitir kona ein á Ísafirði. Hún er á réttum stað og réttri stund, svo að halda mætti að þessi vestfirska hjólaþróun öll hafi verið hönnuð með hana í huga. Hún útskrifaðist nýlega frá ferðamálabrautinni á Hólum. Lokaverkefnið hennar þar fjallaði um upplifun reiðhjólaferðamanna á Vestfjörðum. Líkt og hún sjálf, heilluðust viðmælendur hennar af Vestfjörðum sem stað til að hjóla á, þrátt fyrir - og líka vegna - erfiðra vega og veðurs. Halldóru fannst að sem flestir ættu að fá að kynnast svæðinu sem áfangastað fyrir hjólreiðar. Hún fór að setja saman hugmyndir. Svo kom Vestfjarðaleiðin til sögunnar. Halldóra hjólaði með manni sínum um Jakobsveginn á Spáni um þetta sama leyti. Sú ferð ýtti undir hugmyndaflugið. Verkefnið fór að taka á sig mynd.

Kynningarkort af Vestfjarðaleiðinni af vef Vestfjarðastofu: www.vestfirdir.is

 

Svona er verkefnið: Boðið er upp á þrjár miserfiðar Vestfjarðaleiðir fyrir hjólreiðafólk. Þær eru hringleiðir um Vestfirði og Dali, líkt og Vestfjarðaleiðin sem vestfirsku ferðaþjónarnir skilgreindu, nema að þessar leiðir eru hannaðar með hjólreiðafólk í huga. Það má segja að um áskorun eða leik sé að ræða. Fólk þarf að skrá sig til leiks og borga vissa þóknun, eitthvað nálægt 15.000 krónum (skrifað í landi verðbólgu snemma árs 2022). Þau sem ljúka við sína áskorun fá viðurkenningarskjal og nafn þeirra birtist á heimasíðu verkefnisins. Það er hvati sem notaður er til að trekkja fólk til leiks. Þátttakendur fá auk þess pakka í ferðanesti; eitthvað gott að maula á leiðinni, sérhannað hjólakort af svæðinu og gagnlega létta gripi. Auk þess fá hjólararnir sérstök kjör hjá ýmsum ferðaþjónum á svæðinu og ráð og aðstoð frá aðstandendum verkefnisins og bandamönnum þeirra. Hjólararnir ferðast með Cycling Westfjords-merki, þannig að þeir þekkist. Þetta er ekki keppni að öðru leyti en því að fólk þarf að ljúka við hringinn til að öðlast sína viðurkenningu. Hversu langan tíma það tekur skiptir engu máli. Enginn er að reka á eftir – það er best að hafa fólk sem lengst á svæðinu svo það geti notið sérstöðu þess og eytt peningunum sínum þar. Þátttakendur þurfa bara að muna eftir að taka ljósmyndir á vissum stöðum til að sanna að þeir hafi verið þar. GPS-ferlar eru einnig æskilegir, án þess að vera skilyrði.

Merki verkefnisins

 

Hringleiðirnar sem fólki stendur til boða geta verið mismunandi – fólk þarf að ná visst mörgum stigum til að fá sína viðurkenningu. En til að gefa hugmynd um hversu langar og krefjandi þær eru, þá eru hér lýsingar með dæmigerðri lengd og hækkun leiðanna þriggja:

Smyrill. Þetta er auðveldasta leiðin. Hún fylgir akvegum að öllu leyti, þ.á m. göngunum. Göngin spara brattar og erfiðar leiðir yfir heiðar. Hlutfall bundins slitlags er hærra á smyrils-leiðinni en á hinum tveimur. Það skyldi samt enginn ætla að þetta sé einhver hægðarleikur; samtals er leiðin heilir 809 km að lengd og uppsöfnuð hækkun er 11.300 metrar.

Fálki. Þessi leið er bæði lengri og erfiðari en Smyrillinn. Í staðinn fyrir að hjóla Dýrafjarðargöngin þurfa fálkarnir að paufast yfir Hrafnseyrarheiðina. Þeim er einnig gert að fara lengri leiðir, svo sem að fara fyrir Mjóafjörð í Djúpi í stað þess að þvera fjörðinn á brúnni og að hjóla Gilsfjörð. Enn meira munar um að taka auka hringleið í Kaldrananeshreppi með viðkomu á Drangsnesi. Eins lengist leiðin og hlutfall malarvega ríflega við að hjóla Fellsströnd og Skarðsströnd. Í heild sinni er fálka-hringleiðin 1.044 km löng og uppsafnaða hækkunin er 14.830 metrar.

Örn. Þessi leið er fullorðins, eins og sagt er. Fálkar og Smyrlar fylgja akvegum. Það er tæpast hægt að segja að það eigi við um Ernina í öllum tilvikum. Þeir fara gamlar leiðir sem leystar hafa verið af hólmi með nýjum. Sumar þeirra eru orðnar illfærar eða ófærar vélknúnum farartækjum, svo sem Þingmannaheiði, leiðin milli Langadals og Þorskafjarðarheiðar og vegurinn yfir Breiðadalsheiði. Framhaldið af síðastnefndum er jafnvel enn erfiðara, en það er línuvegur sem liggur frá Botnsheiði yfir í Syðridal hjá Bolungarvík. Á sumum stöðum þurfa Ernir að vaða óbrúaðar ár og læki. Þannig er það á Svalvogahringnum (Vesturgötunni / leiðinni fyrir nes) og í Haukadalsskarði í Dölum. Leiðin er alls 1.200 km að lengd og uppsöfnuð hækkun er 19.400 metrar. 

Þetta eru leiðirnar sem lýst er hér að ofan. Þær þurfa ekki að vera nákvæmlega svona.
Markmiðið er að safna visst mörgum stigum til að verða Smyrill, Fálki eða Örn.

 

Ómar Smári Kristinsson og Halldóra Björk Norðdahl uppi á Hestakleifarfjalli, milli Botnsheiðar og Bolungarvíkur, að rökræða hvernig best sé að merkja leiðina þar yfir fyrir Ernina. Ljósmynd: Kristinn Jónsson.

 

Leiðirnar sem dregnar eru á kortin hér að ofan eru meira til viðmiðunar en að þær séu ófrávíkjanlegur sannleikur. Leikurinn gengur, sem fyrr segir, út á að safna stigum. Fólk fær visst mörg stig fyrir að mæta á ákveðna staði og sanna það með ljósmynd. Staðirnir gefa mismörg stig eftir því hve erfiðir þeir eru viðureignar. Þéttbýlisstaðirnir gefa auk þess mörg stig. Það er gert til að tryggja íbúum þar góða gesti (viðskiptavini). Dæmi um mismunandi stigagjöf eru Vestfirsku Alparnir, milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Smyrlarnir fá ekkert stig fyrir að fara göngin, Fálkarnir fá 20 stig fyrir að hjóla yfir Hrafnseyrarheiði en Ernirnir raka inn 30 stigum fyrir að fara fyrir nes (Svalvogahringinn). Allir fá svo sín 30 stig hver þegar þeir koma til Þingeyrar. Ernir og Fálkar fá 10 stig hvor fyrir að hjóla inn í botn Dýrafjarðar og svo aftur í Önundarfirði en Smyrlarnir halda beinustu leið yfir brýr til að komast í sín næstu 30 stig á Flateyri.  

Smyrill, Fálki og Örn fara stundum sömu leiðir og stundum ekki.
Allir koma þeir við í þorpum og bæjum. Ljósmynd: Ómar Smári Kristinsson.

 

Ef fólk þekkir hvorki Vestfirðina, íslenska veðrið né sjálft sig í þeim aðstæðum, getur verið ráðlegt að byrja á Smyrlinum. Ef það tekst og fólk langar í meira getur það „hækkað sig í tign“ og farið af stað aftur til að safna þeim stöðum / stigum sem upp á vantar til að verða Fálki eða Örn. Þá þarf það að skrá sig aftur til leiks. Það þarf ekki að ljúka heilum hring í einni lotu. Það má deila áskoruninni niður á nokkur skipti; jafnvel nokkur ár, án þess að greiða nýtt startgjald. Aðeins eitt gjald er fyrir hverja áskorun með tilheyrandi viðurkenningarskjali. Hægt er að fá aðstoð aðstandenda verkefnisins til að sérhanna leið sem hentar þátttakendum. Halldóra er nú þegar búin að klæðskerasauma leiðir fyrir nokkra viðskiptavini.

Stigataflan:
Smyrill: 300 stig.
Fálki: 450 stig.
Örn: 600 stig.

Hér er kort í vinnslu. Á því eru upplýsingar um þjónustuna á svæðinu og vegakerfið; bratta, umferðarþunga og tegund vega. Svörtu punktarnir tákna staðina sem fólk á að stoppa á og taka myndir af og hversu mörg stig þeir gefa.

 

Nærmynd af kortinu. Þar sem eru hvítir rammar utan um staðarheiti eru sérkjör í boði fyrir þátttakendur. Útsjónarsamir ferðalangar geta sparað sér allt þátttökugjaldið ef þeir eru duglegir við að nýta sér afslættina.

 

Loks er það fjórða leiðin, einnig kennd við fugl, sem er óbreytanleg. Það er Kría. Hún er sér á parti. Hún er keppni sem haldin verður dagana 28. júní til 3. júlí 2022. Leiðin er 930 km og verður hjóluð í fjórum áföngum, sem þýðir að keppendur þurfa að fara vel yfir 200 km á dag. Þeir þjóta. Þeir eiga samt líka að fá að njóta, því næstsíðasti dagurinn er hvíldardagur auk þess sem á hverjum legg eru menningarstopp (söfn, kaffihús, laugar o.fl.) og er tímatakan stoppuð á meðan. Það má eiginlega segja að Chris Burkard hafi fært Vestfirðingum þessa keppni að skilnaði eftir að hafa hjólað hringinn með félögum sínum. Þau komust að því að þetta væri frábær keppnisleið og Chris hafði orð á því opinberlega. Eftir sátu Halldóra og félagar hennar með þann dóm og ákváðu að gera alvöru úr orðum hans.

Nokkur orð að lokum um félaga Halldóru, fólkið sem hjálpaði henni að láta drauminn rætast:
Tyler Wacker er bandarískur samgönguverkfræðingur sem stundar nám við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði. Hann var fyrsti maðurinn til að hjóla Vestfjarðaleiðina, í þ.m. eftir að hún varð skilgreind sem slík. Þeirri rannsóknarvinnu miðlaði hann til Burkhards og félaga. Tyler á þannig sinn þátt í því að gera Vestfirði heimsfræga í hjólakreðsunni. Hann greip hugmyndina um keppnina á lofti og hefur verið ötull við að skipuleggja hana. Hann hefur verið öllum duglegri við að fylla heimasíðu verkefnisins af upplýsingum og innihaldi í samstarfi við samnemanda sinn úr háskólasetrinu, Lynnee Jacks og Ingvar Ómarsson sem allir íslenskir unnendur hjólreiðasports þekkja að góðu. Tyler hefur sinnt hjólaviðgerðum á Ísafirði frá því hann mætti á svæðið og er með hugmyndir um varanlegt verkstæði. Nánar má lesa um kappann í síðasta hefti Hjólhestsins, þar sem hann lýsir seinni hluta hjólaferðalags síns frá San Francisco til Ísafjarðar.

8. júní 2021. Tyler Wacker er hér rétt norðan við Búðardal, hálfnaður með Vestfjarðaleiðina.
Ómar Smári Kristinsson tók myndina. Hann var á leið í Hjólabókaverkefni þegar hann mætti Tyleri.

 

Auk Tylers hefur Nanný Arna Guðmundsdóttir verið duglegust að hjálpa Halldóru við að finna fjármagn til verkefnisins. Nanný er flink í þeim geira, enda rekur hún ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures með manni sínum. Meðal þess sem það fyrirtæki býður upp á er reiðhjólaleiga. Nanný er hjólreiðakona mikil.

Loks er það ég, höfundur þessarar greinar. Ég hannaði lógóið og er að teikna kort og fleira. Ég hef verið nokkurs konar klappstýra og hef miðlað af reynslu minni um slóðana utan alfaraleiðarinnar.

Cycling Westfjords-teymið: Fyrir ofan eru Dóra og Smári og fyrir neðan Nanný og Tyler.
Myndirnar eru á heimasíðu verkefnisins, www.cyclingvestfjords.com

 

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkti Cycling Westfjords.

Ómar Smári Kristinsson

© Birtist í Hjólhestinum mars 2022.