Leiðtogar ríkja þurfa að skuldbinda sig til að efla hlutdeild hjólreiða til að draga úr kolefnislosun og ná loftslags markmiðum fljótt og með skilvirkum hætti.
Heimurinn þarfnast stóraukinna hjólreiða ef okkur á að takast að vinna gegn hamfarahlýnun. Ef ríkisstjórnir bregðast ekki hratt og örugglega við til að draga úr kolefnislosun í samgöngum munu framtíðarkynslóðir fá í arf heim sem er óvistlegri og hættulegri.
Þess vegna skorum við undirrituð, 300 samtök um allan heim sem vinna að auknum og bættum hjólreiðum, á allar ríkisstjórnir og leiðtoga sem sækja þessa 26. ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP 26) í Glasgow til að skuldbinda sig til að fá fleiri til að hjóla í löndum sínum. Ríkisstjórnir geta gert þetta með því að byggja meira af hágæða hjólreiðainnviðum, samþætta hjólreiðar við almenningssamgöngur, bæta öryggi og með því að innleiða stefnur sem hvetja fólk og fyrirtæki til þess að skipta út bílferðum fyrir hjólreiðar og aðra ferðamáta eins og göngu og almenningssamgöngur. Hornsteininn í stefnu heimsins, þjóðríkjanna og staðbundinna yfirvalda til að ná kolefnishlutleysi verður að vera að hvetja til og skapa aðstæður sem nýtast virkum samgöngum.
Á heimsvísu losa samgöngur um 24% af CO2 frá bruna eldsneytis. Umferð bíla veldur um ¾ af þeirri losun, og þessi losun fer hratt vaxandi. Til viðbótar við þá ósjálfbæru losun CO2 frá umferð sem veldur hamfarahlýnun, menga bílar andrúmsloftið sem aldrei fyrr og áætlað er að mengunin leiði árlega til ótímabærra andláta um sjö millióna manna á heimsvísu.
Skýrsla Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC) “Global Warming of 1.5°C” tiltekur hjólreiðar sem leið til að tryggja örugga og sjálfbæra veröld fyrir alla í nútíð og framtíð. Hjólreiðar menga ekki og losa engan koltvísýring og þær skila samfélögum víðfemum jákvæðum áhrifum á félagsauð og efnahag þjóða og samfélaga.
Hjólreiðar er ein besta og árangursríkasta leið mannkyns til að draga úr losun kolefnis og ná kolefnishlutleysi. Nýjar rannsóknir á lífsferilsgreiningum ferðamáta sýna að losun CO2 minnkar um 14% með hverri ferð á reiðhjóli og um 62% fyrir hverja bílferð sem menn sleppa. Ef maður skiptir út bíl fyrir reiðhjól sparast um 150 g af CO2 á kílómeter. Raf farangurs reiðhjól minnka losun kolefnis um 90% miðað við dísel flutningabíl. Að skipta út bíl fyrir göngu eða hjólreiðar í borgum í aðeins einn dag í viku getur minnkað kolefnisfótspor manns um hálft tonn af CO2 á ári. Að samþætta virka ferðamáta við aðra ferðamáta eins og almenningssamgöngur getur styrkt og aukið við sparnað í losun kolefnis.
Jörðin okkar er hætt komin. Við þurfum að stórauka hlutdeild reiðhjóla í ferðum í borgum og sveitum til að ná kolefnishlutleysi. Nú er nauðsyn að ríkisstjórnir og stjórnvöld heiti pólitískum og fjárhagslegum stuðningi við auknar hjólreiðar, öruggari hjólreiðar og til að þær verði aðgengilegar fyrir alla óháð stétt eða stöðu í öllum löndum, borgum og héruðum. Við hvetjum allar ríkisstjórnir og leiðtoga á COP 26 til að: Lýsa yfir skuldbindingu til að auka hlutdeild hjólreiða heima fyrir. Þetta geta þau gert með því að:
Hvetja til allskonar hjólreiða eins og t.d. reiðhjóla ferðamennsku, sport hjólreiða, deilireiðhjóla, æfingahjólreiða og hjólreiða til samgangna í vinnu og skóla.
Viðurkenna hjólreiðar sem áhrifaríka leið til að draga úr losun koltvísýrings með því að hafa skýra mælikvarða sem draga fram að skýr tengsl eru á milli aukinna hjólreiða og færri bílferða og minni losunar CO2.
Að búa til og fjármagna hjólreiðaáætlun í löndum sínum og safna tölulegum upplýsingum um hjólreiðar til að skilja hvar þörf er á betri innviðum og hvar þörf er á hvatningu til hjólreiða.
Að leggja áherslu á að byggja örugga innviði fyrir reiðhjól af háum gæðum og með hvatningu og ívilnunum fyrir samfélög og stéttir sem hafa sögulega haft minni aðgang að hjólreiðum.
Að skapa beinar ívilnanir fyrir fólk og fyrirtæki til að skipta út bílum fyrir reiðhjól í daglegum ferðum.
Að skapa samlegðaráhrif með almenningssamgöngum og skapa skilyrði fyrir samþættingu ólíkra ferðamáta til að ferða þörfum fólks sé fullnægt án aðkomu einkabíla.
Að skuldbinda sig sameiginlega til að ná hnattrænu markmiði um hærri hlutdeild hjólreiða í ferðum. Auknar hjólreiðar í fáum löndum dugar ekki til að draga úr losun koltvísýrings á heimsvísu. Öll lönd verða að leggja sitt af mörkum og það verður að fylgjast með því á vettvangi SÞ.
Það er engin leið fyrir stjórnvöld að draga úr losun CO2 nógu hratt til að forðast verulega hamfarahlýnun án þess auka hlutdeild hjólreiða verulega. Hjólreiðar bjóða eina bestu þekktu lausnina sem við búum nú þegar við til að tryggja að plánetan okkar verði byggileg fyrir komandi kynslóðir.
Undirritað af 300 samtökum hjólreiðamanna um allan heim (10. nóv. 2021).
F.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna,
Árni Davíðsson, formaður.
Þýðing Árni Davíðsson og Páll Guðjónsson.
© Birtist í Hjólhestinum mars 2022.