Árið eftir, 2015, tók ég þátt í fyrsta sinn og hef ekki misst af einu einasta Tweed Ride síðan þá. Ég hef stöðugt bætt við og lagt mig meira fram hvað varðar útbúnað á hjólið, fatnað og aukahluti. Hef ég meðal annars keypt og gert upp antík reiðjól og smíðað hliðarvagn á Reidhjólið góða. Enda er Tweed Ride þess eðlis að það er alltaf hægt að fara skrefinu lengra, breyta einhverju eða bæta einhverju við. Þegar Tweed Ride er lokið er ég strax farinn að hlakka til næsta Tweed Ride að ári. Ég hef auk þess að fara sjálfur dregið þrjá af vinum mínum með og veit ég ekki betur en þeir hafi skemmt sér mjög vel.

En hvað er svo þetta Tweed Ride? Tweed Ride er skrúðreið um miðborg Reykjavíkur á klassískum reiðhjólum og í sígildum fatnaði í anda bresks hefðarfólks. Hjóluð er skemmtileg leið um miðborg Reykjavíkur og í lokin eru veitt verðlaun fyrir fallegasta hjólið, best klæddu dömuna og best klædda herrann.

Fyrsta skrúðreiðin var haldin í Reykjavík árið 2012, að breskri fyrirmynd en allra fyrsta Tweed Ride skrúðreiðin var haldin í London 2009. Tweed Ride hefur verið haldið víðar um heiminn en í London, Reykjavík og Akureyri. Má þar helst nefna Sankti Pétursborg í Rússlandi, Portland í Bandaríkjunum, Viktoríu í Kanada, Dunedin í NýjaSjálandi, Varsjá í Póllandi og Kaupmannahöfn í Danmörku.

Þó að áhersla sé lögð á klassísk hjól og fatnað er það það ekki skylda og hefur fólk verið á fjallahjólum sem hafa verið skreytt þannig að þau líti út fyrir að vera klassísk reiðhjól. Það geta allir verið með og tekið þátt í Tweed Ride. Skrúðreiðin er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna og vekur mikla athygli allsstaðar þar sem þátttakendur hjóla um miðbæ Reykjavíkur. Tweed Ride 2021 verður haldið þann 5. júní næstkomandi og hvet ég alla sem hafa áhuga á að vera með að skrá sig á www.tweedride.is.

Sjáumst í Tweed Ride,
Unnar Reynisson

 


Ljósmyndir: Páll Guðjónsson. Fleiri myndir á hjolreidar.is