Veðurstofan hefur um langt árabil safnað veðurupplýsingum, þar á meðal á mörgum stöðum um vindstyrk. Hvað geta þær upplýsingar sagt okkur um vindafar? Til þess ætla ég að sýna nokkrar myndir sem ég hef tekið saman úr gögnum um meðalvind yfir árið á nokkrum veðurstöðvum hér heima og erlendis. Í því sambandi verð ég að hrósa Veðurstofunni fyrir að hafa slík gögn aðgengileg fyrir almenning en það virðist ekki jafn auðvelt að nálgast sambærileg gögn erlendis.

1. mynd. Meðalvindur á ári á nokkrum veðurstöðum yfir mislöng tímabil.
Reykjavík og Akureyri árin 1949-2019, Keflavíkurflugvöllur árin 1953-2019.
Miðlína=miðgildi, kassi 50% gilda, strik 25% gilda, punktar=útgildi.

Meðalvindur er nokkuð breytilegur milli veðurstöðva (1. mynd). Það eru til veðurstöðvar sem virðast í eðli sínu skjólsælar eins og t.d. Akureyri, Kirkjubæjarklaustur og Teigarhorn á Íslandi og það kemur sjálfsagt fáum á óvart að stöðvar erlendis eru margar skjólsælar eins og t.d. inn til landsins í Svíþjóð. Aðrar eru vindasamar og er þar Stórhöfði vindasamastur. Sama má segja um aðrar stöðvar eins og t.d. Fagurhólsmýri og Keflavíkurflugvöll en það kemur kannski á óvart að margar stöðvar erlendis við sjávarsíðuna eru ekki síður vindasamar eins og t.d. Måseskär á vesturströnd Svíþjóðar.

2. mynd. Ársmeðalvindur á fimm veðurstöðvum yfir árabil.

Á flestum veðurstöðvum er árs meðalvindur aðeins breytilegur milli ára og á einhverjum má sjá skörp skil sem sennilega má rekja til breytinga í mælingum. Á nokkrum stöðvum má líka sjá munstur í breytingu á árs meðalvindi. Ein slík og sú sem sennilega sýnir skýrasta munstrið er Reykjavík. Þar hefur árs meðalvindur breyst frá því að vera sambærilegur við Keflavíkurflugvöll árin eftir 1950 til þess að vera sambærilegur við veðurstöðina fyrir Kaupmannhöfn árin eftir 2000. Á 2. mynd má sjá þessa þróun fyrir Reykjavík, Akureyri og Keflavíkurflugvöll frá um 1950-2019 ásamt styttra tímabil fyrir Kaupmannahöfn og Kastrup.

3. mynd. Meðalvindur á ári yfir árabilið 1949-2019 í Reykjavík. Lína aðhvarfslíkans er sýnd.

Á 3. mynd má sjá þessa breytingu með skýrum hætti fyrir Reykjavík með aðhvarfslínu á punktana. Meðalvindur í Reykjavík hefur farið úr 6.8 m/s á áratugnum 1950-59 í 3.9 m/s á áratugnum 2010-19. Meðalvindur í Keflavík var 6.8 m/s á áratugnum 1950-59 og var sömuleiðis 6.8 m/s á áratugnum 2010-19. Síðastliðna tvo áratugi hefur meðalvindur í Reykjavík verið á pari við meðalvind í okkar fornu höfuðborg Kaupmannahöfn (4. mynd). Árs meðalvindurinn í Reykjavík virðist meira að segja komin um 1 m/s niður fyrir flugvöll Kaupmannahafnar í Kastrup. Gamla góða afsökunin að það sé ekki hægt að hjóla vegna þess að það sé ekki logn eins og í Köben virðist því ekki lengur gild.

4. mynd. Árs meðalvindur á fimm veðurstöðvum eftir árið 2000.
Akureyri, Keflavíkurflugvöllur og Reykjavík yfir 20 ára tímabil 2000-2019,
Kastrup yfir árin 2004-2006 og 2012-2019 og Kaupmannahöfn yfir árin 2007-2011.
Miðlína=miðgildi, kassi 50% gilda, strik 25% gilda, punktar=útgildi.

Árs meðalvindur í Reykjavík er nú um 3 m/s minni en á Keflavíkurflugvelli en var sambærilegur fyrir um 60-70 árum. Hvaða breytingar hafa orðið í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ekki orðið á Keflavíkurflugvelli á þessum tíma? Það virðist blasa við að það er berangrið sem hefur þurft að láta á sjá á höfuðborgarsvæðinu en ekki á Keflavíkurflugvelli. Byggðin sem hefur risið á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður gróðurinn sem hefur verið ræktaður í görðum og á skógræktarsvæðum hefur aukið viðnám yfirborðsins gagnvart vindi. Þetta má greinilega sjá á myndum frá Hringbraut þar sem sú fyrri var tekin fyrir 1955 og sú síðari er tekin í ár (5. og 6. mynd). Hrýfi yfirborðs landsins hefur aukist og það hefur dregið úr vindinum og umhverfið er orðið skjólsælla og að flestra mati vistlegra líka. Þetta sýnir okkur hverju við getum áorkað til að minnka vind og bæta lífsgæði í nærumhverfinu. Það virðist blasa við að ef við viljum hafa skjólsælt umhverfi ættum við að þétta byggð og auka ræktun í þéttbýlinu og í kringum það. Með því móti færum við Kaupmannahöfn til Íslands. Landssamtök hjólreiðamanna, sem vinna að bættri aðstöðu til hjólreiða, leggja áherslu á það í sínum málflutningi, að við stíga og götur verði unnið gegn vindi með gróðursetningum og góðu skipulagi, því vindur og hvassviðri getur sannarlega verið óvinur hjólreiða og annarra virkra samgöngumáta.

Mynd 5. Við Hringbraut 1955.
Úr “Myndir frá Reykjavík”, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1955.  Ljósmynd Haraldur Teitsson.

Mynd 6. Við Hringbraut 2020. Ljósmynd Árni Davíðsson.

Fyrir höfuðborgarsvæðið virðist ljóst að við getum enn minnkað vind. Vindur er mjög breytilegur innan höfuðborgarsvæðisins og víða er enn berangur sem má rækta á tré og runna. Í þessari ræktun má hafa fjölbreytni og framvindu gróðurs að leiðarljósi og byrja með fljótsprottnum tegundum með hægsprottnum langlífari tegundum innanum sem vaxa upp í skjóli þeirra. Eftir því sem þær vaxa úr grasi má síðan taka hinar fljótsprottnari og eru þá hægsprottnar tegundir eftir sem oft þurfa litið viðhald til langframa. Við ráðum hvort við veljum berangur eða skjól. Vind eða logn.

Það er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu sem hægt er draga úr vindi. Það á við um flest þéttbýli á landinu.  Hvað við viljum er pólitísk spurning. Boltinn er þar með komin á vallarhelming stjórnmálanna.

Heimildir:
[1] Ísland. Veðurstofan. Tímaraðir fyrir valdar veðurstöðvar. https://www.vedur.is/vedur/vedurfar/medaltalstoflur/
[2] Svíþjóð. Vindstatistik för Sverige 1961-2004. https://www.smhi.se/publikationer/vindstatistik-for-sverige-1961-2004-1.10007
[3] Danmörk. Vejr- og klimadata Danmark Årsoversigt. https://www.dmi.dk/vejrarkiv/