Eftir lestur bókarinnar fór ég að rifja upp hvað ég hafi lesið fleira um reiðhjól í teiknimyndasögum. Það tókst mér ekki. Þegar ég las allar teiknimyndasögur sem komu út á Íslandi, á gullaldarárum þeirra bókmennta, þá var ég ekki með hjóladellu, þannig að mér var kannski ekki vorkunn þó ég myndi ekki eftir neinu. Ég þurfti því að fletta mig í gegnum staflana, til að fríska uppá minnið. Þar var ekki margt að finna. Ég held að það séu einkum tvær ástæður fyrir því. Önnur er skiljanleg: Margar sagnanna gerast á því tímabili mannkynssögunnar þegar reiðhjólið er ekki komið til sögunnar. Hin ástæðan gæti verið sú að reiðhjólið sé ekki nógu spennandi farartæki fyrir sögur sem einkennast af hraða og spennu. Það ber að nefna að teiknimyndasögur fjalla um allt á milli himins og jarðar, líkt og aðrar bókmenntir gera líka. Það sem þýtt hefur verið á íslensku er ekki nema brotabrot af þeim mikla hafsjó bóka sem teiknaðar hafa verið. Þær sem komu út hérlendis hafa flestar mikið skemmtanagildi; eru auðmeltar og fullar af hasar og / eða húmor.
Auðvitað tókst mér ekki að fletta mig í gegnum allt myndlesefni sem komið hefur út á landi hér. T.d. hef ég ekki fundið nema lítið eitt af öllum þeima aragrúa Andrésblaða sem á vegi mínum hafa orðið í gegnum lífið. Í þeim fer ekki mikið fyrir reiðhjólum. Kannski það hefði verið meira ef Andrés væri danskur, einsog ég hélt fyrst að hann væri. Nei, Andrés greyið er bandarískur og í heimalandi hans eru reiðhjól ekki algengir farskjótar, víðast hvar.
En hvað þá með Rasmus Klump? Hann er danskur. Í þeim bókum sem ég skoðaði (flestar) var ekkert eiginlegt reiðhjól en í einhverskonar keppni notuðu sögupersónur meðal annars einhjól og sparkbretti á hjólum. Andrés önd og Rasmus Klumpur eru dýr. Miðað við allar græjurnar sem þessi dýr nota í ævintýrum sínum, ættu þau að fara létt með að valda reiðhjólum. En hvað þá með mannfólkið?
Frakkland og Belgía eru Mekka evrópskrar myndasagnahefðar. Þar hefur myndasagan skotið dýpstum rótum og haft til þess einna lengstan tímann. Þar eru hjólreiðar líka gamalgrónar. Þó að þessi lönd standist Danmörku og Hollandi ekki snúning sem hjólalönd, þá eru hjólreiðar fyrir löngu orðnar þar að eðlilegum samgöngumáta almennings. Við lestur myndasagnabókanna þaðan mætti ætla að svo hafi ekki verið. Ætli Tinnabækurnar séu ekki þekktasta fransk-belgíska afurðin. Vissulega gerast þær að stórum hluta á stöðum þar sem reiðhjóla er ekki að vænta, svosem á tunglinu, hafsbotni, fjallstindum eða frumskógum. En í flestum þeirra er líka hið venjulega vesturevrópska samtímalandslag. Þrátt fyrir það fann ég aðeins reiðhjól í fjórum Tinnabókum. Í Bláa Lótusnum er eini hjólreiðahasirinn sem Tinni lendir í. Það tók hann ekki nema sjö ramma að klessa hjólið. Vélknúin ökutæki endast honum yfirleitt lengur. Þessi sena gerðist í Kína. En á sömu opnu er minnst á Tour de France. Í sjö kraftmiklum kristalskúlum eru bófar á bíl sem ekki virða stöðvunarmerki belgísku reiðhjólalögreglunnar. Varðmaðurinn Sofmundur lætur orð falla sem minna á samskiptin á netmiðlum nútímans.
Palli og Toggi er skyldir Tinna (þeir eru allir afkvæmi Hergés). Þeir eru börn. Börn nota mikið reiðhjól. Nema Palli og Toggi; það eru trúlega of hversdagsleg verkfæri í höndum svo uppfinningasamra drengja. Allskyns kassabílar og jafnvel heimasmíðaðar flugvélar virðast henta slíkum börnum betur. Frosti og Frikki eru eldri drengir. Þeir eru teiknaðir í sama Tinna-stílnum og Palli og Toggi (enda var höfundur þeirra samstarfsmaður Hergés). Á einum stað í einni þriggja bóka sem komið hefur út um þá á íslensku veita þeir manni í hjólastól eftirför. Það gera þeir á gömlu tandem-hjóli sem þeir fundu. Í annarri bók kemur reiðhjól tvisvar fyrir. Myndin fyrir neðan sýnir annað atvikið.
Hergé sjálfur teiknaði Alla, Sigga og Simbó, sem eru börn og apaköttur. Bækurnar einkennast af hraða og spennu, enda eru flugvélar aðal græjurnar í þeim. Þó endar eitt æsispennandi kapphlaup við tímann á reiðhjóli, sem var eini tiltæki kosturinn, eftir að búið var að rústa öðrum farartækjum.
Dagbækur Rakelar er líka bók með börn í aðalhlutverkum. Sú bók er samin á 21. öldinni og er nýkomin út hjá Froski útgáfu. Þar eru reiðhjólin venjulegir fylgihlutir daglegs lífs. Froskur gefur líka út Skvísur. Það er líka nýlegt verk sem fjallar á ýktan hátt um hið vægðarlausa tímabil gelgjunnar. Meðal þeirra álaga sem hvíla á gelgjum er að finnast mótorhjólatöffarar æðislegir en reiðhjólalúserar glataðir.
Lóa er enn ein serían hjá Froski. Ólíkt og í svo mörgum seríum, þá eldist Lóa. Í fyrstu bókinni er hún barn en í nýjustu bókinni sem komin er út hérlendis er hún á efri unglingsárum. Þessi sjö bóka þroskasaga líður án afskipta söguhetjunnar á reiðhjólum. Á einum stað sést sendill og á öðrum póstur og á þeim þriðja er fyrrverandi fjórhjólatrukkstöffari sem sneri við blaðinu og gerðist dansari og ferðast eingöngu á reiðhjóli.
Hér nefni ég til viðbótar nokkrar fransk-belgískar seríur um börn og ungmenni sem (að litlum hluta) hafa verið gefnar út á íslensku: Siggi og Vigga og Steini sterki. Reiðhjól eru lítt áberandi í þessum sögum, þó þau sjáist í aukahlutverkum. Tímaflakkararnir eru nær okkur í útgáfutíma. Sögutíminn þar er mjög rokkandi – stundum í okkar nútíma. Eina reiðhjólið sem þar sést er á árinu 1950.
Það er næstum því þversagnakennt að það skuli vera bandarískt Walt Disney-afsprengi sem skákar flestum þessum evrópsku ungmennabókum. Það er Galdrastelpuserían sem Vaka-Helgafell gaf út í upphafi 21. aldarinnar. Sagan gerist í þremur heimum. Einn þeirra er þekkjanlegur okkur Jarðarbúum; bandarísk borg. Vonandi dæmigerð borg, því þar nota 13 – 14 ára unglingar reiðhjól sem hversdagslegan samgöngumáta. Það þykir hvorki sérstakt né hallærislegt.
Aftur að hinni frönskumælandi Evrópu: Hin fjögur fræknu eru á einhverjum óræðum aldri, líklega bara barnalegt hálf—fullorðið fólk. Sögurnar um þau gerast að miklu leyti í evrópsku 20. aldar umhverfi. Reiðhjól sjást í u.þ.b. þriðju hverri bók (mér tókst ekki að finna allar bækurnar).
Í bókinni um draugaskipið eiga hin fjögur fræknu einhverra hluta vegna ekki bílinn sem er svo áberandi í mörgum bókum um þau. Þau nota reiðhjól sem samgöngutæki og svo sem flutningstæki til að flytja fleka til strandar (eitt reiðhjól undir hvert horn). Þar er að fara af stað siglingakeppni á allskyns fleytum. M.a. er þar Viggó viðutan á heimasmíðuðum hjólabáti.
Þá er komið að Viggó viðutan. Hann ferðast ýmist á bílskrjóð sínum eða reiðhjóli, eftir því hvort hentar söguþræðinum betur (í fleiri en einu tilfelli eru ferðalög hans bland beggja). Reiðhjólið nýtist líka sem hráefni í uppfinningar, líkt og í fyrrgreindri, óvæntri innkomu hans í bók um hin fjögur fræknu (Viggó hefur tilhneygingu til að birtast sem aukapersóna í bókum). Viggó er án efa sú teiknimyndapersóna, sem komið hefur út á íslensku, sem heldur merki reiðhjólsins hæst á lofti. Það má spyrja sig hvort það sé vegna þess að hann er andhetja. Sá grunur er farinn að vakna að fransk-belgískir teiknimyndasagnameistarar séu ekki lausir við gelgjuna úr sér. En hvað um það, þá á Viggó marga snilldartakta með reiðhjólum. Þau koma meira eða minna við sögu í nær öllum Viggó-bókunum. Hér verða birt fáein mynddæmi, án skýringa.
Í myndinni hér fyrir ofan sést Valur, vinnuveitandi Viggós. Hann er aðalhetja, ásamt Sval, í Sval og Val-bókunum. Ættfræði teiknimyndasagna getur verið flókin, einkum í langlífum sögum sem teiknurum og höfundum endist ekki ævin til að vinna við. Að margra mati er það André Franquin sem á stærstan þátt í að gera Sval, Val og Viggó að góðvinum teiknimyndasagnaaðdáenda. Hann samdi og teiknaði öll Viggó-mynddæmin hér að framan. Í Sval og Val-bókunum er reiðhjólið til sem hluti af umhverfinu en nær ekkert umfram það. Af og til er það hluti af atburðarás en aldrei afgerandi. Þá sjaldan að því er gaumur gefinn, er það gætt einhverri sérstöðu, svosem tandemhjól eða hjól með hjálparmótor. Franquin virðist vera einna duglegastur Sval og Val-teiknara að setja reiðhjól inn í sögurnar, en munurinn er varla marktækur. Í næstu opnu verða sýnd tvö dæmi af mismunandi teiknurum.
Bækurnar um Gormdýrið eru eftir sömu höfunda og Svalur og Valur. Eðlilega eru engin reiðhjól í frumskógi dýranna en þau sjást ekki heldur í því manngerða umhverfi sem stundum er sögusvið. Litli Svalur er líka úr sömu smiðju (Tome og Janry). Þær tvær bækur sem komið hafa út á Íslandi eru án reiðhjóla. Snáðinn hefur önnur áhugamál – að sumra mati ekki í samræmi við aldur hans. Bækurnar um Samma og Kobba eru að vísu ekki eftir sömu höfunda og Svalur og Valur en þær eru teiknaðar í svipuðum stíl og komu til að byrja með út í sömu teiknimyndablöðum og þeir. Heimur Samma og Kobba er Chicago á bannárunum (og stundum aðrir staðir þess tíma), Nóg er af flottum bílum og frumstæðum vélbyssum en reiðhjól sjást ekki.
Ég hef ekki náð að sjá alla teiknimyndasögutitla sem komið hafa út á Íslandi. Mér tókst að skoða hluta eða heild eftirfarandi teiknimyndasagna um fullorðið fólk sem uppi er á tímum reiðhjólsins. Í þessum bókum / seríum sést reiðhjóli bregða fyrir: Benni flugmaður, Fótboltafélagið Falur, sögurnar um heimsstyrjöldina, Sam Pezzo, X men. Í þessum hef ég hvergi komið auga á reiðhjól: Vegur Dixie, Yoko Tsuno, 421, Háskaþrenna, M2, Stjáni blái, Alli kaldi, RBA, Hulk, Frank.
Margar teiknimyndasögur gerast í einhverskonar framtíð og / eða öðrum heimum en við búum í. Þær eru gjarnan morandi í allskonar græjum og geimflaugum. Bækur af þeirri gerð sem komið hafa út hérlendis eru algerlega lausar við svo hversdagslegt og jarðneskt fyrirbæri sem reiðhjól. Dæmi um þessar bækur eru Valerian, Enalta, Inkal, og Edena.
Framarlega í greininni var fjallað um dýr. Margar teiknimyndasögur fjalla um verur sem eru ekki dýr og ekki menn en eitthvað skyld báðum. Dæmi um það eru strumparnir. Þeir hegða sér einsog menn að því leytinu til að þeim er gjarnt að finna eitthvað upp. Þeir hafa spreytt sig við flugvélar og geimflaugar, með misjöfnum árangri, enda eru þeir einhverskonar miðaldafígúrur. Þeim datt þó ekki í hug að byrja smærra, einsog t.d. að finna upp reiðhjól. Skósveinar eru gulir stautar í gallabuxum. Þeir eru enn tækniglaðari og uppfinningasamari en strumparnir. Í eina skiptið sem reiðhjól koma við sögu hjá þeim, hefur hugvitssömum skósveini tekist að breyta líkamsræktarstöð með æfingahjólum í orkuver (hugmynd sem ég var að vísu búinn að skissa upp sjálfur). Þó múmínálfarnir séu bæði skandínavískir og samfélagslega réttþenkjandi, þá hef ég ekki fundið hjá þeim neitt reiðhjól.
Teiknimyndasagan er ný í íslenskri menningu, líkt og flest annað í íslenskri menningu. Hjólið var fundið seint upp á Íslandi. Það á líka við um reiðhjólið. Það hefur varla enn verið fundið upp í sögum íslenskra teiknimyndasagnahöfunda. Því sést bregða fyrir í bókum eftir Kristján Jón Guðnason, Bjarna Hinriksson og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Og svo tvö ágætis tilfelli, sem bæði tengjast Hugleiki Dagssyni. Það er ágætt að ljúka þessari samantekt með þeim.
Úr bókinni Ofan og neðan eftir Hugleik Dagsson. Aðdráttarafl Jarðar hætti að virka á fólk, þannig að það datt út í geim. Hugvitssamir og heppnir gátu haldið sér á Jörðinni og jafnvel ferðast. Hér hefur aðalhetja sett saman farartæki úr reiðhjóli, garðsláttuvél, húsgögnum og heimilistækjum. Lilja Hlín Péturs teiknaði myndirnar í sögunni.
“Þrjú hjól undir bílnum”. Úr bókinni Fleiri íslensk dægurlög eftir Hugleik Dagsson.
Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2020.