Gott og blessað, en þetta er samt sundurslitið. Þetta minnir mig á muninn á því að nenna að lesa heila bók eða lesa bara kaflaheiti og myndatexta. Fyrir mér er ferðalag heild. Bestu heildirnar upplifi ég á reiðhjóli, svona yfirleitt. Ekki í sama skilningi og heildarmynd úr flugvélarglugga. Það er æðislega gaman að sjá heiminn ofanfrá, en það er ekki sama þrívíddin, sama snertingin, sama virkjun skilningarvita, sama líkamlega tilfinningin og að vera á reiðhjóli. Þegar ég verð orðinn hrört gamalmenni, þá vona ég að tæknin hafi fengið frið til að þróast þannig að til verði góðir sýndarhermar fyrir innanhússhjól. Þá get ég skoðað mig um í löndum heims – ekki flettandi myndum, heldur puðandi í gegnum eina samhangandi mynd. Þetta kemur ekki í staðinn fyrir líkamlega upplifun raunferðalags en hefur þann kost að það er stutt í klósett, lyfjaskápa, bedda og önnur nauðsynleg gögn fyrir gamlingja.
Já, svona týpa er ég. Fólk sem upplifir heiminn frekar í áfangastöðum en leiðinni milli þeirra, frekar í punktum en línum, á trúlega erfitt með að skilja mig, hvernig ég nenni þessum þvælingi milli aðalatriða. Ég felli enga dóma (þó mér finnist auðvitað minn háttur betri). En ég vona bara að hin týpan finni einhverja leið til að njóta hjólreiða, vegna þess að þær eru svo mann- og heimsbætandi, líkt og bent er á með óteljandi rökum í Hjólhestinum og víðar.
Mynd: Höfundur hjá algengum upphafs- og endapunkti, heimili sínu.
Ljósmynd: Nína Ivanova
Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.