Eftir ráðstefnu sem ég sótti í borginni hafði ég nokkra tíma lausa og ákvað að skella mér á borgarhjól að skoða borgina. Borgarhjól eru hjól í stöndum um borgina sem hægt er taka á skammtímaleigu með lítilli fyrirhöfn. Greiðslufyrirkomulag er gjarnan með appi tengt greiðslukorti og maður skráir sig í mislanga áskrift. Í Malmö notar maður appið “Malmö by bike” [www.malmobybike.se/en] sem fæst í Google play store eða Apple Appstore. Áskriftarmöguleikar eru þrennskonar, 365 dagar, 72 tímar og 24 tímar og kostar það 250, 165 og 80 sænskar krónur. Eftir að hafa skráð sig er manni ekkert að vanbúnaði að taka hjól í næsta standi með notendanúmeri og pin númeri að vopni en heimamaðurinn getur sótt sér sérstakt kort til þess arna. Hægt er að nota hjólið í eina klukkustund í senn. Þegar sá tími er að renna út skilar maður hjólinu í næsta stand og tekur annað hjól í staðinn ef maður ætlar að halda áfram. Hjólin voru ágætlega útbúin með 7 nafgírum, nafrafal sem knýr fram og afturljós og handbremsum.
Ég hjólaði frá lestarstöðinni um 14 km hring en náði auðvitað ekki að sjá hana alla á tveimur tímum. Ég fór fyrst í suður í gegnum miðborgina og allt að Rosengård hverfinu sem er blokkahverfi með háu hlutfalli innflytjenda. Þar stóðu yfir framkvæmdir við nýja brautarstöð fyrir pendeltåg eins og úthverfalestir þeirra Svía heita. Þaðan lá leiðin í vestur framhjá lestarsstöðinni Triangeln þar sem m.a. mátti sjá hjólastæði og í gegnum garðinn Slottsparken með Malmö kastala að ströndinni þar sem brúin yfir Eyrarsund blasti við í fjarska. Þar utan við liggur hverfið Västra hamnen sem er frægt þróunarsvæði með íbúða- og athafnahúsnæði sem hefur verið byggt upp á s.l. 20 árum á gömlu iðnaðarsvæði við ströndina þar sem m.a. skipasmíðastöðin Kockums stóð áður. Ég fór um þetta hverfi í ljósaskiptunum og leist frekar vel á. Það er byggt þétt með fjölbreyttum húsum og virðist vinalegt við fyrstu sýn. Frægasta byggingin þar er “Turning Torso”, um 190 m há bygging með skrifstofum á fyrstu 12 hæðunum, íbúðum á 13.-52. hæð og ráðstefnu sölum á 53. og 54. hæð. Byggingin hverfist um 90° frá grunni að efstu hæð. Þetta er líka hæsta byggingin en flest húsin eru 3-5 hæðir.
Alla þessa leið hjólaði ég nær eingöngu á sérstökum hjólastígum. Það sem einkennir það sem ég sá af stígakerfinu í Malmö var að allir stígarnir voru tvístefnu stígar. Það er, þeir liggja öðrum megin götunnar og það er tvístefna hjólandi á þeim og miðĺina sem skilur að umferðarstefnurnar. Það er ólíkt því sem er handan sundsins í Kaupmannahöfn þar sem er langmest af einstefnu stígum sem eru lagðir sitthvoru megin götunnar og á að hjóla í umferðarstefnu bílanna. Almennt er það talið verra að hafa tvístefnu stíga þar sem hættan af slysum er talin meiri fyrir þá stefnu sem er á móti bílaumferð. Í Malmö virðist þetta þó ekki koma að sök. Talsverður hluti stíganna lá líka fjarri götum um garða eða opin svæði eða vel aðskilin frá götum. Einnig sá ég engar eiginlegar hjólareinar í plani með götum enda byggja þær á einstefnu samsíða umferð. Frágangur stíga, merkingar, vegvísarnir, þveranir og umferðarljós voru líka vel af hendi leyst.
Það er tvímælalaust hægt að mæla með því að kynnast borgum sem maður heimsækir með því að taka borgarhjól og hjóla um þær. Eins og við þekkjum vel frá Reykjavík sér maður aðra staði en maður er vanur þegar maður er á bíl og maður er fljótur á milli staða og getur séð mikið á stuttum tíma. Gott er að gera sér grein fyrir í stórum dráttum hvað maður vill sjá í borginni en það getur líka verið gaman fyrir ævintýragjarna ferðalanga að hjóla út í buskann og sjá hvert hjólið ber mann. Þar ræður tímaramminn nokkru. Það getur verið stressandi að vera “villtur” í ókunnri borg ef maður á pantað flug eða lest.
Myndir
- Malmö er þróuð borg þar sem bætt hefur verið við borgarlínu til að auka flutningsgetu milli Rosengård og Västra hamnen.
- Hjólastæði í miðborginni ofan á neðanjarðar bílageymslu.
- Kort af leiðinni sem ég hjólaði í Malmö.
- Hjólastigarnir liggja oft milli húsaþyrpinga fjarri umferð.
- Tvístefnustígur öðru megin götu í íbúðahverfi.
- Undirgöng eru vel hönnuð með sýn í gegnum göngin.
- Tvístefnustígur þverar götu með umferðarljósi. Takið eftir stöðvunarlínum og biðskylduþríhyrningum.
- Tvístefnustígur þverar jaðar markaðstorgsins Möllevångstorget. Borgarhjólastandur milli stígs og götu.
9., 10. og 11. Læst hjólageymsla við Triangeln brautarstöðina.
- Vegvísar við hringtorg. Tvístefnustígur liggur hringinn í kringum hringtorgið.
- Hringtorg vestan við Malmöhus slott.
- Turning torso.
- Upplýsingaskilti við borgarhjólin í Malmö. 16. Upplýsingar um Turning torso.
- Bílageymsla í Västra hamnen.
- Hjólaumferð í miðborginni.
- Hjólaljós framan við aðalbrautarstöðina.
- Panorama mynd í vestur. Eyrarsund og Turning torso. Eyrarsundsbrúin í fjarska.
Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.