Við eru ánægð með að tekið hefur verið tillit til margra athugasemda samtakanna í alllöngu ferli frumvarpsins og að mestu leyti eru fulltrúar Landssamtaka hjólreiðamanna ánægðir með frumvarpið og þau atriði sem snúa að hjólandi umferð. Til dæmis hefur verið bætt við ákvæði um að lágmarks hliðarbil þegar farið er framúr reiðhjóli þurfi að vera 1,5 m.

Veggspjald sem ÍFHK, LHM og hjolreidar.is hafa lengi notað

En Landssamtök hjólreiðamanna gera þó athugasemdir við nokkrar greinar í frumvarpinu, svo sem innleiðingu ákvæðis um að banna ungmennum að hjóla án reiðhjólahjálma, gildishlöðnum hugtökum eins og „óvarinn vegfarandi“ og að vilja skilgreina allskyns tæki sem reiðhjól þvert á málskilning landsmanna sem hafa notað reiðhjól í yfir 100 ár.

 

Meta reynsluna og ræða málið

Að mati LHM kemur ekki til greina að festa í lög það atriði í 79. gr., að það verði bannað fyrir yngri en 15 ára að hjóla án reiðhjólahjálms, nema árangurinn af núverandi reglu frá ráðherra hafi verið metinn og málið verið rætt efnislega, meðal annars með þátttöku sérfræðinga um lýðheilsuáhrif svona lagasetningar.

Í þessu máli er mikilvægast að horfa á möguleg heildaráhrif. Alþingi má ekki leiða í lög ákvæði, sem geta haft neikvæð áhrif á hjólreiðar og göngu og þar með neikvæð áhrif á lýðheilsu og umhverfi, sem ekki er sannað að hafi teljandi ávinning í för með sér vegna slysavarna. Slysahætta hjólandi er ekki meiri en annarra vegfarenda, sem eru ekki undir sama “hjálm” seldir. Mun fleiri einstaklingar í öðrum hópum vegfarenda hafa beðið bana í umferðinni heldur en hjólandi og miðað við banaslys frá aldamótum verða hjólreiðar að teljast öruggasti fararmátinn á Íslandi.

Til að auka öryggi hjólandi ber fyrst og fremst að leggja áherslu á að koma í veg fyrir slys fremur en að reyna að minnka tjón þegar slys verða með skyldunotkun á veigalitlum reiðhjólahjálmum. Leggja ber áherslu á aukningu í hjólreiðum, vönduð mannvirki fyrir hjólandi, gott viðhald og þjónustu þessara mannvirkja og menntun og fræðslu til að bæta hjólreiða- og umferðarmenningu.

 

Bannað “af því bara”?

Flestar lagasetningar, sem setja hömlur við frelsi einstaklinganna eru settar með langtímahagsmuni samfélagsins í huga, með það fyrir augum að koma í veg fyrir samfélagslegt tjón, hvort sem það er af efnahagslegum, umhverfislegum eða heilsufarslegum toga. Þetta ákvæði í frumvarpinu uppfyllir ekki þessi skilyrði, þvert á móti, og er að auki ekki rökstutt neinum gögnum. Það eru heldur ekki í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í 1. gr. laganna. Engin endurskoðun virtist hafa farið fram á eldri reglu ráðherra sem þó var yfirlýstur tilgangur endurskoðunar umferðarlaganna.

 

Samstaða um alla Evrópu

Hagsmunasamtök hjólreiðamanna, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu hafa lagst gegn lagasetningum sem banna hjólreiðar án reiðhjólahjálma. Landssamtök hjólreiðamanna hafa sent inn ítarlegar athugasemdir á öllum stigum málsins allt frá 2008. Við höfum farið yfir reynslu annarra þjóða sem hafa reynt slíka löggjöf og bent á neikvæðar afleiðingar fyrir öryggi hjólandi, lýðheilsu, umhverfi og loftslagsmál, sem getur orðið afleiðingin ef bann við hjólreiðum án hjálms, leiðir til þess að minna er hjólað, eða að minni aukning verður í hjólreiðum en annars. Reynsla annara þjóða af svona lagasetningu er neikvæð þegar málin eru skoðuð heildstætt. Þegar upp er staðið eru það auknar hjólreiðar sem auka öryggi hjólreiðamanna, notkun reiðhjólahjálma hefur lítil áhrif til eða frá. Hver er þá þörfin á að leiða þessar takmarkanir á frelsi einstaklinga í lög?

Að sjálfsögðu höfum við ekkert á mót því að einstaklingar noti hjálma og að stjórnvöld og aðrir hvetji til hjálmanotkunar svo fremi það sé gert án hræðsluáróðurs. Árangur af slíku starfi er sennilega betri en af lagaboði.

Í Noregi var farið í umfangsmikla skoðun á kostum og göllum samskonar hjálmaskyldu og má lesa hana á vef norsku Vegagerðarinnar. Niðurstaðan var að mæla gegn slíkri lagasetningu, þekktir ókostir vógu þyngra en hugsanlegir kostir slíkrar lagasetningar og var fallið frá þeim áformum. Þetta snýst um að viðurkenna það að ekki eru allir tilbúnir til að nota reiðhjólahjálm og sá ávinningur einstaklinganna og samfélagsins af því að þeir aðilar hjóli vegi margfalt á við meinta áhættu af hjólreiðum. Hingað til hefur það lóð sem heilsuávinningur aukinna hjólreiða er vantað á vogarskálina í vinnslu þessara umferðarlaga þvert á stefnu stjórnvalda um að auka hjólreiðar einmitt til að ná því markmiði.

Fulltrúar LHM hvöttu Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að kynna sér þessa úttekt. Það er búið að vinna hana og ætti ekki að taka langan tíma að kynna sér niðurstöðurnar.

Í Evrópu eru ekki mörg lönd með viðlíka tálmanir við notkun reiðhjóla og hvergi þar sem þær hafa náð þeirri útbreiðslu sem Íslendingar ættu að stefna að. Danir höfnuðu svona lagasetningu nýlega og fylgdu gögn tengd því máli umsögn LHM til Alþingis. Það ætti frekar að horfa til þeirra leiða sem farnar hafa verið í Danmörk og Hollandi til að ná aukinni hlutdeild hjólreiða í stað þess að hanga á gamalli reglu eins ráðherra sem er barn síns tíma og alls ekki í takt við þær leiðir sem danir og hollendingar fóru og hafa skilað margföldum árangri í bæði aukningu hjólreiða og öryggi hjólandi á sama tímabili.

 

Ungmenni mótmæla á Austurvelli

Í sömu viku og þetta er skrifað fóru um tvö þúsund ungmenni í skólaverkfall niður á Austurvöll til að krefja stjórnvöld um aðgerðir fyrir umhverfið. Á sama tíma eru stjórnvöld að leiða í lög ákvæði sem er sérstaklega beint gegn frelsi þeirra til að nýta sér umhverfisvænsta farartækið.

„Þeir sem hafa alist upp við að nota hjálm sem börn eru þeir sem nota hjálminn minnst þegar þeir eru orðnir eldri“ kom fram í kynningu á nýrri könnun Samgöngustofu á umferðarhegðun íslendinga.

 

Óvarinn vegfarandi?

En það eru fleiri atriði sem við höfum gert athugasemdir við eins og notkun á hugtakinu “óvarinn vegfarandi” sem er gildishlað og gefur í skyn óeðlilegt ástand þótt ekkert sé eðlilegra en að gangandi og hjólandi vegfarendur ferðist um án sérstaks varnarbúnaðar svo sem brynju og hjálma. Með þessu orðalagi er slík hugsun þó normaliseruð og má túlka sem drög að því að reisa frekari skorður við því að ganga eða hjóla og krefjast frekari búnaðar og klæðnaðar fyrir þessa vegfarendur, dæmi eru um slíkt erlendis frá. En jafnframt höfum við séð þróun þar horfið er frá ofverndunarstefnu þessari og hjálmaskylda og skyldunotkun neonvesta hefur verið aflétt.

Mynd af "vörðum vegfarenda" sem ég notaði með grein sem ég tók saman fyrir 10 árum

 

Reiðhjól, hvað er það?

Í frumvarpinu er ýmsum tækjum hent undir skilgreininguna á reiðhjóli, tækjum sem alls ekki eru reiðhjól, s.s. vélknúnum hlaupahjólum og hjólabrettum, Segway og fleiri tæki með tvö hjól á einum öxli, já og líklega rafmagnshjólastólar og skutlur fyrir fótafúna. Það er ekki flókið að breyta orðalaginu þannig að hver flokkur tækja sé skilgreindur sér og svo sagt t.d. að notkun þeirra falli undir sömu reglur og notkun reiðhjóla þar sem það á við. Við höfum bent á þetta árum saman en ekki haft erindi sem erfiði. Af hverju vitum við ekki.

 hvað er reiðhjól samkvæmt lögum?

Mynd sem ég setti saman með grein sem ég skrifaði 2015


Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.