Frá Reykjavík til náms í Ameríku

Eins og svo margir byrjaði ég að hjóla fimm ára og því fylgdi fljótlega mikið frelsi til að fara leiða sinna. Maður fékk líka góða þjálfun í moldargryfjum í kringum golfskálatjörnina, þar sem nú eru Borgarleikhúsið og Verzlunarskólinn. Sem unglingur ca. 1976/77 var ég sendill einn vetur og fór um í snjó og hálku á tíu gíra DBS kappreiðahjóli, sem í dag er bara kallað götuhjól. Þá voru svona græjur varla til í landinu og mikið horft á eftir mér úti á götu.

En þegar ég var í arkitektúr- og skipulags námi í Milwaukee tók við smá tímabil þar sem farið var um allt í bílum og ég átti ekki reiðhjól. Í Milwaukee og svo seinna New York, var svo pláss- og aðstöðuleysi, enda fátækur námsmaður sem eyddi flestum stundum við teikniborð, á ritvél og við lestur. Það er því kannski svolítið öfugt við hvernig margir aðrir upplifa það, eru á hjóli með námi og enda svo á bíl þegar byrjað er að vinna.

 

Hjólað í New York

Svo var það þegar ég var að vinna á teiknistofu í SóHó einhvern tímann eftir 1990 að mér áskotnaðist fjallahjól sem ég gat geymt uppi á hæðinni. Þá fór ég að hjóla reglulega í vinnuna, engar hjólareinar og bara í bílaumferð.

Engir hjólastígar voru á minni leið í New York borg á fyrri hluta tíunda áratugar og þó þeir hafi ekki verið til staðar voru ökumenn ekki endilega hættulegri. Við hjólreiðamenn þurfum alltaf að passa okkur, enda er almennt séð ekki hægt að leggja traust sitt á hæfni ökumanna. Þegar hjólastígakerfi New York borgar fór að þróast af alvöru eftir aldamót tók maður meira eftir einhverri reiði gagnvart hjólreiðafólki, þar sem mörgum ökumönnum fannstþeir hafa misst spón úr aski sínum vegna  "reiðhjólaliðsins"  sem þrengdi að bílfrelsinu og gleypti bílastæði meðfram gangstéttarbrúnum o.s.frv.

En það er nú svo að einu stoppin á ca. 12km leið minni í vinnu, fyrir utan rauð ljós, eru bílastöppur þar sem allt er stopp og maður fer upp á gangstéttir til að komast leiðar sinnar -framhjá bílunum, sem eru allir að flækjast hver fyrir öðrum.

Með árunum hef ég svo lært hvaða leiðir er skemmtilegast að hjóla. Borgin er stórt og flókið umhverfi og býður upp á svo mismunandi hluti. Mest af því sem ég hjóla er í vinnuna og fer þá yfir einhverja brúna, sem er u.þ.b. 50m hækkun, þ.e. svona tvöföld Ártúnsbrekkan. Ég tékka alltaf á veðrinu til að vera viðbúinn veðurbreytingum og hjóla eiginlega í hvaða veðri sem er, enda er bara spurning um hvernig þú ert undirbúinn (nagladekk, regnkápa, stundum aftaníkerra fyrir þungt stöff).

Því er haldið fram að hjálmaskylda geti haldi fólki frá því að hjóla, en í borginni sýnist mérþað miklu frekar vera hjólaþjófar. Það er ekki alls staðar vel séð að fara inn í skrifstofuhús með reiðhjól og þá verður hjólið sem maður læsir fyrir utan að vera rétt læst og helst rispað og forljótt svo þjófarnir sýni því engan áhuga. Þetta passar nú sko engan veginn við þá hugmynd að eiga góðar og flottar græjur. Svo er nú eitt að hafa góðan lás (myndir) en annað að koma að hjólinu í heilu lagi. Vegna þessa (og veðurs) hef ég hjólin mín alltaf inni við.

 

Hlutverk hjólsins

Ég tek mikið eftir því að fólk hjólar hvert á sinn máta og það endurspeglar heilmikið borgina sjálfa sem er með fólki hvaðanæva að úr heiminum. Það finnur hver og einn sinn stað og tíma fyrir spandex, gallabuxur, jakkaföt+bindi eða þrjá krakka á hjóli. Maður hefur séð mann sem hjólar með hjálm, olnbogahlífar og hnéhlífar og svo aðra hjálmlausa með krakka á stýrinu að senda textaskilaboð -með báðar hendur á símanum. Fjölbreytnin í hjólalífinu er alveg frábær og ég er ekki í neinu "liði" hvað allt þetta varðar.

Ég á tvenn hjól, sem hafa hvort sitt hlutverkið, og nota þau til skiptis eftir því hvernig ég er að fara að hjóla.

Annað hjólið er ósköp venjulegt 15 ára gamalt Giant 700 hybrid sem ég fer á í lengri ferðir (40-100 km), til að fara hraðar yfir og reyna meira á mig. Hef farið lengst 180 km leið á því í einum rykk en það er sem sagt svona skemmti-/æfingahjól í aukatíma. Ég hef sem minnst aukadót á því til að halda því í svona 11 kg, þar sem ég hengi það upp yfir haushæð og þarf því að geta lyft því með góðu móti (mynd). Maður hefur auðvitað engann bílskúrsaðgang í borginni (og engann áhuga á að eiga bíl) og þarf því að koma þessum hlutum fyrir inni hjá sér svo allir séu sáttir.

Dags daglega (ca. 20-25km)  nota ég svo Bromptoní vinnuna, háþróað breskt samanbrjótanlegt hjól, sem ég smelli undir vinnuborðið í stúdíóinu. Það er hægt að brjóta saman hálfa leið og rúlla þvi inn í búðir eins og innkaupakerru. Það nota ég í öll matarinnkaup og hef líka sér tösku framan á því. Þegar heim er komið hverfur það inn í eigin skáp eða hjólskúrinn minn. Á því fer ég yfir Brooklyn eða Manhattan brýrnar og suma morgna hitti ég félaga minn Jón Emil sem kemur úr hinni áttinni og þá er high-five á miðri brú.

 

Leiðir í borginni

Síðasta áratug hefur hjólastíganetið stækkað svo um munar og það, ásamt því að Citibike var hleypt af stokkunum fyrir fimm árum og minnkuðum hámarkshraða bifreiða, hefur orðið mikil fjölgun hjólreiðafólks, eða rúmlega tvöföldun á áratug. Þessi fjöldi snareykur öryggi í umferðinni. Munurinn á að hjóla fyrir 25 árum og í dag er sá að maður velur sér leiðir fyrirfram og reynir þá að halda sér meira við hjólastígana, sem eru samanlagt í dag orðnir lengri en hringvegurinn í kringum Ísland. Stígarnir eða hjólareinarnar eru misjafnir eins og gengur og gerist, sumir mjög góðir og aðrir illa merktirog þegar maður hjólar í bílaumferðinni eru ökumenn greinilega meira varir við hjólin en áður fyrr.

Þegar nýr hjólastígur er gerður er skondið að fylgjast með ökumönnum sem eru vanir að leggja bílnum sínum á sama stað. Þeir þráast við og "eiga ennþá plássið” og keyra á hjólastígunum. Þeir leggja bílunum sínum á hjólareinunum og eru sumir eiginlega alveg ótrúlega miklir þverhausar. Það er ekki eins og þeir hafi einhvern rétt á því frekar en að keyra um á gangstéttunum. Ég er einmitt að klára smá kvikmynd þar sem ég hef tekið saman efni með ökumönnum að keyra á hjólareinum. Mótstaða margra gegn hjólreiðum er eiginlega stórfurðuleg (jafnvel afbrigðileg) en það má jú vel láta fylgja að stærstur hluti ökumanna er til mikillar fyrirmyndar.

 

 

Hjólaviðburðir

Yfir árið eru ótal reiðhjólaviðburðir í borginni sem gera það vel þess virði að heimsækja hana og taka þátt. Til dæmis með því að leigja hjól, eða þá kaupa sér draumahjólið, prófa það á þessum leiðum og láta pakka því fyrir heimferðina. Af helstu viðburðummá nefna að á vorin er vissum hraðbrautum lokað fyrir "Five Boroughs" sem er ca. 65 km leið og fer í gegnum öll fimm hverfi borgarinnar; Manhattan, Bronx, Queens, Brooklyn og Staten Island. Það er mjög pakkað og getur verið steikt upplifun. "Century Ride" er svo í september. Þá er farin 160 km leið eða valdar styttri leiðir eftir því hverju maður hefur áhuga á. Sá viðburður er rólegri, en í lok þeirrar ferðar hefur mér aldrei þótt frostpinni jafn svalandi. Svo á ákveðnum dögum í ágúst er ákveðnum götum lokað og hægt að hjóla á Manhattan þar sem venjulega er bara hraðakstur bíla.

Dags daglega er geysimikill fjölbreytileiki í hjólaumhverfi borgarinnar. Fyrir utan að hjóla bara í vinnuna er hægt að hjóla langt á tiltölulega flötum leiðum, en svo eru líka leiðir með ágætum brekkum eins og til að mynda stóru brýrnar, sem eru mjög skemmtilegar. Þær eru svona tveir til þrír km á lengd hver um sig. Þar sem ég þekki borgina eins og handarbakið vel ég leiðirnar mínar oftast fyrirfram, t.d.hjóla meðfram Hudson ánni frá fjármálahverfinu/Wall Street að George Washington brúnni (15km löng leið) á mjög góðum hjólastíg sem gerður var milli 1990-2000. Þá finnst mér skemmtilegt að taka hring í kringum Manhattan (50km) en það er á köflum á umferðargötum (MYND) og ekki alls staðar hjólastígar. Oft bæti ég við aukadúrum, s.s. hinni eða þessari brú eða tek tvo hringi í Central Park í og með, kannski uppí 100km leið.

Það er reyndar tiltölulega létt að hjóla út fá borginni og eru ótal lengri leiðir og dagsferðir. Einnig eru langleiðir, til dæmis í norður, upp meðfram Hudson ánni. Verið er að vinna að stórfelldu reiðhjólaneti þar norður af sem mun á endanum tengjast ca. 500 km leið að Lake Erie, einu af fimm stóru vötnum Bandaríkjanna. Þá er farið meðfram gamla skipaskurðinum Eirie Canal sem gerður var á fyrri hluta 19. aldar og var fyrir tíma flugvéla einn aðal grunnurinn að velgengni New York borgar.

 

Þáttaka og vellíðan

Sl. ár hef ég verið með annan fótinn í TransAlt, reiðhjólagrúppu sem beinir kröftum sínum að breytingum á borginni, hjólastígum o.fl. Í krafti meðlima knýja þeir fram breytingar sem auka öryggi og bæta leiðir. Það þarf svona grúppur til að fara beint til stjórnmálamanna og skipulagsyfirvalda, þannig nást fram breytingar á göllum í kerfinu.

Ég hjóla af því það er skemmtilegt og gagnlegt. Hef hjólað með 14 ára dóttur minni í skólann síðan hún var fimm ára. Mér finnst voða gaman að flottum hjólum og hjólagræjum, en held mig samt við grunnatriðið, sem er að drífa sig út að hjóla og halda því við á komandi áratugum. Það er fyrst og fremst spurning um vellíðan og að maður þarf ekki bíl nema til að komast milli bæja. Ef ég þarf að keyra, þá hjóla ég í bílaleiguna, fæ bíl og set Brompton í skottið. Þá get ég fengið að hjóla á áfangastaðnum. Ég hef líka hjól í geymslu úti á Granda og þegar ég kem til landsins á hverju ári er fyrsta verkið að ná í hjólið og á því fer ég um alla borg.

Kveðjur heim.
Ólafur Þórðarson er arkitekt og listamaður sem býr í New York borg þar sem hann hefur hjólað sl. 25 ár.

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. / www.thordarson.com

Allar myndir: Ólafur Þórðarson

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2018.