Um árabil hefur Hjólafærni unnið með Bullit hjól í sínu starfi og í vetur bættist nýtt hjól í flota Hjólafærni; TRIO BIKE, sem er eins og Bullitinn en með rafmótor sem veitir stuðning upp í 25 km hraða. Með hjólinu kom einnig barnastóll og stórt flutningsbox, auk þess sem það er rúmgóður kassi á flutningspalli hjólsins.

Fyrstu mánuðirnir hafa lofað góðu með TRIO BIKE, E-cargo hjólið. Lengri vegalengdir, brekkur og mótvindur skipta engu máli – hjólið heldur þægilegum meðalhraða og BionX rafhleðslukerfið veitir til og með mótstöðu á leið niður brekkur, svo að minna slit verður á bremsum hjólsins. Hleðslutækið er á stærð við fartölvuhleðslutæki, svo auðvelt er að hafa það með í lengri ferðum. Nagladekkin hafa reynst prýðilega í hálku og eftir 51 cm snjóinn í Reykjavík í vetur, var gaman að reyna hvernig hreinsun gatna/stíga/vegamóta kæmi út fyrir ferðalög á nytjahjóli. Hreinsunardeild borgarinnar stóð sig einstaklega vel við að opna stærri stígaleiðir og gatnamót en auðvitað er þetta ekkert óskafæri fyrir flutning á reiðhjólum – ekki frekar en  að athafna sig á sendibílum með snjóruðninga um allt.

Stærðin á þessum hjólum er breytileg og notkun þeirra sömuleiðis. Þau eru ýmist til farm- eða farþegaflutninga. Eins sjáum við ör-fyrirtæki verða til; íshjól – auglýsingahjól – kaffisöluhjól o.s.frv. Víða erlendis bjóðast TAXA hjól, eða leiguhjól með ökumanni. Ef sú þjónusta byðist á Íslandi, er ekkert til í innlendum lögum né reglugerðum sem nær yfir slíka starfsemi (febrúar 2017). Hér á Íslandi þekkjum við best til slíkra hjóla í gegnum Hjólað óháð aldri og eru þrettán slík hjól komin á hjúkrunarheimili um allt land. Þar reynir ekki á neinar reglugerðir, því enginn gjaldtaka er.

Í flestum borgum fer meginafhending vara fram utan við miðbæinn. Það á líka við um Reykjavík. Svo hefst skutlið. Þá er talið að um 51% af slíku skutli geti farið fram á nytjahjóli. Hugsa sér ef við gætum losnað við helminginn af allri vörubílaumferðinni úr miðbænum! Einhverjum gæti þótt fengur í því.

Í Amsterdam er DHL komið með vörupramma á völdum stöðum, þangað sem stórar sendingar fara. Þaðan er þeim skipt niður og skutlað um bæinn á nytjahjólum, einkum þar sem byggð er hvað þéttust. Nytjahjólin eru einkar lipur í þéttri byggð, auðvelt að finna þeim stæði og henta sérstaklega vel til vöruafhendinga í götum sem lokaðar eru fyrir bílaumferð.

Með því að bera saman upphafsverð, rekstrarkostnað og endursöluverð eftir fimm ár á milli bíla og nytjahjóla, er útkoman sláandi. Nýr bíll á 3 milljónir lækkar um helming í verði á þessum tíma og þá fljúga 1.5 millur út um gluggann auk hinnar árlegu rekstrarmillu sem bílar þurfa. Nytjahjólin kosta um hálfa milljón og eftir fimm ára notkun er eðlilegt að söluverð sé  ca. 150.000 kr. Eðlilegur árlegur viðhaldskostnaður gæti verið í kringum 40.000 krónur.

Er hægt að hugsa sér skemmtilegri eða uppbyggilegri brúðargjöf handa hjóna- og hjólaefnum framtíðarinnar? Getur einhver hugsað sér glaðari barnabörn en þau sem koma á kassahjólinu, hjólandi með foreldrum sínum í heimsókn til afa og ömmu?! Verð og virði nytjahjóla er á því róli að flestir ættu að hafa ráð á því að eignast slíkt farartæki. Vatnsheld föt og hlífðarbox á hjólinu, gera það brúklegt árið um kring. Og fyrir þessa örfáu, ómögulegu daga á ári, er löngu búið að safna fyrir leigubíl, við njótum þess líka að ganga eða  fara saman í strætó.

Amma og afi muna sendlahjólin frá því í gamla daga,og því erum við komin hringinn á ný. Nytjahjól fleyta okkur inn í framtíðina með fortíðina að leiðarljósi og þægindarúrbótum sem henta einkar vel í nútímanum.

*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017