Teljarar sem telja hjólandi vegfarendur nota skynjara sem eru spólur sem eru fræstar ofan í malbik eða lagðar undir hellur og nema breytingar í segulsviði þegar reiðhjól fer framhjá (induction loop). Talningin fer fram með upphaflegri skynjun og síðan greiningu með hugbúnaði í teljurunum. Greiningin er það nákvæm að bara reiðhjólin eru talin þótt skynjari sé staðsettur í götum eða á stígum við götur með bílaumferð. Við sáum meðal annars hvernig mælirinn taldi þegar hjól fór yfir en taldi ekki strætó sem fór fram hjá. Það er líka vel þekkt vandamál að teljarar eiga erfitt með að telja rétt mörg hjól sem fara yfir á sama tíma. Við sáum hvernig greininginn réði við það. Talningin breyttist við greininguna þegar nokkur hjól fóru saman yfir og var lokatalningin undantekningarlaust sú sama og fjöldi hjólanna. Annar kostur við þessa aðferð er að hún getur talið  hvernig sem viðrar  og sama þótt klaki eða snjór sé yfir stíg.

Fótgangandi voru taldir með teljurum sem hafa passíva skynjara sem nema innrauða geislun frá líkamshita. Sérstakur hugbúnaður er notaður til að stýra talningunni sem telur   bæði hjólandi og gangandi og skynjar mun á notendum ef hratt er hjólað. Drægni  er um 30 m. Kosturinn við þessa aðferð er að hægt er að telja í flestum veðrum og að gangandi þurfa ekki að stíga á ákveðna staði til að vera taldir en þeir dreifast mun meir en önnur umferð. Þessum teljurum er bæði hægt að koma fyrir til langframa eða tímabundið.

Borgaryfirvöld í Nantes hafa greinilega tekið gangandi og hjólandi umferð með í reikninginn og virðist vel staðið að talningu þessarar umferðar í borginni. Þessar aðferðir við talningu hjólaumferðar eru auðvitað ekki nýjar af nálinni. Þær hafa verið notaðar áratugum saman, líka á Íslandi, en auðvitað bara til að telja bílaumferð. Með því eru menn ómeðvitað að leggja mat á hvað sé mikilvægt eða merkilegt og í hvað eigi að eyða peningunum. Nú er kominn tími til að sveitarfélög landsins og stofnanir ríkisins leggi eitthvað af mörkum til að mæla og telja aðra umferð en umferð einkabíla. Til dæmis með því að gera myndarlegar ferðavenjukannanir á réttum árstíma í september/október og með því að telja hjólandi og gangandi umferð með þeim aðferðum sem nútímatækni býður upp á. Reykjavík hefur vissulega staðið sig best allra hér á landi með sniðtalningum fjórum sinnum ári og með hjólateljaranum við Suðurlandsbraut. Hjólateljarinn er hinsvegar með þeim annmarka að hann telur ekki þegar ís er yfir og hann skynjar ekki reiðhjól á gönguhluta stígsins og vanmetur því umferð reiðhjóla.

 http://www.eco-compteur.com/en/

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016