Á þorranum 2015 buðu Landsbankinn og Hjólafærni völdum fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum að koma á vinnusmiðju  um hjólamenninguna á höfuðborgarsvæðinu og hvort við gætum einhent okkur í úrbætur og uppbyggilega samtalsvinnu, okkur öllum til góða. Vinnusmiðjuna sóttu fulltrúar  frá Vegagerðinni, Landlæknisembættinu, Samgöngustofu, FÍB, Ökukennarafélags Íslands, Landssamtökum hjólreiðamanna, Reykjavíkurborg, Vínbúðinni, Verði, Landsvirkjun, Rio Tinto Alcan á Íslandi og reiðhjólaversluninni   TRI. Í framhaldinu var skipaður stýrihópur með  fulltrúum þeirra sem lögðu fé í verkefnið ásamt Hjólafærni á Íslandi.

Stefnt var  að framkvæmd fjögurra verkefna sem gætu bætt samvinnu og hjólamenningu landsins. Í fyrsta lagi var farið í táknmál og merki sem hjólandi vegfarendur geta sýnt og  til þess voru útbúin spjöld  í alla strætisvagna borgarinnar í maí á síðasta ári. Einnig voru búin til stór spjöld  í nokkra borgarstanda með sömu skilaboðum.

Annað verkefnið sem komst til framkvæmda var gerð myndbanda þar sem áhersla var lögð á jafnan rétt allra í umferðinni. Þessi myndbönd eru  á youtube undir leitarorðinu „deilum veginum“ og hvetjum við alla til að skoða þau og deila á samskiptamiðlum á netinu. Eins styrktum við myndband sem FÍB lét gera sem heitir Hjól í huga og er líka á YouTube.

x

 

 

 

 

Þriðja verkefnið  unnið af Hjólabætum Ísland er Hjólavæn vottun vinnustaða. Það er rétt að verða tilbúið og ætti að koma til kynningar í Hjólað í vinnuna vorið 2016. Hjólafærni á Íslandi mun halda utan um þá vottun, sem gengur út á að hvetja vinnustaði til að huga að hjólavæni á sínum starfsstöðvum. Hægt er að fá gull, silfur og brons vottun. Áhersla er lögð á geymslur fyrir hjól, aðbúnað fyrir viðskiptavini, samgöngugreiðslur og aðstöðu fyrir starfsmenn til að skipta um fatnað, svo eitthvað sé nefnt.

Fjórða verkefnið sem stefnt var að, er komið í bið en þar ætluðum við að vinna með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að einhvers konar appi þar sem tilkynna mætti um slæma staði á stígum sem þarfnast úrbóta.

Stýrihópur verkefnisins samanstendur af fulltrúum Vínbúðarinnar, Varðar, Rio Tinto Alcan á Íslandi, Landsvirkjunar, Reykjavíkurborgar, Landsbankans, TRI og Hjólafærni á Íslandi. Hann kemur enn saman  til að vinna að þessum verkefnum. Það er líka áhugi fyrir því að verkefnið lifi áfram og þá gjarna með þátttöku fleiri aðila, bæði fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Umferðin er mál okkar allra. Það er ekki nóg að horfa eingöngu til yfirvalda og bíða eftir aðgerðum þaðan. Það er hagur okkar allra að horfa inn á við og skoða hvað við sjálf getum gert betur. Við heyrum æ oftar af pirringi vegna ónærgætni á stígum – getur þú sýnt samferðafólki þínu meiri tillitssemi?

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Gerum þetta saman, gerum góða hluti enn betur.

Notum táknmál og höldum okkur hægra megin á stígum og götum #hjolamal 

 

Mynd-VR

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016