Á heimasíðu LHM og Wikipedia er hægt að finna dæmi um samgöngusamninga, best er að gúgla samgöngusamningur. Í dag eru tæplega 50 vinnustaðir svo vitað sé með samgöngusamninga. Í óformlegri google-docs könnun sem ég gerði í gegnum fésbókarsíðurnar: Samgönguhjólreiðar, Samtök um bíllausan lífsstíl og Hollvinasamtök strætós, var ég að leita eftir fólki sem hefur skrifað undir slíka samninga og náði nokkrum nöfnum og smá tölfræði. Meðalupphæð samninga var kr. 55.000. Ferðamáti 78% þeirra sem tók þátt var hjól en 17% notuðu strætó. Meðalfjarlægð (í loftlínu) þeirra sem ferðuðust hjólandi var 4,4 km en 4 km hjá þeim sem notuðu strætó. 58% þátttakanda voru karlmenn og 36% konur. 31% þátttakenda voru yngri en 36 ára, 37% frá 35-45 ára, 23% frá 45-55 ára og 9% var eldri. Það væri gaman að safna fleiri nöfnum.
Ef þinn vinnustaður er ekki með samgöngustefnu ættir þú að láta til þín taka. Á fyrirlestri Hanne Scheller, verkefnastjóra hjá dönsku krabbameinssamtökunum, á Hjólum til framtíðar síðastliðið haust, sjá upptöku á lhm.is, kom fram að það væri hægt að koma í veg fyrir 5.000 tilvik af krabbameini hjá Dönum ef þeir fylgdu ráðleggingum um hreyfingu og mataræði. Í Danmörk mætti kom í veg fyrir 4.500 dauðsföll, 100.000 sjúkrahúsmeðferðir og 3,1 miljón fjarvistardaga með hjólreiðum.
Það er til fólk sem tuldrar yfir því að hjólreiðamenn greiða enga skatta en staðreyndin er sú að hver hjólaður kílómetri sparar þjóðfélaginu pening. Hluti af þeim sparnaði felst m.a.s. í því að biðraðir á ljósum minnka og bensín og tími þeirra sem kjósa að nota bíl áfram sparast. Það græða allir.
Samgöngustyrkur einn og sér er ekki nóg. Fyrirtæki þurfa líka að taka upp samgöngustefnu, útbúa geymslustaði fyrir hjól og jafnvel sturtur. Það þarf að hvetja til hjólreiða. Mörg fyrirtæki bjóða upp á árlega yfirferð á hjólum og fræðsluerindi um hjólreiðar. Í dag er hvatinn til að taka upp samgöngustyrki einkum hjá fyrirtækjum þar sem skortur er á bílastæðum en lýðheilsuáhrif og umhverfissjónarmið ættu ekki síður að vera nægur hvati. Ein hugmynd væri að fyrirtæki keyptu hjól fyrir starfsmenn sem þeir síðan eignuðust með því að nota þau. Einnig væri hugmynd að stéttarfélög stæðu fyrir hjólakaupastyrkjum. Það er skemmtilegra að hjóla á góðu hjóli. Höldum baráttunni áfram.
Ásbjörn Ólafsson
Mynd: Páll Guðjónsson - Greinarhöfundur ásamt Kjartani og Sessý í hlutverki Dr. BÆK á hverfahátíð Laugardalshverfis.
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015