Algengustu farartækin eru tveir jafnfljótir og reiðhjól. Þykir vegsemd að eiga reiðhjól og eru þau notuð til allra mögulegra og ómögulegra flutninga. Hér getur maður séð á böggla­beranum eldiviðarhleðslur sem ná upp yfir og fram fyrir höfuð hjólreiðamannsins. Er mér ómögulegt að skilja hvernig hægt er að halda jafnvægi með þvílíka byrði á hjólinu. En menn mjakast áfram í rólegheitum og virðast yfirleitt komast stóráfallalaust á áfangastað.

Ef þarf að ferðast stutta leið þá eru helstu almennings­samgöngutækin hjólataxar. Ofan á bögglaberanum á þeim er svampkubbur, oft klæddur einhvers konar leðurlíki, og situr farþeginn þar á. Stundum eru litlar stangir soðnar á stellið fyrir farþegann til að hvíla fætur á og jafnvel eru stundum handföng fyrir far­þegann til að halda sér í. Svona taxar eru mikið notaðir af, ja, eiginlega öllum. Fínar frúr sitja hnarreistar eins og í söðli og stundum sér maður athafnamenn með skjalatöskuna í fanginu.

Hjólin eru ekki upp á marga fiska. Minna mörg á bresk lögguhjól úr gömlum bíó­myndum. Svartir, gíralausir járnhlunkar. Nýtt svoleiðis reiðhjól kostar í kringum tíu þúsund krónur, er níðþungt og öll mekaník eins einföld og hægt er. Handbremsu „barkarnir“ eru undarlegir á mörgum þessara hjóla, því þeir eru ekki barkar heldur málmstangir. Ekki kann ég að stilla bremsur af þessu tagi, og reyndar sýnist mér margir ekki kunna þá list, því stundum sér maður hjólreiðamenn renna sér fram úr hnakknum og reyna af öllum mætti að nota fætur á malbiki til að stöðva sig áður en komið er að gatnamótum. Reiðhjól þessi eru reyndar níðsterk og virðist hægt að hjóla á þeim þótt allt sé beyglað og í ólagi. Ýmis konar útgáfur af fjallahjólum eru líka til, en lélegar eftirlíkingar og mikið af mekaníkinni, t.d. gírskiptar, er úr plasti sem gefur sig yfirleitt fljótlega.

Á ýmsum stöðum í borginni, iðulega undir stóru tré sem veitir góðan skugga, staðsetja hjólaviðgerðarmenn sig. Þeir eiga bætur og pumpu, skiptilykil eða tvo, skrúfjárn og kannski hamar. Svo eru þeir yfirleitt með nokkra múrsteina sem nýttir eru til ýmissa hluta. Þessir menn eru reddarar, sem virðast geta lagað allt sem bilað getur á malavískum hjólhestum. En ekki er hægt að segja að hjólin verði sem ný eftir viðgerðir þessara manna. Nei, en þau eru yfirleitt nothæf.

Þegar ég hafði búið hér í einhverja mánuði keypti ég mér hjól. Hér eru hins vegar engar verslanir sem selja „alvöru“ fjallahjól. Annað hvort þarf maður að koma með sitt eigið hjól erlendis frá eða kaupa af einhverjum sem hefur gert svoleiðis, iðulega einhverjum útlendingi sem er að flytja í burtu. Ég hafði upp á konu einni sem var að flytja og keypti af henni Giant Iguana hjól, aðeins komið til ára sinna. Hef reyndar síðan keypt annað mun nýrra hjól, Merida Matts, því „giantinn“ var full­lítill fyrir mig, en framboð á almennilegum hjólum er það lítið að maður grípur gæsina þegar hún gefst.

Ekki er séns að finna hér varahluti fyrir annað en „lögguhjólin.“ Maður kemur sér því smátt og smátt upp sínum eigin varahluta- og verk­færa­lager. Ég fer ekki svo úr landi að ég kaupi mér ekki eitthvað fyrir hjólið. Núna á ég sveifar og sveifarlegusett, aukakeðju, auka­hnakka og hnakkpípur, ýmis konar víra og barka. Ekki má svo gleyma öllum litlu skrúfunum sem ég er búinn að sanka að mér. Í síðustu utanlandsferð fjárfesti ég í tveimur settum af diskabremsupúðum. Maður veit jú aldrei.

Ég hjóla iðulega til og frá vinnu. Mark­miðið er að hjóla ekki sjaldnar en þrisvar í viku. Tekst oft en ekki alltaf. Stysta leið í aðra átt er 8 km, en ég fer yfirleitt 10 km leið og lengi stundum í 12-15 km ef þannig liggur á mér. Helstu fyrirstöður eru gangandi vegfarendur og aðrir á reiðhjólum. Margt angrar mann í umferðinni hér, en þó verður að segjast að bílstjórar eru frekar vakandi fyrir reið­hjólum. Eiginlega er ekki annað hægt, því svo mikið af hjólum er á götum borgarinnar. Leiðin sem ég hjóla er annars vegar á frekar holóttu malbiki og hins vegar á moldarstígum sem liggja þvers og kruss um borgina. Á þeim tímum dags sem ég hjóla er umferðin venjulega þung, þá er oft gaman að vera á hjólinu og bruna fram úr löngum bílaröðum. Svo skellir maður sér á moldarstígana og fær fjalla­hjólafíling við að þjösnast yfir trjárætur og endalausa skorninga og mishæðir.

Hér er veðrið oftast mjög gott og duga yfirleitt stuttbuxur og stuttermabolur á hjólinu. Núna er reyndar regntími og þá skvettir ’ann oft all­hressilega úr sér og maður verður gegn­blautur á örskotsstundu. Og drullan, maður minn! Ég var reyndar svo heppinn að fá fínan reið­hjóla­regnjakka á síðasta afmæli og reynist hann vel, en, það verður að segjast að ég sker mig svolítið úr á hjólinu. Í fyrsta lagi er húðliturinn undarlegur fyrir hjólreiðamann í Malaví, síðan er ég klæddur reið­hjólafatnaði; púði í stuttbuxunum, vasar aftan á skærlitum bol, hanskar, sólgleraugu og hjálmur,og ekki má gleyma Ortlieb töskunni rauðu sem hangir á bögglaberanum. Maður er eins og risastórt endur­­skinsmerki, en eins og annað, þá venst þetta.

Suma sunnudaga fer ég í hópi kunningja lengri hjólaferðir um nágrenni höfuð­borgar­innar. Þær ferðir eru skemmtilegar, en þá hjólum við 40 til 80 km að mestu leyti á malar­vegum og moldarstígum. Fyrirliðinn okkar er Frans­maður sem lifir fyrir hjólreiðar. Sá liggur yfir Google Earth og leitar uppi ótrúlegustu stíga og troðninga, býr svo til leið á GPS tækið sitt, brunar af stað og við hin eltum. Ég man rétt fyrir maísuppskerutímann í fyrra þá lentum við stundum á troðningum þar sem maís­plöntur mynduðu þak yfir okkur og báðir olnbogar snertu stundum plöntur samtímis. Svo á regntímanum þarf maður stundum að hoppa af baki og vaða yfir ár og polla með hjólið á öxlinni. Þetta geta verið ótrúlega skemmtilegar ferðir.

Alls staðar er fólk. Í sunnudags­­túrunum brunum við í gegnum endalaus þorp. Krökkum þykir einstaklega skemmtilegt að sjá okkur hvíta fólkið í okkar skrýtnu fötum á reiðhjólum. Glymur þá stundum í eyrunum margradda „mzungu, mzungu,“ en mzungu þýðir hvítur maður. Stundum mætum við hópum kvenna, sem kannski eru á leið til kirkju, eða að vatnsbólinu. Yfirleitt reka þær konur upp skellihlátur þegar við komum og fara að tala ógnarhratt um eitthvað greinilega mjög skemmtilegt. Við hljótum að vera umræðuefnið, en ekki veit ég hvað er svona skemmtilegt. Þótt þeim finnist broslegt að sjá hvítan karlmann á hjóli virðist þeim finnast enn sérkennilegra að sjá hvíta konu á hjóli, klædda stuttbuxum og bol. Hér eiga konur nefnilega að vera í síðum pilsum en alls ekki stuttbuxum. Stundum skella innfæddu konurnar sér á lær - eitthvað er svo ægilega skemmtilegt. Stundum er kallað til okkar: „Hvert eruð þið að fara?“ Við svörum þá „Til borgarinnar.“ Þá kemur: „Hvaðan eruð þið að koma?“ og svarið er: „Frá borginni.“ Fólk rekur í rogastans við svona svör. Maður sér í augum fólksins næstu spurningu sem það langar til að spyrja: „Af hverju eruð þið að hjóla ef þið eruð að fara þangað sem þið eruð að koma frá?“ Í þeirra augum er reiðhjól nefnilega vinnuþjarkur, ekki líkamsræktar- eða skemmtitæki.

Vonandi hefur þessi stutti pistill um hjólreiðar í Malaví skemmt ykkur örlítið.

Að lokum er hér smá myndskeið af hjólatúr um borgina.

Bestu kveðjur.
Vilhjálmur Wiium

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015