Nema hvað, hann hætti ekki og til að sýna honum brjálæðið í þessu öllu saman, þá sló ég til. Hjólaði úr efri byggðum Kópavogs í Vesturbæ Reykjavíkur, samtals 13 km. Niðurstaðan var 45 mínútur og það hlakkaði aldeilis í mér að segja honum að þetta borgaði sig alls ekki, uppá tímann að gera. Hann var hins vegar ekki lengi  að benda mér á ýmsar aðrar hjólaleiðir og króka sem ég gæti farið, þannig að úr varð að ég sló til öðru sinni. Tíminn var 37 mínútur og  farinn að slaga uppí bílferðina, sem var  25-35 mínútur í morgunöngþveitinu.

Eftir ýmiskonar tilraunastarfsemi og fínpússun og snert af keppnisskapi komst ég á 3ja gíra hjólinu mínu undir 30 mínútur (það var að vísu meðvindur, man þennan dag kristaltært. Ég hjólaði talsvert næstu vor og sumur og haust þegar veður var  a.m.k. ásættanlegt. Síðan eru liðin fimm ár, ég hef að vísu flust í annað hverfi og hafið vinnu á nýjum vinnustað, en undanfarin tvö ár hef ég hjólað í vinnuna næstum uppá dag og vil helst ekki hafa það öðruvísi. Það er reyndar mun styttra í vinnuna í dag, eða aðeins fimm km og tíminn er í kringum 15-20 mínútur hvor leið.

Það varð  svipuð þróun þegar ég byrjaði að hjóla að vetri til. Ég miklaði það fyrir mér, sá fyrir mér allar hindranirnar, öll óveðrin, kuldann, ófærðina, lengri ferðatíma, fata­skiptin... Niðurstaðan varð hins vegar: fimm mínútna lengri ferðatími Ég finn almennt ekkert til kulda (klæða sig rétt eins og mamma sagði alltaf), nokkrar auka mínútur að kvöldi  til að setja fötin í hjólatöskuna, og nokkrar mínútur til að taka af sér þegar komið er til vinnu. Það hjálpaði mér einnig að setja mér markmið (takk meistaramánuður) og allan október­mánuð hjólaði ég í vinnuna, nema það væri aftakaveður, og þar með var björninn unninn.

Ætli boðskapurinn sé ekki þessi: Þetta er að öllum líkindum ekki jafn erfitt og þú hefur gert þér í hugarlund. Veðrið lítur alltaf verr út þegar þú lítur út um gluggann heldur en þegar út er komið. Sláðu til og prófaðu þig áfram. Hugsaðu í lausnum, ekki í vandamálum. Ef þú  svitnar mikið, klæddu þig þá léttar eða hjólaðu hægar eða taktu smá krók og losnaðu við brekkuna ef þú getur. Ef það snjóar mikið í augun, notaðu skíðagleraugu. Núna nýt ég ferska loftsins á morgnana og fæ mína hreyfingu yfir daginn. Auðvitað koma dagar sem eru erfiðari en aðrir, en þá reyni ég að líta á það sem góða æfingu. Til hvers að  fara í ræktina ef það verða ekki smá átök?

Gunnar Páll Leifsson

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015