Konan sást hjóla án reiðhjólahjálms. Þau rökstuddu bannið með fullyrðingum um að það væri þjóðfélagslega óábyrgt að sýna manneskju hjóla án reiðhjólahjálms. Stefna stjórnvalda væri að hvetja til notkunar reiðhjólahjálma og því væri auglýsingin þjóðfélagslega óábyrg og líkleg til að ýta undir umburðarlyndi gagnvart því að fólk hjólaði án reiðhjólahjálms og þannig hvetja til hegðunar sem gæti stefnt heilsu og öryggi almennings í hættu. Þá var jafnframt fundið að því að konan á hjólinu væri of langt frá vegbrúninni.
Cycling Scotland benti eftirlitsstofnuninni á að ekki væri nein lagaleg skylda að nota reiðhjólahjálm, það væri persónulegt val hvers og eins. Auglýsingin var gerð í samráði við reyndasta hjólreiðakennara þeirra og farið var eftir þeim reglum sem miðað er við í hjólafærni (Bikability) kennslu þarlendra stjórnvalda, enda hjólaði konan í hæfilegri fjarlægð frá kyrrstæðum bifreiðum í vegkantinum til að lenda ekki í hættu ef hurð yrði opnuð. Stuttu seinna, eftir að stofnunin hafði kynnt sér nokkrar staðreyndir í öryggismálum hjólandi féllst stofnunin á öll rök Cycling Scotland og banninu var aflétt.
Merkilegt nokk hef ég fengið svipuð viðbrögð frá opinberum aðilum hérlendis sem máttu heldur ekki sjá hjálmlaust fólk á myndum. Það er skýringin á hauslausa fólkinu framaná fyrsta Hjólreiðabæklingnum 2010. Af tillitssemi við þessa viðkvæmni lét ég eiga sig í það eina skipti að sýna bert höfuð hollensku krakkanna.
Það tók lengri tíma hér en í Skotlandi en svo virðist sem þau átök hafi fengið einhverja til að láta af þessari rörsýn á hjálmanotkun umfram allt annað og horfa á heildarmyndina; kosti hjólreiða fyrir lýðheilsu, umhverfi og öryggi. Eftir því sem fleiri hjóla eykst líka öryggi heildarinnar. Safety in numbers er það kallað á ensku.
Því er það svo að allt sem fælir frá hjólreiðum eða heftir aðgengi að þeim vinnur beint gegn bættu öryggi hjólandi. Bætt öryggi hjólandi hlýtur að vera sú stefna stjórnvalda sem hjálmaáróður átti að ná fram en ekki að vinna gegn. En áróðurinn hamlar einnig árangri í öðrum stefnumálum s.s. lýðheilsu, loftlags- og samgöngumálum. Það var sem sagt þessi ofverndunarstefna stjórnvalda sjálfra sem stefndi heilsu og öryggi Skosks almennings í hættu með því að hræða fólk frá þeim holla og örugga fararmáta; hjólreiðum.
Hér sést auglýsingin umdeilda:
-Páll Guðjónsson
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015