En hérlendis er lenska meðal ákveðins hóps að gagnrýna sama athæfi ef einhver uppfyllir ekki ítrustu kröfur sem gerðar eru til hins fullkomna hjólreiðamanns. Fólk er t.d. skammað fyrir að vera ekki góð fyrirmynd ef viðkomandi er ekki með reiðhjólahjálm. Sjálfsagt er þetta vel meint og endurspeglar þá upplifun viðkomandi að hjólreiðar séu beinlínis hættulegar og þá sérlega ef ekki er notaður allur tiltækur varnarbúnaður.
En fyrir þann sem upplifir ítrekað þessa tilefnislausu gagnrýni er þetta einelti. Varla má sjást mynd af þekktum einstaklingum hjóla án hjálms í vefmiðlum án þess að einhver finni ekki hjá sér þörf til að vera með einhverjar glórulausar upphrópanir í kommentakerfinu.
Það er kominn tími til að við stöðvum þetta einelti og viðurkennum að þau sem kjósa hreyfingu umfram hreyfingarleysi, þau sem kjósa að ferðast um án þess að menga þau eru góðar fyrirmyndir og það sama hvort sem viðkomandi er með reiðhjólahjálm á höfðinu eða ekki.
Bæði er gott.
-Páll Guðjónsson
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015
Viðbót 6. maí 2015
Myndin með þessum pistli er tekin af vef mbl.is sem sýnir umfjöllun þeirra um opnunarhátíð Hjólað í vinnuna nú í morgun og sýnir greinilega einkenni þess eineltis sem mætir venjulegu fólki í venjulegum fötum sem nýtir sér þennan holla fararmáta án þess að setja á sig reiðhjólahjálm, nokkuð sem er fullkomlega löglegt.
Til vinstri á mynd sést Hjálmar Sveinsson, hann koma hjólandi á viðburð og fékk gagnrýni fyrir að vera ekki með reiðhjólahjálm, reyndar af blaðaljósmyndara á staðnum og úr því varð þessi sviðssetta ekki-frétt. Í miðið er ráðherra sem kom líka án reiðhjólahjálms og reyndar líka án reiðhjóls, allt í lagi með það því hann sá vorboðann í hjólreiðafólkinu. Þriðji er mikill sportisti held ég en ræða hans fjallaði um hversu miklar efasemdir voru innan íþróttasambandsins um að hjólreiðar væru eitthvað fyrir almenning þegar átti að leggja upp með keppnina. Ræða Hjálmars fjallaði einmitt um það að Reykjavíkurborg ætlaði að reyna að ná til breiðari hóps en þeirra sem nú hjóla um í sportfatnaði. Hann fjallaði um aðstöðuna í Kaupmannahöfn. Ef það væri fréttnæmt að fólk hjólaði án reiðhjólahjálma þar í landi fjölluðu danskir fjölmiðslar ekki um neitt annað.