„Árnessýsla er mesta ferðamannasýsla landsins. Þingvellir, Gullfoss, Geysir, Skálholt, Kerið og fjöldi annarra ferðamannastaða laða daglega að sér þúsundir fólks frá öllum heimshornum. Stór hluti íslensku þjóðarinnar á sér orlofshús í sýslunni og enn stærri hluti leggur þangað leið sína til að njóta fegurðar náttúrunnar og sögufrægra staða. Landsins fjölförnustu hálendisleiðir tengjast Árnessýslu.
Að sjálfsögðu fýsir hjólreiðafólk að upplifa dýrðir sýslunnar. Því miður er ekki gert ráð fyrir þesskonar ferðafólki á vegunum. Þeir eru næstum allir án vegaxla og sérstakir hjólreiðastígar eru hvergi til. Annaðhvort verða stórslys eða það verða fundnar lausnir.
Árnessýsla er staður öfga. Þar er hægt að vera í mannþröng sem jafnast á við fjöldann á torgum stórborga en færi maður sig aðeins um set, mætti halda að maður væri einn í heiminum. Upp til heiða og fjalla er hægt að skrölta á fjallahjóli eða rölta sér tímunum, eða jafnvel dögunum saman án þess að hitta annað fólk. Líka má finna fáfarna malarvegi sem liggja um þetta frjósama landbúnaðarhérað. Friðsældina og fegurðina má víða finna í Árnessýslu.“
Hvað er til ráða fyrir hjólreiðafólk sem vill skoða ferðamannastaðina? Það er hægt að hjóla í bjartri sumarnóttinni og skoða m.a. galtómar bílastæðavíðátturnar við Gullfoss og Geysi. Það er líka hægt að fara með hjólið í almenningsvagni eða einkabíl að ferðamannastöðunum og svo þangað sem hægt er að komast inn á fáfarnari vegi. Það er hægt að hjóla eftir nær ófærum reiðstígum og eiga það á hættu að trylla hrossin undan knöpunum. Það er hægt að gera það sama og flestir aðrir, að hleypa í sig kjarki og deila akvegunum með bílunum.
Allt þetta er hægt en ekkert af því gott (nema næturhjólreiðarnar, en þær henta ekki öllum). Auðvitað er til lausn og hún liggur í augum uppi. Það er sama lausnin og fundin er í öðrum löndum með hjólreiðaferðamennsku: Leggja hjólastíga. Þar með ætti þessum pistli að vera lokið, en það er kurteisi að minna á að veruleikinn hindrar lausnir. Þetta kostar peninga. Lítið er til af þeim á Íslandi. Það þarf að kunna að reikna út að þetta borgi sig. Svoleiðis er ekki gert á Íslandi. Þetta krefst skipulagningar og útsjónarsemi. Það eru ekki vinsæl hugtök á Íslandi. Sátt og samvinna framkvæmdaaðila og landeigenda er nauðsyn, en svoleiðis er eitur í beinum Íslendinga.
En allt er breytingum háð og Íslendingum er ekki alls varnað. Sjálf höfuðborgin er gott dæmi um það. Hvern hefði órað fyrir því fyrir fáum áratugum að þessi hraðbrautaborg yrði að jafn hjólavænum stað og hún er í dag? Kannski verður óhætt að fara í hjólaferðir með fjölskyldunni um ferðamannaslóðir Árnessýslu eftir fáeina áratugi.
Ómar Smári Kristinsson
Greinarhöfundur á góðri stund í glúfri.
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015