Í landi andfættlinganna kann löggan að díla við hjólandi vegfarendur. Hún bara sektar þá sem eru hjálmlausir. Þó aðeins örbrot af íbúunum sé á hjólum hefur löggan alvarlegar áhyggjur af þeim sem ekki eru með hjálm á höfðinu. Enda hvað getur hún skipt sér af offitufaraldri bílaþjóðarinnar sem byggir álfuna því þar eins og allt um kring í hinum vestræna heimi, er hreyfingarleysi beinlínis að drepa fólk.
Ástralir leggja mikla áherslu á öryggisvitund. Eða svo er sagt. Ég tók þátt í VeloCity ráðstefnunni í Adeilaide í maí 2014 með erindið „Did God ride a bike to Iceland? Remarkable social changes since 2008“. Smádótið sem okkur var afhent við upphaf ráðstefnunnar, endurspeglaði áherslur þarlendra í samkeppninni við aðra ferðamáta. Ég fékk lítinn heila. Bara svona mjúkan sem Snata finnst gaman að hlaupa á eftir og sækja! Svo fékk ég allskonar meira dót, gult og glansandi, og æðisleg hjólagleraugu. Líka aulahroll. Hversu aðlaðandi er að skella sér á hjólið og hugsa um heila? Í auglýsingatímanum á RÚV í gærkvöldi var mér sagt að hækka tónlistina í botn og fíla mig dansandi á bílnum í gegnum smástræti borgarinnar. Enginn heili þar – ó, nei
Í Adelaide búa milljón manns. Hún er stór borg á ástralskan mælikvarða. Hún er rennislétt í grunninn, engar brekkur fyrr en komið er í hlíðarnar umhverfis borgina, þar sem vínviðurinn vex og skógareldar geysa nánast árlega. Það er komið haust. Ekki nema 18 stiga hiti. Kjörhiti til hjólreiða. Um alla borg eru skemmtilegar hjólaleiðir og hjólareinar á götunum. En það eru bókstaflega allir á bíl! Aðstæður allar hinar bestu til að hjóla - en samt svona fáir.
Borgaryfirvöld í Adelaide virðast á svipuðu róli og meirihlutinn í Reykjavík. Það er einlægur vilji til þess að greiða fyrir umferð hjólandi. VeloCity ráðstefnan var eitt skref í áttina. Þar komu saman gestir mestmegnis frá Eyjaálfu, Asíu og Evrópu. Í Adelaide var World Cycling Alliance hleypt formlega af stokkunum að frumkvæði European Cyclist Federation, en það er net fyrir hjólahvetjendur um allan heim. Hvatningin er nauðsynleg. Til þess er þessi grein, þetta blað, starf okkar í LHM og víðar. Við erum í gríðarlegri samkeppni við fjársterkan iðnað; olíuvelda og bílaframleiðenda.
Mikael Colville Andersen, Manfred Neun, Klaus Bondam, borgarstjórinn, Janette Sadik-Khan – stjörnum prýtt sviðið. Heilsa, heilbrigði, öryggi, upplifun, leikir – ekkert jafnast á við hjólið. Hvatning, merkingar, hönnun, aðgerðaplön – allt dregið fram. Viðburðir, skemmtun og tengslamyndun! Það er meðal þeirra þátta sem hafa gert okkur ómetanlegt gagn í að koma verkefnum af stað hér á Íslandi; ræðumenn á ráðstefnur, hvatning og hugmyndir.
Í Ástralíu er allt öfugt. Við flugum héðan um vor og lentum þar um haust. Gripum andköf þegar við sáum svarta svani - en það eru engir hvítir svanir í álfunni! Og þessir svörtu eru ótrúlega fallegir.
Á sama tíma og hjálmaskylda varð staðreynd í Ástralíu, dró úr notkun reiðhjóla. Hvort það var afleiðing hjálmaskyldunnar eða almennt rýmri heimilishags, vitum við ekki eða hvort það var eitthvað allt annað. Kannski ímyndin um litla heilann? Óttinn kannski? Skortur á heildarsýn? Hver veit. Þjóðin virðist vera að vakna upp af sínum Þyrnirósarsvefni, mikilvægi heilbrigðis er sett í forgang, mengun og umferðaröngþveiti er staðreynd og þessi litla þjóð í þessu stóra landi, hún virðist hafa áhuga á því að komast aftur út að hjóla.
Næsta VeloCity ráðstefna verður í Nantes í Frakklandi, 2. – 6. júní 2015.
www.velo-city2015.com
Heimasíða VeloCity ráðstefnunnar í Adelaide er www.velo-city2014.com
{gallery}stories/2015/velocity2014{/gallery}
Birtist fyrst í Hjólhestinum 1. tbl. 2015