Hjólaskoðun Dr. BÆK á vinnustöðum hefur verið vinsæll viðburður á vorin í skólum, á vorhátíðum og á vinnustöðum. Þá kemur doktorinn í vitjun og skoðar reiðhjól, lagfærir það sem er smálegt, pumpar, smyr og stillir og gefur út heilbrigðisvottorð eða tilvísun eftir atvikum til sérfræðings, ef eitthvað er að hjólinu. Starfsmenn í fyrirtækjum eða nemendur í skólum eru hvattir til að vera viðstaddir skoðunina til að læra einföld trix í viðhaldi á sínum hjólum. Á hverju vori skoða doktorar Hjólafærni þúsundir hjóla og þar sem þeir koma endurtekið vor eftir vor er greinilegt að ástand hjólanna hefur tekið framförum.

Fyrirlestrar í boði eru t.d. um samgöngu­hjól­reiðar, hjólaferðalög, heilsuáhrif hjólreiða og reiðhjólið sjálft. Þeir eru gjarnan haldnir á vinnu­stöðum og fjöldi áheyrenda takmarkast við salastærð.

Viðgerðarnámskeið hafa verið haldinn á mörgum vinnustöðum, í skólum, hjá sí­menntunar­miðstöðvum og hjá Fjalla­hjóla­klúbbnum. Kennt er grunnviðhald og viðgerðir eins og að gera við sprungið dekk, skipta um bremsupúða og stilla gíra. Einnig eru kenndar flóknari viðgerðir. Fólk kemur gjarnan með eigin reiðhjól og vinnur með þau en Hjólafærni útvegar verkfæri og áhöld. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður til að allir hafi tök á að gera við sjálfir.

Kennsla í hjólafærni fer fram á vettvangi. Kennt er hvernig þægilegast er að hjóla til samgangna á stígum og götum og hvaða leiðir er gott að velja hjá hverjum og einum. Farið er yfir hjól þátttakenda áður en farið er af stað, pumpað, smurt og stilltir gírar og bremsur. Hjólafærni hefur verið kennd í skólum, á sumarnámskeiðum, á vinnustöðum og víðar.

Hjólafærni hefur líka kennt bæði börnum og fullorðnum að hjóla frá grunni.

{gallery}stories/2015/hjolafaerni{/gallery}

Árni Davíðsson

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015