Hjólreiðar.is leitast við að „normalisera“ hjólreiðar og koma ímynd samgönguhjólreiða aftur í eðlilegt horf hjá þeim sem telja þetta hættulegt jaðarsport. Markmiðið er að kynna hjólreiðar fyrir almenningi og útskýra hversu einfalt og þægilegt er að hjóla. Mottóið er að það þurfi bara að setjast á hjólið og hjóla af stað. Ef hjólið er með bremsur og annað í lagi þarf ekkert meir. Hjólið má vera gamalt og snjáð, það þarf ekki endilega fullt af gírum eða vera hannað fyrir torfærur með dempurum og hvað þetta heitir allt. Þú þarft ekkert að kunna á þessi tæknimál. Ef hjólið bilar ferðu bara með það á verkstæði.

Það þarf heldur ekki sérstakan fatnað til að hjóla. Þeir einu sem þurfa að kaupa sér nýjar yfirhafnir eru þeir sem eru ekki vanir að ganga lengra undir beru lofti en til og frá næsta bílastæði. Þá er líka tímabært að þeir breyti aðeins um lífsstíl.

Kannski tekur bara nokkrar mínútur að hjóla í vinnuna og maður sleppur við umferðar­­teppur og bílastæðavesen. Á korteri er hægt að hjóla hálfa Reykjavík, án þess að svitna. Það er líka oft hægt að velja sér fallegar leiðir sem ekki er hægt að upplifa í bifreiðum og má þar nefna yndislega leið sem nær frá Ægissíðu, meðfram ströndinni inn í Fossvog og áfram meðfram Elliðaám alla leið upp í Heiðmörk.

Á vefnum er farið yfir kosti hjólreiða ótölulegur fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að hjólreiðar lengja líf fólks og bæta heilsufar, efla líkama og sál. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að þeir sem hjóla eru ánægðustu veg­farendurnir en ökumenn bifreiða minnst ánægðir.

En það er ýmislegt sem er gott að vita þegar maður byrjar að nota reiðhjól sem samgöngutæki og á hjólreiðar.is er fjallað ítarlega um þau atriði sem vert er að hafa í huga til að hámarka öryggi sitt, svo sem hvernig best er að staðsetja sig á akrein. Stundum þarf að taka ríkjandi stöðu svo hjólandi sé ekki settur í hættulegar aðstæður þegar bíll reynir framúrakstur þar sem aðstæður bjóða ekki upp á það. Þetta og fleira er fjallað um í ítarlegu kennsluefni um tækni samgönguhjólreiða. Þetta efni var það fyrsta á íslensku þegar við byrjuðum að kynna það 2007-2008 bæði á prenti og á vefsíðum Fjallahjólaklúbbsins, Landssamtaka hjólreiðamanna og síðar hjólreiðar.is sem er samstarfsverkefni þessara félaga. Hjóla­færni á Íslandi kennir þessa sömu tækni á námskeiðum og með fyrirlestrum ásamt öðrum fjölbreyttum verkefnum.

Við reynum að kveða niður ýmsar mýtur tengdar hjólreiðum og þar er stærsta mýtan sú að hjólreiðar séu hættulegar. Hættulegt athæfi lengir ekki lífið, en það gera reglulegar hjólreiðar hinsvegar. Þær eru þó ekki hættulausar frekar en annað í lífinu en þegar t.d. banaslys eru skoðuð eru hjól-reiðar tvímælalaust öruggasti fararmátinn á Íslandi því enginn hefur látið lífið síðan 1997 en á sama tímabili hafa 321 látið lífið í umferðinni. (Samtals hafa 1502 látið lífið í umferðinni frá upp­hafi bíla­ald­ar á Íslandi).

Þegar tölum um fjölda hjólaferða á höfuðborgarsvæðinu er slegið inn í heilbrigðis­reiknivél WHO, World Health Organisation, er niðurstaða sú að áætla má að þessar hjólreiðar komi í veg fyrir a.m.k. fimm ótímabær dauðsföll á ári og spari samfélaginu yfir milljarð kr. árlega. Já hjólreiðar virka betur en nokkur pilla og nú eru læknar byrjaðir að benda þeim sem til þeirra leita með ýmsa kvilla á þessa kosti hreyfingar frekar en að skrifa upp á pillur. Það verður ekki allt læknað með pillum eftirá.
--
Það er mikið af svipmyndum af hjóla­menningunni á Íslandi á hjólreiðar.‌is. Forsíðu­myndin, þessar og fleiri í blaðinu voru teknar á Tweed Ride Reykjavík sem verður endurtekið 30 maí í Reykjavík og 29. ágúst á Akureyri

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015