Það varð til þess að borgarstjórn samþykkti í október að skipa starfshóp til að endurskoða hjólreiðaáætlun borgarinnar. Í erindisbréfi segir að Hjólreiðaáætlun Reykja­víkur­borgar sem samþykkt var árið 2010 hafi skilað markverðum árangri. Hlutverk hópsins sé að fara yfir fyrirliggjandi framkvæmd og gera aðgerðaáætlun til að gera hjólreiðum enn hærra undir höfði í Reykjavík. Helstu verkefnin eru:

  • að skoða hvernig hægt er að fá fleiri til að hjóla í og úr skóla
  • fjölga hjólastæðum, hjólamerkingum og skiltum
  • kynna hjólreiðar betur sem samgöngu­valkost
  • skoða leiðir til að fá atvinnulífið og stóra vinnustaði í lið með borginni með því að fá starfsmenn og stjórnendur til að hjóla í og úr  vinnu.
  • leggja mat á stöðu hjólreiða sem sam­göngu­máta og skilgreina mælanleg markmið (hjólreiða­bókhald borgarinnar) sem fylgt verði eftir.

Starfshópinn skipa fulltrúar borgar­stjórnar­­flokkanna. Til ráðgjafar eru sér­fræð­ingar á umhverfis- og skipulagssviði. Verk­fræði­stofan Mannvit hefur verið ráðin til að setja upp drög og koma fram með lausnir og verk­fræðilega útfærslu við framkvæmd nýrrar hjól­reiðaáætlunar. Drögin eiga að vera tilbúin 1. apríl þegar þau verða lögð fyrir borgarráð. Þau fara síðan í víðtækt samráðsferli en stefnt er að því að fullbúinni Hjól­reiða­áætlun verði formlega ýtt af stað  í samgöngu­vikunni haust 2015.

Nýja hjólreiðaáætlunin mun auðvitað byggja á þeirri gömlu. Hún var tímamótaplagg árið 2010. Þar voru settar fram á einfaldan og áhrifaríkan hátt upplýsingar um kosti hjólreiða fyrir hvern og einn og fyrir samfélagið í heild sinni. Þar voru líka kynnt metnaðarfull markmið í hjólastígagerð. Tíu kílómetrar á ári til ársins 2020, alls 100 kílómetra af hjóla­stígum á tíu árum. Þessi markmið munu verða áfram í gildi og ljóst að borgaryfirvöld munu þurfa að spýta í lófana til að ná þessu marki. Í lok þessa árs verða hjólastígar 35 km í Reykjavík.

Í ár setur borgin um 350 milljónir í hjóla­stíga. Megin áherslan er í Bústaða- og Háaleitishverfi. Til stendur að leggja hjólastíg meðfram Bústaðavegi frá Háaleitisbraut að Stjörnu­gróf. Á næsta ári verður lagður stígur frá Háaleitisbraut að Kringlumýrarbraut. Á þessu ári verður lagður tvístefnustígur meðfram Háaleitisbraut frá Miklubraut að Listabraut og ætlunin er að leggja einstefnu­hjólastíga við Grensásveg frá Miklubraut að Bústaðavegi, eins og frægt er. Á næstu þremur árum verða lagðir hjólastígar í Elliðaárdal, meðfram endilangri Miklubraut, meðfram Sund­laugar­vegi, Rauðarárstíg, Snorrabraut, Suðurgötu og Hofsvallagötu.

Einnig verða lagðir stígar í samvinnu við Vega­gerðina meðfram stofnbrautum; Kringlu­mýrar­braut, Bústaðavegi frá Kringlu­mýrar­braut að Snorrabraut, Geirsgötu og Mýrar­götu og Hringbraut milli Snorrabrautar og Sæmundar­götu.

Sú mikilvæga hjólreiðasamvinna er mögu­leg vegna tímamóta samgöngusamnings sem sveitar­félögin á höfuðborgarsvæðinu, Innan­ríkis­ráðuneytið og Vegagerðin gerðu til tíu ára árið 2012. Það er mikið fagnaðarefni að Vegagerðin og Innanríkisráðuneytið skuli nú vilja vera þátttakendur í að skapa fjöl­breytta, vistvæna samgöngukosti á höfuð­borgar­svæðinu, langfjölmennasta íbúasvæði landsins.

En í allri þessari upptalningu á verkefnum, kílómetrum og áætlunum er mikilvægt að gleyma aldrei aðalatriðinu, sjálfum forsendum allra þessara framkvæmda. Þær eru ágætlega orðaðar í hjólreiðaáætluninni frá 2010:

„Aukin hlutdeild hjólreiðafólks í borginni mun hafa góð áhrif á umhverfi, lýðheilsu og lífið í borginni og skapa betri borg.“

Með öðrum orðum sagt, það að gera Reykja­vík að framúrskarandi hjólaborg er liður í því að gera hana vistvænni og mannvænni. Auðvitað verður það líka meginmarkmið nýrrar hjólreiðaáætlunar.

‑Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykja­víkur og formaður stýrihóps um endurskoðun hjólreiða­áætlunar Reykjavíkurborgar.

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015