Það varð til þess að borgarstjórn samþykkti í október að skipa starfshóp til að endurskoða hjólreiðaáætlun borgarinnar. Í erindisbréfi segir að Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var árið 2010 hafi skilað markverðum árangri. Hlutverk hópsins sé að fara yfir fyrirliggjandi framkvæmd og gera aðgerðaáætlun til að gera hjólreiðum enn hærra undir höfði í Reykjavík. Helstu verkefnin eru:
- að skoða hvernig hægt er að fá fleiri til að hjóla í og úr skóla
- fjölga hjólastæðum, hjólamerkingum og skiltum
- kynna hjólreiðar betur sem samgönguvalkost
- skoða leiðir til að fá atvinnulífið og stóra vinnustaði í lið með borginni með því að fá starfsmenn og stjórnendur til að hjóla í og úr vinnu.
- leggja mat á stöðu hjólreiða sem samgöngumáta og skilgreina mælanleg markmið (hjólreiðabókhald borgarinnar) sem fylgt verði eftir.
Starfshópinn skipa fulltrúar borgarstjórnarflokkanna. Til ráðgjafar eru sérfræðingar á umhverfis- og skipulagssviði. Verkfræðistofan Mannvit hefur verið ráðin til að setja upp drög og koma fram með lausnir og verkfræðilega útfærslu við framkvæmd nýrrar hjólreiðaáætlunar. Drögin eiga að vera tilbúin 1. apríl þegar þau verða lögð fyrir borgarráð. Þau fara síðan í víðtækt samráðsferli en stefnt er að því að fullbúinni Hjólreiðaáætlun verði formlega ýtt af stað í samgönguvikunni haust 2015.
Nýja hjólreiðaáætlunin mun auðvitað byggja á þeirri gömlu. Hún var tímamótaplagg árið 2010. Þar voru settar fram á einfaldan og áhrifaríkan hátt upplýsingar um kosti hjólreiða fyrir hvern og einn og fyrir samfélagið í heild sinni. Þar voru líka kynnt metnaðarfull markmið í hjólastígagerð. Tíu kílómetrar á ári til ársins 2020, alls 100 kílómetra af hjólastígum á tíu árum. Þessi markmið munu verða áfram í gildi og ljóst að borgaryfirvöld munu þurfa að spýta í lófana til að ná þessu marki. Í lok þessa árs verða hjólastígar 35 km í Reykjavík.
Í ár setur borgin um 350 milljónir í hjólastíga. Megin áherslan er í Bústaða- og Háaleitishverfi. Til stendur að leggja hjólastíg meðfram Bústaðavegi frá Háaleitisbraut að Stjörnugróf. Á næsta ári verður lagður stígur frá Háaleitisbraut að Kringlumýrarbraut. Á þessu ári verður lagður tvístefnustígur meðfram Háaleitisbraut frá Miklubraut að Listabraut og ætlunin er að leggja einstefnuhjólastíga við Grensásveg frá Miklubraut að Bústaðavegi, eins og frægt er. Á næstu þremur árum verða lagðir hjólastígar í Elliðaárdal, meðfram endilangri Miklubraut, meðfram Sundlaugarvegi, Rauðarárstíg, Snorrabraut, Suðurgötu og Hofsvallagötu.
Einnig verða lagðir stígar í samvinnu við Vegagerðina meðfram stofnbrautum; Kringlumýrarbraut, Bústaðavegi frá Kringlumýrarbraut að Snorrabraut, Geirsgötu og Mýrargötu og Hringbraut milli Snorrabrautar og Sæmundargötu.
Sú mikilvæga hjólreiðasamvinna er möguleg vegna tímamóta samgöngusamnings sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Innanríkisráðuneytið og Vegagerðin gerðu til tíu ára árið 2012. Það er mikið fagnaðarefni að Vegagerðin og Innanríkisráðuneytið skuli nú vilja vera þátttakendur í að skapa fjölbreytta, vistvæna samgöngukosti á höfuðborgarsvæðinu, langfjölmennasta íbúasvæði landsins.
En í allri þessari upptalningu á verkefnum, kílómetrum og áætlunum er mikilvægt að gleyma aldrei aðalatriðinu, sjálfum forsendum allra þessara framkvæmda. Þær eru ágætlega orðaðar í hjólreiðaáætluninni frá 2010:
„Aukin hlutdeild hjólreiðafólks í borginni mun hafa góð áhrif á umhverfi, lýðheilsu og lífið í borginni og skapa betri borg.“
Með öðrum orðum sagt, það að gera Reykjavík að framúrskarandi hjólaborg er liður í því að gera hana vistvænni og mannvænni. Auðvitað verður það líka meginmarkmið nýrrar hjólreiðaáætlunar.
‑Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og formaður stýrihóps um endurskoðun hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar.
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015