Á undan hverri hlaupavegalengd fara tveir undanfarar á reiðhjólum og á eftir koma tveir eftirfarar á reiðhjólum. Hlaupavegalengdirnar eru 42, 21, 10 og 3 km. Hlutverk undanfara er að vera á undan fremstu mönnum í hlaupunum, vara fólk við ef það er fyrir og gera viðvart um komu þeirra á gæslu- og drykkjarstöðvum. Þeir sem eru undanfarar þurfa að geta hjólað á 20 km meðalhraða þá vegalengd sem um er að ræða. Eftirfarar láta vita þegar síðasti maður er komin í gegn á gæslu- og drykkjarstöðvum og fara hægar yfir. Bæði undan- og eftirfarar eru síðan í sambandi við brautarstjórn maraþonsins og láta vita hvar þeirra hlauparar eru staddir í brautinni.
Það er þörf á um 16 manns sem undan- og eftirfara en þeir geta verið fleiri eða færri eftir atvikum ef menn skipta með sér verkum eða taka að sér fleiri hlutverk. Í ágúst auglýsir Fjallhjólaklúbburinn eftir sjálfboðaliðum úr hópi klúbbmeðlima en ef menn vilja festa sér pláss fyrir þann tíma geta menn verið í sambandi við klúbbinn t.d. í tölvupósti og lýst yfir áhuga. Þetta er mjög eftirminnileg og skemmtileg vinna og menn láta gott af sér leiða og upplifa frábæra stemningu í bænum á hlaupadaginn.
Árni Davíðsson
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015