Átak sem gert hefur verið í að skrá og flokka stærra hlutfall slysa sem hjólreiðaslys er einnig hluti af ástæðu fjölgunarinnar. Þá hefur ekki verið minnst á að stóran hluta slysanna megi rekja til hönnunar á stígum og öðrum umferðarmannvirkjum sem er klárlega ábótavant, eins og kemur fram í skýrslunni sem verður kynnt á umferðarþingi í febrúar.
Það þykir fréttnæmt að slysum fjölgi meðal hjólreiðafólks, við samgönguhjólreiðar, í ferðalögum, við íþróttaiðkun eða þar sem hjól eru notuð sem leiktæki. Það sem er nýtt eða breytt þykir fréttnæmt. En alls konar met eru líka fréttnæm. Samt sést aldrei fyrirsögn í blöðum eða skýrslum sem væri á þessa leið: „Heimsmet í öryggi hjólreiða“. Undirfyrirsögnin gæti verið: „Engin hefur látist á reiðhjóli í umferðinni síðan 1997“. Það þykir meira spennandi að fjalla um breytingar á milli stakra ára í fjölda látinna, og miklar ályktanir dregnir af því, þrátt fyrir að flestir fagmenn og allir tölfræðingar sjái hvað það er hæpið. En samfelld röð af núllum í meira en áratug, þykir ekki áhugavert, þrátt fyrir vinsældir núllsýnarinnar í umferðaröryggismálum.
Ekki er heldur slegið upp niðurstöðunni sem samgönguverkfræðingurinn Þorsteinn Hermannsson kemst að varðandi fjölda dauðsfalla sem hjólreiðar sem samgöngumáti hafa komið í veg fyrir en þar styðst hann við líkan Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, til eflingar lýðheilsu. Nákvæma talan er svolítið á reiki háð forsendum, og WHO leggur upp með að ofmeta ekki ávinninginn, en hann er fimm mannslíf á ári. Til samanburðar hafa látist tíu manns árlega í bílum og á bifhjólum í umferðinni undanfarin ár. Tölur frá Hagstofu sýna að á árunum 2000 - 2009 létust 30 manns á aldrinum 21 - 66 ára vegna falls.
Morten Lange
Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015