Siglingin yfir fjörðinn var tíðindalítil og lögðumst við að bryggju á Brjánslæk upp úr hálf sjö. Þar tók hluti hópsins á móti okkur. Þegar við vorum búin að gera okkur klár og setja allt í trússkerruna héldum við af stað og hjóluðum að Krossholti, þar sem við tjölduðum. Þangað komum við á innan við klukkustund eftir tæplega 16 km hjólaferð. Við tjölduðum í bakgarði húss þar sem við höfðum aðgang að eldhúsi, salerni o.þ.h.

Það er orðin hefð fyrir því að einhver verður sextugur í ferðum okkar um Vestfirðina. Það hefur gerst í 100% tilfella en þetta var nú reyndar bara í annað sinn sem við hjólum þar. Nú átti Ásta þetta stórafmæli, þannig að það var boðið upp á tertu eftir kvöldmatinn.

Næsta dag héldum við af stað upp úr klukkan átta. Brottför var flýtt um klukkustund vegna leiðinlegrar veðurspár þegar liði á daginn. Við stefndum í átt að Kleifaheiði, sem var fyrsta heiðin sem við þurftum að fara yfir í þessari ferð. Það gekk ágætlega. Sumir stoppuðu á leiðinni upp, en sumir létu sig hafa það að fara upp hana án þess að stoppa. Þegar við vorum komin upp og reyndar aðeins farin að lækka okkur aftur stoppuðum við hjá Kleifabúanum, sem er varða með steyptan haus. Þeir sem lögðu veginn á sínum tíma reistu vörðuna. Þar var hinkrað eftir þeim sem síðar komu.

Þegar allir voru búnir að skila sér var mikil tilhlökkun að fara niður tiltölulega brattan veginn, sem zikk-zakkaði niður brekkuna en nei, það var svo sannarlega ekki í boði. Á einum stað kom hvass vindstrengur á móti þannig að það þurfti að gíra vel niður til að geta hjólað niður brekkuna. Döhh! En svo lagaðist þetta þegar við komum niður. Í stað þess að fara beint inn á Patró hjóluðum við inn í mynni Skápadals. Þar í fjörunni er skip sem var siglt upp í fjöruna 1981. Það strandaði ekki, heldur var gerð renna fyrir skipið og því siglt upp af eigandanum til að geyma það þarna. Þetta mun vera elsta stálskip á Íslandi, byggt 1912 í Noregi. Á þessum stað stendur það og ryðgar niður hægt og rólega. Þarna tókum við matarhlé og  að því loknu héldum við áfram inn á Patró.

Á leiðinni þangað stoppuðum við hjá laxeldi Fjarðarlax. Það var ekki á dagskránni en einn í hópnum þekkti einhvern sem starfar þar. Var okkur sagt frá laxeldinu og sýndar myndir úr kerjunum. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Síðan var brunað „non stop“ inn á Patró. Nokkur okkar byrjuðu á að tjalda. Sum, tjah eiginlega flest, voru búin að gera ráðstafanir til að gista í húsum. Síðan hjóluðum við um þorpið, fórum í laugina og í kaffi í Sjóræningjahúsið. Veðrið var aðeins farið að versna þegar hér var komið  sögu. Um kvöldið fórum við út að borða í Stúkuhúsið. Þegar við komum út aftur var veðrið orðið frekar slæmt. Himininn hafði losnað af einu tjaldinu og það var kominn pollur í það þannig að eigendurnir flúðu í hús, fengu, að talið er síðasta lausa plássið á staðnum. Reyndar var veðrið svo slæmt að tónlistarhátíð sem átti að vera á Rauðasandi þetta kvöld var blásin af, í orðsins fylgstu merkingu, því allt var að fjúka þar. Fólkinu var komið fyrir í íþróttahúsinu og skólanum á Patró. Svo lægði þegar leið á nóttina.

Við hjóluðum um 47 km á tæpum sjö tímum, plús rúmlega sjö km innanbæjar.

Næsta morgun hafði lægt mikið, það var aðeins stinningsgola. Við héldum af stað um klukkan níu sem leið lá inn Mikladal. Þar var hækkun, hvað annað? En svo gátum við látið okkur bruna niður í Höfðadal og niður í botn Tálknafjarðar. Það var nú ekki leiðinlegt. Við komum við á Táknafirði, þ.e.a.s. þorpinu og fengum okkur að borða.

Eftir stutt stopp héldum við af stað upp Hálfdán, sem er um 500 metra hækkun. Við tókum þetta frekar rólega og stoppuðum tvisvar, þrisvar á leiðinni. Það teygðist vel úr hópnum á leiðinni upp en tvö fóru þetta í einum rykk. Nú tók við flott brekka niður á Bíldudal. En það var nokkuð hvasst á leiðinni þannig að  ekki var farið mjög hratt niður. Reyndar fauk ein af veginum og datt, en sem betur fer var hún ekki á miklum hraða, þannig að hún meiddi sig ekki mikið.

Á leið okkar í bænum mættum við stelpu sem hélt á kyndli með friðareldinum. Nokkur okkar skiptust á að halda á kyndlinum. Þegar við komum á tjaldstæðið á Bíldudal reyndum við að finna skjól, sem ekki fannst . Enn og aftur voru nokkrir búnir að gera ráðstafanir fyrirfram til að vera í húsi. En sum voru eiginlega búin að fá nóg af rokinu þannig að þau leituðu einnig að gistingu, bara þessa einu nótt en það var allt upppantað. Þeim var bent á að tala við mann sem á starfsmannaíbúð sem hugsanlega væri hægt að komist í. Það varð líka raunin og fóru þrjú í hana. Af fólkinu sem tjaldaði er  það að segja að það átti í smá erfiðleikum með að koma tjöldunum upp. Fólk þurfti að liggja á tjöldunum til að þau fykju ekki á haf út.

Við fórum nokkur í Skrímslasetrið til að borða og þegar leið á kvöldið kom allur hópurinn þangað. Einn starfsmaðurinn tók gítar í hönd og hóf að spila og syngja. Síðar kom maður inn og ætlaði að fá sér einn bjór, en hann var líka settur í  að spila og syngja og þeir félagar tóku nokkur lög saman. Þetta var hin mesta skemmtun. Við hjóluðum um 40 km á fimm og hálfum tíma þennan dag.

Næsta dag lá leiðin inn í Selárdal. Við héldum af stað upp úr klukkan níu  á vit ævintýranna. Nú, það var eins og fyrri daginn frekar hvasst á köflum þó ekki alltaf. Það virtust koma strengir innan úr dölunum þegar við hjóluðum fram hjá þeim og það var  heldur ekkert sérstaklega hlýtt. Við sem hjóluðum hinu megin við Arnarfjörðinn 2009 horfðum þangað nánast með tárin í augunum, þegar við minntumst þess að hafa hjólað þar í um 18 stiga hita, logni og léttskýjuðu veðri en við héldum áfram og komum að safni Samúels Jónssonar þar sem við skoðuðum okkur um og fengum okkur að borða undir  kirkjuveggnum.

Þegar átti að leggja af stað til baka var sprungið á afturdekkinu hjá einum. Nú jæja, það varð að gera við það, sem varekki mikið mál. Í upphafi var ætlunin að fari inn í Selárdalinn og skoða hús Gísla á Uppsölum en þar sem það var frekar hvasst og kalt þá fóru aðeins örfáir þangað inn eftir. Hin voru eiginlega búin að fá nóg!

Á bakaleiðinni héldu vindarnir áfram að blása á okkur úr dölunum. Þegar við áttum stutt eftir inn í þorpið fór að rigna og enn var  frekar hvasst þannig að þau sem voru búin að koma sér fyrir í húsi héldu sig þar. Það er engin sundlaug á Bíldudal svo flest okkar fóru í heita pottinn. Sum þeirra sem gistu í húsum fóru á tjaldstæðið til að borða kvöldmatinn með félögunum í roki og rigningu. Hvað annað? Síðan fórum við á Veitingastaðinn Sigga Ben, fengum okkur ís og spjölluðum saman áður en við fórum í háttinn. Við hjóluðum rúmlega 50 km á tæpum sjö tímum og fjörtíu og fimm mínútum þennan dag.

Síðasti hjóladagurinn rann upp tiltölulega hlýr og það var LOGN! Sjórinn í höfninni og Bíldudalsvoginum var spegilsléttur. Við fórum seinna af stað en venjulega , eða upp úr klukkan tíu. Við fórum um Fossafjörð og Reykjarfjörð, þar sem við áðum. Síðan lá leiðin fyrir Sunnnes og inn Sunndal. Þar stoppuðum við aðeins til að undirbúa okkur andlega fyrir síðustu brekkuna upp í móti í ferðinni. Þar rákumst við á hafmeyju…eða öllu heldur áarkarl. Eða hvað getum við eiginlega kallað þetta.

Svo héldum við upp þessa blessuðu brekku, upp Neðrafell í gegnum Litladal og að vegamótunum í Þverdalsskarði, við Isufell. Þar með lauk allri hækkun í ferðinni. Jibííí! Það teygðist aðeins úr hópnum upp þessa leið þannig að það var töluverð bið hjá þeim fyrstu eftir þeim síðustu. Þó fóru sumir fljótlega niður í Flókalund en þeir sem voru að taka mest af myndum biðu eftir því að allir væru komnir og tóku síðan myndir af þeim við Bíldudalsskiltið.

Eftir það var brunað af stað niður brekkuna í Penningsdal og niður í Flókalund, með viðkomu hjá karlinum hjá brúnni yfir Pennu. Það var mun auðveldara og skemmtilegra , að fara niður núna, heldur en þegar við fórum upp þessa brekku í fyrrnefndri ferð 2009. Þegar í Flókalund var komið var drifið í að koma upp tjöldum. Ein daman tók sig til og bakaði pönnukökur og aðrir báru ýmislegt annað góðgæti á borð fyrir síðdegishressingu.

Að áti loknu var farið í sundlaugina hjá sumarbústöðunum við Flókalund. Þar slökuðum við vel á. Svo var kvöldverður snæddur og að því loknu fóru nokkur og röltu um svæðið, m.a. að „náttúru” lauginni, en fóru ekki í hana. Það er búið að gera heilmikið á því svæði, betrumbæta stíga og gera búningsaðstöðu, ef  hægt er að kalla það því nafni en jú, það er alveg hægt. Svo var farið að sofa. Við hjóluðum um 47 km á rúmum sex og hálfum tíma. Veður var með besta móti þennan dag. Eiginlega var þetta besti dagurinn í ferðinni hvað það varðar.

Þá var komið að heimferðardegi. Nokkur ætluð að ferðast áfram á svæðinu og  þar af leiðandi ekki að fara með skipinu til baka. Það var því kveðjustund á tjaldstæðinu í Flókalundi. Við sem ætluðum með ferjunni  hjóluðum í Brjánslæk, um 7 km leið.

Sólin skein þegar við sigldum frá Brjánslæk, en fljótlega lagðist þoka yfir Breiðafjörðinn. Sjórinn var nánast sléttur þannig að siglingin var þægileg. Það er alltaf gaman að fylgjast með dýralífinu á svona siglingum. Það sáust t.d. tveir höfrungar stinga sér upp úr sjónum, allskyns fuglar og meira að segja sást skúmur ráðast á silfurmáv. Þegar við sigldum inn í höfnina í Stykkishólmi var mikið líf í kríunni þar. Auðsjáanlega var mikið æti því þær stungu sér hvað eftir annað í sjóinn til að ná sér í eitthvað í gogginn. Þetta var fín ferð, þó að veðrið hafi sett svolítið strik í reikninginn; fólk var eiginlega með brekku- og rokfælni eftir ferðina og auk þess var ekkert sérlega hlýtt. Hitastigið fór varla yfir  8° C, nema kannski síðasta daginn.

En þetta var skemmtileg ferð, alla vega eftir á. Hópurinn var góður, enda fólk orðið nokkuð ferðavant hverju öðru.

Hér er aðeins notað brot af myndunum úr ferðinni. Skoðið myndirnar úr ferðinni á Flickr síðu Grétars:
https://www.flickr.com/photos/gretarwilliam/sets/72157637636961113/

Birtist fyrst í Hjólhestinum 1 tlb. 23. árg. 2014