Sumarið 2012 bættust nokkrar konur í hópinn og Snæfellsneshringurinn var hjólaður. Fríða tók ákvörðun um að prufa að hjóla hluta Snæfellsnesshringsins og fékk lánað tvímenningshjól hjá Blindrafélaginu. Það gekk mjög vel og í kjölfarið var hún hvött til þess að eyða hluta af söfnunarfénu til að kaupa sér nýtt tvímenningshjól. Nú er svo komið að Brellurnar eru búnar að panta sér ferð til Sardiníu á Ítalíu í október 2013 og munu hjóla þar í 10 daga. Sú ferðasaga verður skrifuð niður og mynduð til varðveislu og birtingar fyrir þá sem gætu haft gaman af.

Við verðum a.m.k. sex konur og fimm hjól sem förum því Fríða ætlar með tvímenningshjólið.


Ferðasaga Brellnanna um Vestfirði sumarið 2011

 

Leiðin um Vestfirði

 


Fyrsti dagurinn var erfiður en skemmtilegur

Brellurnar: Skrifað þann 6. júní 2011 kl. 01:0

Jæja, þá er fyrsta dagleiðin á enda. Við hjóluðum frá Patreksfirði í Flókalund með mótvind allan tímann. Á Barðaströndinni var algjörlega brjálað rok. Tvær okkar fuku um koll  en sem betur fer urðu aðeins lítilsháttar meiðsli. Við vonum að hún Björg verði ekki mjög marin á morgun. Nýi fíni jakkinn hennar rifnaði aðeins. Hún slapp þó ótrúlega vel miðað við þessa miklu byltu og einnig slapp Sædís betur en á horfðist. Hún fauk af hjólinu ofan á Björgu en náði að lenda betur. Það kom svaka hviða sem hreinlega feykti þeim um koll og okkur öllum næstum því. Við áttum ekki von á þessu veðri! Það var ekki stætt á hjólunum á köflum.

Þetta var samt rosa gaman og rúmlega 61 km að baki :-) Það keyrðu ansi margir fram hjá okkur og við fengum þvílíkt vink og flaut og kveðjur. Það var okkur mikil hvatning.

Við komum ekki í Flókalund fyrr en um kl. 8:30 og höfðum þá skilið hjólin eftir á Seftjörn. Þar var heimilisfólk algjörlega frábært eins og við mátti búast af þeim og lánuðu okkur tvo bíla í Flókalund til að við gætum fengið  okkur að borða. Við þökkum þeim kærlega fyrir liðlegheitin.

Síðan komum við í Flókalund, borðuðum dýrindis máltíð en þegar við ætluðum   að borga þá barasta þurftum við ekki að borga! Þvílíkt og slíkt sem fólk er frábært. Hvernig á að þakka öll þessi liðlegheit? Við erum búnar að vera klökkar margoft í dag, fyrst þegar við vorum að fara að leggja af stað og Ásthildur bæjarstýran okkar hélt þessa líka fallegu ræðu og síðan þegar við fengum þessar frábæru móttökur á Seftjörn og í Flókalundi! Við fáum fría gistingu líka og við erum alveg rosa þakklátar fyrir það  :-).

Skjöldur og Kiddi (makar Maju og Sammýjar) komu með bílinn sem Dabba og Einar lána okkur í ferðina. Á miðri leið fengum við upphringingu þar sem okkur var tjáð að við þyrftum ekki að borga olíu á bílinn alla leið, Einar og Dabba ætla að styrkja okkur með því að lána okkur bílinn OG bera kostnað af olíu á hann! ÓTRÚLEGA FLOTT! Aftur tími til að klökkna af þakklæti.

Eftir góðan mat og mikinn hlátur keyrðum við aftur á Seftjörn og náðum í hjólin. Það hafði lægt aðeins og við vorum snöggar í Flókalund.

Nú er meirihluti Brellnanna í heita pottinum í Flókalundi en sú sem hér situr og skrifar kemst ekki vegna brunasára sem hún hlaut fyrir hálfum mánuði :-(

Meira á morgun.

Með þakklæti og virðingu til ykkar allra kveðjum við og segjum góða nótt.

Brellurnar

brellurnar

 

Dagur tvö : Allir suðurfirðirnir hjólaðir í dag

Brellurnar: Skrifað þann 7. júní 2011 kl. 00:19

Vöknuðum kátar og hressar í Flókalundi kl. 7:15. Pökkuðum niður dótinu og fengum okkur góðan morgunmat.

Sem betur fer kom í ljós að eina meiðsli gærdagsins var tognun í litla puttanum hennar Bjargar. Við trúum því varla hvað hún slapp vel eftir þessa svakalegu byltu.

Lögðum af stað frá Flókalundi kl. 8:30 og hjóluðum sem leið lá í Fjarðarhorn. Rokið var miklu minna en í gær en þó var ansi hvasst í fjörðunum og mótvindur inn firðina en lens út firðina...það var gott.

Komum í Fjarðarhorn um 14:30. Mikið svakalega var gaman að hjóla niður Klettshálsinn. Brunuðum eins og enginn væri morgundagurinn. Í Fjarðarhorni beið okkar kaffi og smurt brauð sem hún Sædís okkar litla, sæta var búin að útbúa fyrir okkur.

Förinni var haldið áfram kl. 15:30. Við fengum vind í bakið út Kollafjörðinn og það gerði okkur lífið auðvelt.

Við enduðum í Bjarkalundi kl. 20:30 þar sem við borðuðum yndislega máltíð. Kolla og Oddur tóku á móti okkur og hvað haldið þið? Við fengum þrjú hús til að gista í, uppbúin rúm og handklæði. Við erum í skýjunum!!!!

Á leiðinni fengum við upphringingu eins og í gær og í þessu símtali var okkur boðið að hver og ein okkar yrði nudduð af hinni elskulegu Sollu Magg vinkonu okkar. Ja, hérna hér, þetta er nú ekki einleikið. Við þáðum það auðvitað og nú liggjum við í einu húsinu að borða nammi og drekka malt og ein og ein er tekin í nudd. Á meðan skrifum við hinar þetta hér og finnst við ótrúlega fyndnar og skemmtilegar en það er líklega vegna þess að við erum svo þreyttar og það er kominn svefngalsi í kellur.

Við fórum sem sagt alla suðurfirðina í dag og þrjár heiðar/hálsa. Þetta voru samtals 129,45 km. Vá hvað við erum ánægðar með það! Við bjuggumst ekkert endilega við að komast alla þessa leið í dag.

Meira á morgun.

Með þakklæti og virðingu til ykkar allra kveðjum við og segjum góða nótt

Brellurnar

brellurnar

 

Dagur þrjú: Bjarkalundur - Ísafjörður

Brellurnar: Skrifað þann 8. júní 2011 kl. 01:41

Vöknuðum í sól og blíðu í Bjarkalundi og gengum frá, fórum yfir hjólin og fengum okkur morgunmat hjá Kollu í Bjarkalundi. Það er skemmst frá því að segja að velvildin heldur áfram. Við þurftum ekki að borga krónu fyrir allt uppihaldið í Bjarkalundi. Við urðum enn og aftur orðlausar og fórum að gráta (samt aðeins í laumi). Oddur og Árni, vertar í Bjarkalundi, voru einnig svo frábærir að keyra bílinn fyrir okkur á Hólmavík þannig að við vorum allar sex að hjóla.

Þá var ferðinni heitið á Hólmavík. Þröskuldarnir voru ,,pís of pæ" Sólin skein, okkur var heitt og við vorum í svaka stuði. En þegar Sammý vaknaði hafði hún fundið til í hnénu og það ágerðist eftir því sem leið á Arnkötludalinn. Æ, æ við hringdum í lækni sem var á Hólmavík en hann vildi ekkert við hana tala og sendi hjúkrunarfræðing á stofuna til að sinna henni. Hún sinnti henni mjög vel og lét hana fá góðar töflur og vafði á henni hnéð og sagði að hún mætti ekki hjóla meira þann daginn. Sammý keyrði því bílinn það sem eftir lifði dags. Hún þurfti ekkert að borga fyrir þá þjónustu sem heilsugæslan veitti henni, alveg hreint frábært!

Steingrímsfjarðarheiðin var LÖNG OG KÖLD, úff! Við stoppuðum einu sinni uppi á heiðinni og fórum inn í bíl. Við hefðum ekki haft það af að stoppa án þess að hafa íverustað, það var svo kalt. Það gekk vel niður þó að það hafi verið mikill mótvindur og hliðarvindur á köflum.

Við tókum hjólin upp á bílinn í Ísafirði sem er fyrsti fjörðurinn eftir Steingrímsfjarðarheiðina. Við hjóluðum til kl. 20:00 og höfðum þá hjólað 104 km.

Í Heydal var okkur tekið sem drottningum. Við komum inn í þennan líka flotta matsal sem er gömul uppgerð hlaða og fengum æðislegan mat og frábæra þjónustu. Þegar að því kom að gera upp, hvað haldið þið? Við þurftum ekki að borga eina einustu krónu, fengum bæði mat og gistingu fría alveg eins og í Bjarkalundi og Flókalundi. Vá, hvað fólk er frábært.

Í Heydal fengum við líka góða gesti. Börnin hennar Maju, Helga Sara vinkona Svanhvítar Sjafnar og Leif Halldór Arason mættu á svæðið og slógu í gegn með svaka flottu söngatriði sem þau höfðu mallað saman í bílnum á leiðinni frá Patreksfirði. Textinn er hér fyrir neðan og við hlógum og grétum þegar þau fluttu þetta fyrir okkur, dauðþreyttu konurnar.

Á morgun setjum við stefnuna á Súðavík en það er ansi langt og við sjáum bara til hvernig veðrið verður.

Meira á morgun

Með þakklæti og virðingu til ykkar allra kveðjum við og segjum góða nótt

Brellurnar

brellurnar

 

Textinn góði:

(Við lagið Ríðum, ríðum, ríðum yfir sandinn)

Hjólum, hjólum, hjólum fyrir Fríðu.

Allan stóra Vestfjarðahringinn

Þó að í rassinn okkur öllum svíði

höldum áfram fjörðinn út og inn

Dóra, Maja, Ella Stína og Sæja

Salóme og Björg Sæm rokka big tæm

Dóra, Maja, Ella Stína og Sæja

Salóme og Björg Sæm rokka big tæm

Svitnum, svitnum kílóin af rjúka

berjumst áfram lítið er um logn

við léttar erum svo auðvelt er að fjúka

út í kant og fá litlaputtatogn

Dóra, Maja, Ella Stína og Sæja

Salóme og Björg Sæm rokka big tæm

Dóra, Maja, Ella Stína og Sæja

Salóme og Björg Sæm rokka big tæm

(Við lagið sem Helgi Björns Reiðmenn vindanna syngja og spila

Ríðum og ríðum og rekum yfir sandinn, ríðum sem fjandinn)

Hjólum og hjólum og hjólum yfir heiðar

seint verðum leiðar, færðir ei greiðar

við borðum brauðsneiðar

Hjólum og hjólum og hjólum yfir heiðar

seint verðum leiðar, færðir ei greiðar

við borðum brauðsneiðar

Komum hérna gellurnar

niður Mikladalinn, Brellurnar

lúnar heilasellurnar

við erum drulluþreyttar nú

(Daginn eftir)

Við mætum á barinn með kúlurassinn marinn

öll þreytan er farin.

Stoltið uppmálað, nú verður sko skálað

Skálum og skálum og rauðan bæinn málum

Drykkjunum kálum, vart út komum orðum

við dönsum á borðum

Komum hérna gellurnar, á barinn núna Brellurnar!

Fullar heilasellurnar

Við hjólum öskufullar heim!

brellurnar


Dagur fjögur – Ísafjörður – Hestfjörður 115 km að baki í dag

Brellurnar: Skrifað þann 9. júní 2011 kl. 01:05

Vöknuðum kl. 8:00 í kulda og trekki (úti, ekki inni) og elduðum hafragraut, átum hann í hasti og skelltum upp í okkur nokkrum rúsínum á eftir.

Keyrðum þá til baka í Ísafjörð og það tók um það bil 50 mín. Klukkan var að verða hálf ellefu þegar við lögðum af stað. Við fengum æðislegan vind í bakið inn Ísafjörð en jafnmikinn mótvind út hann aftur. Þetta jafnast sem betur fer allt út.

Við vorum komnar í Reykjanes um kl. 13:00 og þar kvöddum við krakkana sem höfðu gist með okkur nóttina áður. Við verðum líka að koma því að sem við gleymdum í blogginu í gær að við fengum æðislegt nudd hjá krökkunum. Pálmi Snær, Svanhvít Sjöfn og Guðný Gígja nudduðu á okkur axlirnar við mikinn fögnuð Leifs Halldórs sem tók þetta allt upp á myndband. Fullt af kellingum með berar axlir, stynjandi af unaði.

Þegar við vorum búnar að borða í Reykjanesi var ferðinni haldið áfram. Maja tók bílinn í þetta skipti af því að hún var komin með nýja blöðru í nárann (ekki vegna þess að hún hellti yfir sig sjóðandi vatni, það væri erfitt að koma því við þarna). Nuddsár sem sagt. Hinir hjólagarparnir hjóluðu sem leið lá í Ögur og þar var sko tekið vel á móti okkur! Við bæjarskiltið var komið nýtt skilti sem á stóð;

BRELLURNAR kaffi ˃

Við fengum kaffi og meðlæti að hætti Maju í Ögri sem var framreitt af syni hennar Halldóri Halldórssyni. Hann var einstaklega gestrisinn og skemmtilegur, sagði okkur sögur úr sveitinni og pantaði fyrir okkur mat í Tjöruhúsinu. Við erum sko ákveðnar í að koma í Ögur aftur, helst að fara á Ögurball og  fara í göngu á söguslóðir með fólkinu frá Ögri. Við þökkum þessu heiðursfólki kærlega fyrir velgjörðirnar.

Síðan hjóluðum við í Hestfjörð nánast án þess að stoppa. Þetta gekk með ólíkindum vel miðað við mótvindinn sem við fengum út firðina. 115 km takk fyrir, takk!

Við erum alltaf að sjá það betur og betur að Vestfirðirnir eru fallegasti staður á jarðríki! Náttúran sem við fáum beint í æð þegar við hjólum svona úti er svo ótrúlega fjölbreytt og falleg. Fuglalífið er dýrðlegt, litlu lömbin hoppa og skoppa í kringum okkur og mömmur þeirra jarma á þau; ,,passið ykkur á þessum gulu hættum!“. Við erum búnar að sjá fullt af litlum folöldum, seli, tófu, fálka og uglu og bíðum bara eftir því að sjá glitta í ísbjörn!

Við þurftum síðan að keyra á Ísafjörð til að fá okkur að borða á Tjöruhúsinu, við vorum alltaf ákveðnar í að þar yrðum við að borða. Maturinn klikkaði ekki þar, frekar en fyrri daginn. Æðislegur steinbítur og ekki síðri koli, jömmí, jömmí. Við fengum líka frábæra sjávarréttasúpu í forrétt. Við borðuðum MJÖG vel eins og við höfum gert í allri ferðinni og það er svo gott þegar maður er búin að borða fisk að maður er samt svo vel saddur, ekkert þungur á sér. Við vorum meira að segja að pæla í því á leiðinni á Kirkjuból í Bjarnarfirði að hjóla bara hluta af leiðinni : -) en hættum nú við það. Þegar við ætluðum að gera upp matinn þá var okkur enn og aftur tjáð að hann væri í boði hússins. Aftur urðum við orðlausar og klökkar.

Á Kirkjubóli tók hún Fríða Matt aldeilis vel á móti okkur, uppábúin rúm, handklæði, góð sturta og alles.

En það var ekki nóg með það.......kallarnir okkur höfðu ákveðið að koma okkur á óvart á Kirkjubóli. Hver haldið þið að hafi líka tekið á móti okkur? En ekki hún Kristín Brynja okkar nuddari! Við fengum allar æðislegt nudd. Takk elsku kallarnir okkar, við erum svo ánægðar með þetta og takk elsku Kristín Brynja fyrir frábært nudd.

Á morgun er stefnan sett á Þingeyri, þar ætlum við svo að fara í sund og heitan pott.

Nú erum við að bíða eftir því að Kristín Brynja klári að nudda síðustu gelluna. Á meðan sitjum við hinar með sjúkratöskuna góðu sem Magga Brynjólfs sjúkraþjálfari var svo góð að lána okkur, berum á okkur alls konar krem úr henni og jurtakremið frá Rannveigu! Mikið er nú fólk búið að stjana við okkur, takk fyrir Magga og Rannveig.

Meira á morgun

Með þakklæti og virðingu til ykkar allra kveðjum við og segjum góða nótt

Brellurnar

brellurnar

 

Dagur fimm - Hestfjörður - Þingeyri

Brellurnar: Skrifað þann 10. júní 2011 kl. 00:12

Við vöknuðum rétt fyrir kl. 8:00 við ilmandi brauðbaksturslykt og hlupum fram í morgunmat við vorum svo spenntar. Fríða Matt var búin að standa við bakstur frá því snemma um morguninn, þessi elska. Mmmmmmm, þetta var svo góður morgunmatur.

Síðan kvöddum við Fríðu (Gummi sást aðeins í mýflugumynd í gærkvöldi, þannig að við vorum búnar að þakka honum fyrir :-)) með virktum og tárum því að hún og Gummi höfðu ákveðið að styrkja verkefnið með því að gefa okkur gistinguna og matinn. Mikið svakalega er Kirkjuból skemmtilegur staður og smekklegur. Við vorum voða hrifnar og ætlum hér með að láta alla sem eiga leið þarna um og vilja gista á þessu svæði vita að það borgar sig að kíkja á Kirkjuból!

Aftur þurftum við að keyra til baka (klikkuðum aðeins á svoleiðis smáatriðum í planinu) og það tók okkur u.þ.b. 50 mín að keyra í Hestfjörð.

Kuldinn! Alveg hreint að drepa okkur. Við klæddum okkur í utanyfirbuxur sem gerði það að verkum að við vorum aðeins stirðari á hjólunum, sumar okkar voru í allt of þröngum utanyfirbuxum. Okkur var nefnilega sagt að við myndum grennast alveg ROSALEGA í þessari ferð en það hefur bara ekki gerst :-) Líklega vegna þess að við fáum alls staðar svo góðan mat að við borðum alltaf eins og svín ;-)

Við verðum að hæla bílstjórum sem við höfum mætt á bílum. Langflestir víkja voða vel og hægja á sér en sérstaklega verðum við að nefna bílstjórann sem var á bílnum sem merktur var Jón H. Hann var að flytja Búkollu (stóran, stóran vörubíl) og hann barasta stoppaði til að hleypa okkur gellunum framhjá og svo brosti hann svo sætt til okkar og veifaði. Húrra fyrir Jóni því það verður að segjast eins og er að bílstjórar stóru flutningabílanna mættu mjög oft víkja betur og hægja á sér því að við hristumst allar og skjálfum ef þeir fara á mikilli ferð framhjá okkur. Það liggur við að jakkarnir okkar fjúki upp að herðablöðum og sólgleraugun af okkur.

Um kl. 13:00 vorum við komnar til Súðavíkur. Sædís hafði fengið upphringingu þar sem pabbi hennar tjáði henni að hann vildi bjóða okkur í mat í hádeginu og hann (folinn eins og Sædís orðaði það svo skemmtilega) leyfði okkur meira að segja að velja hvað yrði í matinn. Hvað varð fyrir valinu? Hvað haldið þið? Við ætlum að leyfa ykkur að geta! Það byrjar á Kjöt. Við borðuðum á okkur gat. Takk, takk, Eiríkur foli!

Óskar Elíasson eldaði og við borðuðum þennan góða mat á Jóni Indíafara :-)

Fengum alveg hrikalegt rok út Súðavíkurhlíðina og brunagadd frá hafinu. Við vorum að spá í að fá lögreglufylgd í gegnum Arnarneshamarinn en okkur tókst að rata í gegnum hann án fylgdar.

Við vorum komnar að göngunum í gegnum Breiðadalsheiði um kl. 16:00. Það var ekkert smá gaman að hjóla í gegnum þau göng. Við vorum svo heppnar að það var lítil umferð. Við kveiktum að sjálfsögðu á flottu, nýju ljósunum okkar sem við gátum stillt á blikk og öskruðum Brelluópið stanslaust á leiðinni. Það bergmálaði svo skemmtilega.

Þegar við komum út úr göngunum var komin snjókoma!

Við komum við á Kirkjubóli hjá henni Fríðu og bjuggumst við að fá heitt kaffi eins og talað hafði verið um um morguninn en blessunin var búin að standa við og baka fyrir okkur þannig að við vorum vel kýldar þegar við lögðum í Gemlufallsheiðina. Hún var frekar þung á fótinn en þó léttari en við höfðum gert ráð fyrir. Það snjóaði á okkur nánast allan tímann sem við vorum á heiðinni.

Dýrafjörðurinn var skemmtilegur en hnén á tveimur okkar voru að verða ansi aum þegar við nálguðumst Þingeyri. Þetta hafðist þó allt og við tékkuðum okkur inn á Hótel Sandafell þar sem tekið var á móti okkur með uppábúnum rúmum og vingjarnlegu fasi.

Þá var komið að því sem við höfðum lengi beðið eftir, heitur pottur og sund á Þingeyri. Það var algjörlega frábært að dýfa sér í heita pottinn, liggja þar og spjalla og hlægja. Við fórum líka í sundlaugina, kældum okkur og hituðum til skiptis til að lina verki í aumum vöðvum.

Þegar við komum á hótelið beið okkar dýrindis máltíð. Fjórar höfðu pantað sér steiktan þorsk og tvær parmaskinkusalat. Rosa, rosa gott!

Meira á morgun

Með þakklæti og virðingu til ykkar allra kveðjum við og segjum góða nótt

Brellurnar

 DSCF5239.JPG

DSCF5254.JPG


Dagur sex – Þingeyri – Flókalundur

Brellurnar: Skrifað þann 11. júní 2011 kl. 00:14 •

Við vöknuðum kl. 8:00 og litum út um gluggann og sáum að það var snjór niður í miðjar hlíðar í fjöllunum í kring. Uss, uss, uss, það er ekki hægt að segja annað en að við fundum nú smá kvíðahroll hríslast niður um bakið. Við röðuðum draslinu á bílinn sem er algjörlega búinn að bjarga þessari ferð. Ferðin hefði aldrei gengið svona vel ef ekki hefði verið fyrir þennan frábæra bíl. Hann smell passar undir okkur og gerði það að verkum að við þurftum ekki að fá fullt af bílum og bílstjórum til að ferja okkur fram og til baka. Við fengum frábæran morgunmat á Hótel Sandafelli, nýbakaðar bollur og fleira gotterí! Hótel Sandafell er svakalega huggulegt nýtt hótel á Þingeyri og hún Jóna tók alveg rosalega vel á móti okkur. Við þurftum bara að borga annað herbergið.

Við lögðum af stað kl. 10:20 þegar við vorum búnar að yfirfara hjólin og klæða okkur extra vel af því að það var svo kalt. Við gengum nú bara upp Sandafellið til að hita okkur upp fyrir Hrafnseyrarheiðina. Við vorum pínu stirðar en hefðum líklega verið enn stirðari ef við hefðum ekki farið í þennan frábæra heita pott á Þingeyri kvöldinu áður.

Þá var komið að Hrafnseyrarheiðinni sem okkur hafði nú kviðið örlítið fyrir að fara. En, „pís of pæ“ við rúlluðum henni upp. Gengum bara brattasta hlutann en hjóluðum rest. Við vorum ekki nema einn og hálfan tíma að fara hana. En mikið djö... var kalt þarna uppi. Snjókoma og krap á veginum. Þegar við komum niður af henni vorum við svo stirðar í framan að brosið var fast á okkur í svona korter. Andlitið mýktist svo töluvert upp þegar við fengum heitt kakó og flatkökur með hangikjöti og fullt af smjöri hjá henni Sædísi okkar litlu, sætu. Hún sat í bílnum fyrir neðan heiðina og tók á móti okkur með þessu góðgæti. Algjört æði.

Það var hvasst í Arnarfirðinum, verið að hefla og laga vegina fyrir allt fyrirfólkið sem ætlaði að koma í afmælisveislu á Hrafnseyri 17. júní. Mikið vildum við að það væri svona stórafmæli á hverju ári! Þá væru vegirnir kannski bara malbikaðir. En það var ekki gott að hjóla svona nýheflaða vegi. Við vorum orðnar ansi lúnar í handleggjunum eftir hristinginn.

Næsta stopp var við Dynjanda. Þar tók Sammý fullt af myndum. Hún er orðin sérfræðingur í að stilla myndavélinni upp. Hún leggst á jörðina og finnur út hvar og hvort við séum allar á myndinni og svo fær hún 10 sek. til að hlaupa af stað svo hún sé með á myndinni. Nokkrum sinnum hefur hún reykspólað svo rosalega að myndin var eins og úr fókus.

Þá var það Dynjandisheiðin (við verðum að segja ykkur það, þó það sé ekki fallegt að í þessari ferð var hún kölluð helvítisheiðin). Hún var eiginlega hálfgert helvíti. Svakalega löng og alltaf þegar við héldum að nú væru brekkurnar á enda kom ný brekka. Við stoppuðum á miðri heiðinni til að fara upp í bílinn til að hita okkur og þá beið okkar óvæntur glaðningur. Birna Hannesar og Ásgeir Sveins höfðu komið við hjá Sædísi í bílnum og fært hverri og einni orkudrykk og heimabökuð möffins! Takk, elsku þið. Þetta var kærkomið og gaf okkur fullt af orku.

Það var skítakuldi og við þurftum að byrja að labba með hjólin svona þremur kílómetrum áður en við komum að Bíldudalsafleggjaranum af því að rokið var þvílíkt! Hjólin voru á lofti og það er ekki lygi. Þau tókust á loft 90° og við héngum í þeim til að þau myndu ekki fjúka út í buskann! Við löbbuðum með þau u.þ.b. 5 km. Þetta tafði okkur auðvitað svolítið.

Niðurleiðin var aðeins auðveldari en samt ekki svo því að það var svakalegt rok í Pennudalnum líka og mikil lausamöl.

En mikið ofsalega var gott að koma í Flókalund. Okkur fannst við eiginlega komnar heim. Við vorum líka búnar að loka hringnum og fengum okkur einn bjór til að halda upp á það! (Sko, einn bjór saman....sjensinn ;-)) Við fengum æðislegan mat og við mælum sérstaklega með saltfisknum, hann var algjört æði! Við áttum ekki orð þegar okkur var boðið upp á þennan góða mat, þvílíkt örlæti! Allar þessar velgjörðir fólks gera það að verkum að það er þó nokkuð eftir af þeim peningum sem við fengum í styrk til ferðarinnar og það sem verður eftir fer auðvitað inn á söfnunarreikninginn.

Þá var farið upp í bústað. Við fengum bústað hér í orlofsbyggðinni í Flókalundi og pössuðum akkúrat inn í hann. Sigga Maja einn af umsjónarmönnunum hér hleypti okkur svo í heita pottinn þó að það væri búið að loka.

Núna er voðalega notalegt hjá okkur, við sitjum og hlustum á rólega tónlist, borðum nammi og borðum nammi ;-)

Við erum orðnar svo spenntar að koma heim að við efumst um að við getum nokkuð sofið í nótt, en við ætlum auðvitað að reyna.

Meira á morgun

Með þakklæti og virðingu til ykkar allra kveðjum við og segjum góða nótt

Brellurnar

brellurnar

brellurnar


Síðasti dagurinn var votur og meyr

Brellurnar: Skrifað þann 11. júní 2011 kl. 21:14

Vöknuðum eldhressar og til í slaginn. Fengum okkur æðislegan morgunmat í Flókalundi og gerðum okkur klárar fyrir síðast hjóladaginn. Við stelpurnar fórum vel yfir hjólin okkar svo það væri alveg hreinu að ekkert klikkaði svona síðasta spölinn. Veðrið var yndislegt og sól skein á heiði og við tilbúnar. Ákveðið var að enginn skyldi hjóla fram úr sér heldur duga daginn. Þá fengum við tilkynningu um að við mættum ekki flýta okkur um of heldur taka rólegheitin á þetta og ekki koma fyrr en eftir kl. 3. Auðvitað tókum við mark á því og dóluðum Barðaströndina bara svona á hægagangi enda ekki nema rétt rúmlega 60 km. leið að fara.

Þegar við hjóluðum fram hjá Flakkaranum kom hún Rósa hlaupandi út, klappaði fyrir okkur og vildi endilega bjóða okkur kaffi, þessi elska. Við vorum nýbúnar að drekka kaffi í Flókalundi þannig að við þáðum það ekki en mikið hlýnaði okkur um hjartarætur.

Í sól og sumaryl hjóluðum við í hægðum okkar og þegar við komum að Rauðsdal mættum við hjóladreng sem vildi leiðbeina okkur að Hvammi þar sem beið okkar ís og gleði frá heimilisfólkinu. Við gæddum okkur á ísnum í skemmtilegum félagsskap Ólu í Hvammi og strákanna Þorgils og Daníels. Þegar við höfðum tekið smá pásu lá leið okkar áfram enda ekkert mál því bara tvær heiðar voru eftir – Kleifaheiðin og Hlaðseyrarheiðin.

Í Krossholti þurftum við að pissa eins og svo oft áður í ferðinni. Við ákváðum að biðja um að fá að fara INN á klósettið í Birkimel, við vorum orðnar svo þreyttar á því að pissa úti. Silja og Doddi voru á fullu að undirbúa fermingarveislu en þau hleyptu okkur inn, dúllurnar.

Þá var komið að því að fara framhjá Múla. Það voru tuttugu manns sem stóðu á hlaðinu þar og klöppuðu og hvöttu okkur áfram. Við vorum alveg að missa það...sem sagt alveg að fara að grenja! Þórólfur Sveinsson myndaði okkur með Sveini á Múla og við vorum ekkert smá ánægðar með það.

Síðan dóluðum við áfram þangað til að við komum að Fossi. Við höfum alltaf stoppað þar, bæði þegar við vorum að æfa og í ferðinni. Skemmtilegt bæjarstæði með fullt af skemmtilegu dóti og fullt af skjóli! Sólin vermdi okkur og útsýnið var dásamlegt!

Kleifaheiðin var ,,pís of pæ“ en svakalega var heitt. Það er annaðhvort í ökkla eða eyra.

Þegar við vorum komnar á Raknadalshlíðina var tekið á móti okkur á pallbílnum okkar góða og myndataka var þá á fullu og fullt af fólki keyrði framhjá, flautaði og hvatti okkur áfram. Rétt áður en við komum að kirkjugarðinum kom sjúkrabíllinn. Hann snéri við og fór á undan okkur MEÐ SÍRENURNAR Á! Við vissum ekki hvernig við áttum að vera. Svo við kirkjugarðinn kom Goggi hlaupandi og klappaði á fullu, vá hvað þetta var gaman.

En þetta var sko aldeilis ekki búið! Við kirkjuna var fullt af krökkum á hjólum og við vorum aftur að missa það, við vorum komnar með ekka og vorum að spá í að snúa við til að jafna okkur. En við héldum áfram og hvað haldið þið.....nokkrum sólum var skotið upp! Þá vorum við nú algjörlega að fara yfir um. En þessu var ekki lokið, fallegur borði sem á stóð VELKOMNAR HEIM GELLUR, BRELLUR! Sæmundur og Hrafnhildur foreldrar Fríðu héldu á borðanum. Eruð þið ekki að grínast, fullt af fólki og við svoleiðis hágrenjandi!

Við getum ekki fullþakkað fyrir þessar frábæru móttökur.

Við endum daginn á að þakka öllum fyrir stuðninginn og frábærar móttökur! Fríða gella Sæm tók auðvitað á móti okkur og sagði nokkur falleg orð. Ásthildur sagði auðvitað nokkur falleg orð líka, mikið erum við ánægðar með þessa flottu konu.

Við munum seinna tiltaka alla sem hafa stutt við bakið á þessu verkefni en í kvöld látum við staðar numið og förum í Sjóræningjahúsið að fagna með fjölskyldu og vinum og auðvitað Fríðu og Matta.

SKÁL

Brellurnar

brellurnar

brellurnar