Var mjög gaman að sjá þennan fjölbreytta hóp og einnig voru hjólin mjög misjöfn en fólk komst ferða sinna þó að hjólin væru bara venjuleg fjallahjól en ekkert 200 þúsund króna dæmi. Við ákváðum að hafa trússbíl með til öryggis því margir voru að fara sína fyrstu ferð og ekki áttu allir töskur og bögglabera þó að það væru nú flestir með allt sitt á hjólinu.

Það var mígandi rigning svo að flestir voru orðnir blautir sem ekki voru með ekta regnfatnað en allir voru með jákvæða ferðaskapið og okkur því ekkert að vanbúnaði. Við höfðum haft samband við lögregluna sem veitti okkur fylgd frá Árbæjarsafni austur Rofabæinn og eftir Suðurlandavegi að Nesjavalla afleggjaranum þar sem stendur “Hafravatn”.

Var mikið öryggi í því þar sem þetta var á kosningadaginn og fólk að skreppa til Hveragerðis í ískaupin í Eden. Haldið þið ekki að það væri munur ef það væri hjólavegur meðfram Suðurlandsvegi og fólk gæti hjólað í ískaupin í Hveragerði og fengið smá hreyfingu í leiðinni því að þetta er skemmtileg leið og ekki rosa erfið. En nóg um draumaleiðir.

Það getur verið að fólk segi nú hvað er hún að kvarta, gátu þau ekki farið gamla veginn og hesta veginn þessa leið en svo gott var það nú ekki því ég athugaði þann möguleika og voru báðir þessir vegir mjög grófir og uppsparkaðir og því ekki leggjandi á börnin að hossast það í upphafi ferðar þó að við fullorðna fólkið hefðum kannski haft það af.

En höldum nú áfram með ferðina. Eftir að við komumst úr umferðinni sem er mjög þreytandi að hjóla í gekk ferðin greiðlega og þar sem alltaf ringdi var fólk ekkert að stoppa nema rétt til að fá sér vatnssopa og hvíla rassinn. Því má segja að við höfum verið örfljót upp að Henglinum þar sem langþráð kaffipása var tekin og fjögurra ára snáðinn á tengihjólinu, sem var farinn að hallast ískyggilega, var settur í bílinn þar sem hann steinsofnaði. Hin börnin sváfu bara í kerrunum sínum. Það nýttu sér líka margir að henda dótinu í bílinn upp Hengilinn því að nóg tóku nú brekkurnar í samt.

Eftir 2½ tíma frá Árbæjarsafni komu allir passlega þreyttir og vel blautir á Nesjavelli, því að það jók hressilega á rigninguna í Henglinum og ekki laust við að fólkið væri farið að hugsa hlýlega til heita pottsins sem svo reyndist vera tómur loksins þegar við komum á leiðarenda. Það var einkennileg tilviljun að einmitt á þessum tíma fór eitthvað rör í sundur og við sem vorum stödd á stað sem sér Reykvíkingum fyrir heita vatninu.

Við komum okkur því fyrir og mauluðum eitthvað þarna í svitafýlunni dágóða stund, þar til fór að renna í pottinn og við fórum bara út í og var hann þá fljótur að fyllast og mikið var það notaleg stund.

Við komum með tunnugrill með okkur á bílnum og hver var með sitt kjöt til að grilla. Við fengum sal til afnota og hafði bæst við hópinn því að nokkrir höfðu þurft að vinna og lögðu af stað seinna og einnig komu nokkrar eiginkonur með smábörn keyrandi að líta á karla sýna og vera með hópnum.

Tók nú við át mikið og svo var farið að líta á kosninga tölur. Einhverjir fóru í pottmaraþon og sumir höfðu ekki fengið nóg af hjólreiðum og tóku stuttar ferðir, voru þar á meðal annara fullorðin hjón sem voru að æfa sig fyrir Finnlandsferð á hjólum og fannst þetta ekki nógu erfið ferð svo að þau hjóluðu aðeins meira. Börnin fengu víðáttubrjálæði á göngunum svo að þið heyrið að allt var eins og það átti að vera.

Held ég að það hafi verið sællega þreyttur hópur sem lagðist til hvílu þetta kvöld en það voru allir í góðu ásigkomulagi morguninn eftir og fólk var að undrast að það voru engir strengir með í ferðinni að ráði, og er nú líklegt að heiti potturinn hafi haft sitt að segja í þeim efnum.

Á sunnudag var komið fínt veður en þónokkur mótvindur og eftir morgunverðinn var farið að teyma upp Hengilinn, nema þeir sem gátu hjólað alla leið. Finnlandsfararnir voru farnir því að þau áttu að sýna dans kl 2 á Ingólfstorgi og tóku því smá hjólatúr frá Nesjavöllum sem góða upphitun.

Enn bættist í hópinn því að 3 garpar ákváðu að koma á móti okkur og fylgja okkur í bæinn. Var fólk í misjafnlega góðu ásigkomulagi að fást við mótvindinn svo að það teygðist þónokkuð á hópnum en þeir bestu stoppuðu bara oft og biðu eftir okkur hinum svo að stoppin urðu talsvert fleiri en daginn áður, það gerði auðvitað ekkert til því að það var engin rigning.

Var allt fólkið í hóp svo að við fengum lögreglufylgd og ekki veitti af því að umferðin var gífuleg. Endaði ferðin formlega við Árbæjarsundlaug þar sem trússbíllinn var og bílstjórinn hafði brugðið sér í pottinn. Held ég að ég megi segja að ferðin hafi verið mjög skemmtileg í alla staði og ekkert kom uppá og engar bilanir urðu.

Get ég því hiklaust mælt með að fólk taki sig saman á vinnustöðum, vinahópar, saumaklúbbar eða fjölskyldan og hjóli á Nesjavelli, þar var aðstaðan mjög góð og herbergin nýuppgerð. Er hægt að kaupa mat á staðnum svo að ekki er nauðsynlegt fyrir fólk að burðast með mat. Má segja að eina vandamálið sé að fara eftir Suðurlandsveginum en þá er bara að fara varlega og vera í fötum sem sjást vel. Við förum svo í það að biðja um almennilegan hjólaveg þessa leið að Hafravatnsveginum.

Alda Jóns

 

Myndir úr ferðinni:

 

 

nesjav01.jpg

Hópurinn hittist við Árbæjarsafn  

 

nesjav02.jpg

 

 nesjav03.jpg

Rigningin er að sjálfsögðu ekkert vandamál ef maður klæðir sig rétt. 

 

nesjav04.jpg

Fyrsta brekkan

 

nesjav05.jpg

 Ólafur og Róbert báðir með Bob vagna undir farangurinn

 

nesjav06.jpg

Þegar hjólið er svona í laginu er ekkert um það að ræða að setja á það venjulega bögglabera. 

 

nesjav07.jpg

Björgvin er nýbúinn að eignast þetta tengihjól og lætur vel að því.
Svona tengihjól hafa ekki sést hér áður en eru bráðsniðug þegar börnin vaxa upp úr tengivögnunum.
Þessi ungi maður virðist ekki alveg búinn að læra á þetta ennþá. 

 

nesjav08.jpg

Komin af malbikinu á afleggjarann í Nesbúð

 

 nesjav09.jpg

Siggi Grétars með 18 mánaða dóttur sína

 

nesjav14.jpg

Hún virtist bara ánægð með ferðina, enda fer vel um hana í þessum vandaða vagni 

 

nesjav10.jpg
Nesbúð
 
nesjav12.jpg

 Gísli rakari sýnir yfirburði Gore-Tex gallanns, eða eru þeir bara að sprella?

 

nesjav13.jpg

Trússbíllinn okkar. Freyr sá um að ferja farangurinn á milli og tilbúinn að hjálpa ef eitthvað kæmi upp á. 

 

nesjav15.jpg

Því miður varð ég að bruna í bæinn strax aftur um kvöldið og hef því ekki myndir frá kvöldinu eða seinni deginum.

Myndir © Páll Guðjónsson