Jæja loksins var kominn 16. júní og ég alveg að verða ferðbúinn, en það var sífellt eitthvað að bætast við sem þurfti að taka með í þessa hjólaferð sem framundan var.
   Ég hlustaði einu sinni enn á veðurspána og ekki batnaði hún, það var spáð rigningu eða skúrum, kulda og vindi í metrum á sekúndu, ég var nú ekki alveg kominn með þetta metrakerfi á hreint svo það yrði bara að koma í ljós hversu hvasst 8-10 metrar væru.
   Það átti að vera trússbíll með í för þannig að ekki þurfti ég að brjóta tannburstann í tvennt og kreista helminginn af tannkreminu úr túbunni og þess háttar til að láta sem minnst fara fyrir farangrinum en ég reyndi samt að takmarka það sem ég ætlaði að taka með mér.
   Það var ekki fyrr en um kl. 22 sem að farastjórinn Björgvin, kom ásamt hópnum að sækja mig og var síðan brunað af stað út úr bænum, þó ekki lengra en að Select við Vesturlandsveg, þar voru ökutækin fyllt af eldsneyti og flestir birgðu sig upp að einhverju til að narta í á leiðinni sem lá í Stykkishólminn.
   Það var ekkert sem minnti mig á að það væri 17. júní í Stykkishólmi kl. 7 morguninn eftir, það var ekki fyrr en nokkru síðar þegar að starfsmenn á bensínstöðinni drógu upp íslenska fánann og regnský sáust í fjarska að maður áttaði sig á því hvaða dagur var.
   Við drifum okkur um borð í Baldur og í fyrstu stóðum við uppi á dekki í beikonbrælu sem barst upp úr eldhúsinu, það fuku nokkrir sjóveikisbrandarar og sumir áttu reyndar eftir að skila morgunmatnum í Breiðafjörðinn.
   Þegar við komum á Brjánslæk um hádegið var hrollur í mannskapn-um, það var skítakuldi og við flýttum okkur upp að söluskálanum við þjóðveginn, en þar var allt læst, það var greinilega ekki reiknað með mikilli 17. júní sölu á þeim bænum, við máttum þá hýrast í skjóli undir vegg við það að troða í okkur elds-neyti og klæða okkur í regnfötin og það klikkaði ekki að það byrjaði að rigna um leið og við lögðum af stað.
   Í fyrstu var hjólað rólega á móti vindi og regni, ég fór að hugsa hvað í ósköpunum ég væri að gera þarna vestur í ra_gati blautur og kaldur.  En fljótlega fór ég að hitna og vindinn lægði og leit þetta þá allt betur út, það er líka mjög gott að láta hugann reika á meðan maður hjólar og gónir á náttúruna.  Hópurinn var nokkuð jafn og við héldum hópinn nema fararstjórinn sem dróst nokkuð aftur úr, hann var eitthvað slappur eftir sjóferðina.
   Steini bílstjóri hafði ætlað að keyra eitthvað á undan okkur en leggja síðan bílnum og koma hjólandi á móti okkur, en þegar við mættum honum loksins á hjólinu þá stoppaði hann ekki, heldur hjólaði hann á fullri ferð til baka, það var ekki fyrr en að ég kom að trússbílnum okkar að ég skildi hvers vegna, hann hafði ætlað að leggja bílnum á slóða fyrir utan veg en ekki vildi betur til en að bíllinn sökk í drullu og haggaðist ekki,
   Steini hafði því hjólað til baka á næsta bæ til að reyna að fá aðstoð við að ná bílnum upp. Einhverjir komust inn í bílinn til að matast en ég fann mér skjól undir kletti og skellti í mig kæfusamloku þar sem kæfulagið var þykkara en brauð-sneiðin, Kleifaheiði var jú fram-undan og ég ætlaði ekki að verða orkulaus í henni miðri.
   Við vorum fjórir sem lögðum af stað á heiðina saman, malbikið var á enda og við tók rennblautur malarvegur en vindurinn var í bakið og gekk ferðin ágætlega upp. Það bætti sífellt í rigninguna og vindinn, og efst uppi var einnig komin þoka.
   Allt í einu var ég einn í þokunni og hafði ekki hugmynd um hvað það væri langt í að hin kæmu, þá hitti ég á Sigga og ákváðum við að það væri sennilega best að drífa sig niður af heiðinni og bíða þar eftir hópnum, við skelltum í efsta gír og brunuðum niður í Patreksfjörðinn.
   Þegar niður kom stoppuðum við, en vissum ekki nema að hinir í hópnum hefðu tafist við að losa bílinn og héldum því aftur af stað því það var napurt að standa þarna og bíða í rigningunni.
   Við vorum hvorugir með landakort né höfðum við farið þessa leið áður svo við vissum ekkert nema að dagleiðin var ca. 70 km. og ekki var sú tala komin á mælana hjá okkur, það var ekki fyrr en við komum að Hnjóti þar sem minjasafn Egils Ólafssonar er að við stoppuðum til að spyrja til vegar að næsta gististað.
   Til dyra kom ungur maður og það kom á hann stórt og mikið glott þegar hann sá okkur þarna rennblauta og skítuga á reiðhjólum og hafa ekki hugmynd um það hvert við værum að fara.
   Ég mundi ekki alveg nafnið á áætluðum gististað okkar en hélt það vera Örlygshöfn.  Hann kannaðist ekki við þann stað en vissi um gistingu í Breiðuvík.  Ég spurði hvort það væri langt þangað og glottið á honum varð enn stærra þegar hann benti okkur upp væna brekku fram-undan.
   Við ákváðum þess í stað að hjóla út með firðinum og athuga með gistingu í skólanum sem þar var og reyndist það vera rétti staðurinn.  Þegar við renndum þar í hlað var ekki nokkurn mann sjá en allt opið, næsta hús við var félagsheimilið og þar var allur mannskapurinn að halda upp á afmæli Vestur-íslendings sem átti ættir sínar að rekja í sveitina.
   Við fundum skólastýruna sem sá um gistinguna, og hún brosti líka þegar að hún sá útganginn á okkur.  Það var sjálfsagt mál fyrir okkur að fá gistingu í skólanum þó að ekki væri formlega búið að opna, og hún afsakaði sig ótal sinnum fyrir hve allt væri óklárt en við vorum hæst ánægðir með að komast inn og geta farið að skola úr fatnaðinum og komast í þurr föt.  Restin af hópnum kom rétt á eftir okkur og fylltust allir ofnar og snúrur fljótt af rennblautum fötum.
   Um kvöldið tók tilraunaeldhúsið til starfa þegar Björgvin mætti með pylsupastaalltmögulegtréttinn sem átti að innihalda öll nauðsynleg vítamín, og endurhæfingarefni sem hjólreiðamaður þarf til að takast á við næsta dag.  Þessi réttur hlaut nokkuð misjafna dóma hjá þeim sem að lögðu í að smakka.
   Eftirrétturinn var ekki slæmur kostur, kakó sem var aðeins kælt með Austurískum fjalladrykk og rjómaterta með sem að skólastýran færði okkur úr afmælisveislunni í félagsheimilinu.
   Morguninn eftir var enn þokusúld og ákváðum við því að nota bílinn til að fara út á Látrabjarg.  Það var gaman að koma þangað þó að skyggnið hefði mátt vera betra.
   Á bakaleiðinni skoðuðum við safnið að Hnjóti.  Steini bílstjóri ferjaði okkur síðan til baka inn í botn Patreksfjarðar með hjólin, þaðan sem við hjóluðum út á Patró.  Eftir tilheyrandi sjoppu stopp og rúnt um bæinn lögðum við á heiðina yfir á Tálknafjörð og lentum í svarta þoku þar uppi en niðurferðin var rosaleg, og takið nú eftir;  EKKI reyna þetta heima.  Hakan var lögð á stýrisstammann og afturendinn teygður aftur á bögglabera og síðan brunað niður í táraflóði (gleraugu gætu komið sér vel), þegar niður kom var lesið á hraðamælana og var mesti hraðinn vel yfir... Nei, ég held að ég sleppi því að segja það, þá fæ ég ekki fararleyfi hjá frúnni oftar.
   Við komum á Tálknafjörð um kl.22 og  fengum gistingu í skólanum sem er sambyggður sundlauginni.  Þar var okkur sagt að sundlaugin yrði opin lengur fyrir okkur og að það væri líka búið að hringja á matsölu-staðinn Hópið og biðja kokkinn þar að halda eldhúsinu heitu fyrir okkur, svona er nú gestrisnin fyrir westann.
   Þegar við biðum eftir matnum á Hópinu tókum við eftir því að þjónustustúlkan snaraðist allt í einu út í jeppa af stærstu gerð og brunaði burtu, hún kom þó fljótlega aftur með kvöldmatinn okkar í poka frá frystihúsinu, fiskurinn hafði klárast í eldhúsinu.
   Dagur þrjú, við höfðum ætlað okkur að hjóla í dag yfir á Bíldudal og þaðan út í Selárdal og síðan til baka á Bíldudal og gista þar, en það var freistandi að taka fyrri ferðina með Baldri daginn eftir, svo við ákváðum að fara á bílnum út í Selárdal og skoðuðum okkur um þar.  Síðan var haldið aftur yfir á Tálknafjörð og sest á hjólin um kl. 16.
   Ég hafði farið í þessa ferð á nýjum dekkjum sem Björgvin hafði rekist á í hjólabúð norður á Akureyri, þetta eru dekk sem voru uppseld í Reykjavík, en þau þykja mjög góð ferðadekk, belgmikil og sterk, en eftir að ég hafði bætt lofti í þau á Tálknafirði þá fór ég að taka eftir einhverju aukahljóði þegar að ég steig fast á sveifarnar, fyrst hélt ég að þetta væri bremsupúði að strjúkast við gjörðina en þegar að ég fór að athuga þetta betur kom í ljós að ystu kubbarnir í dekkinu voru farnir að éta sig inn í stellið á hjólinu.
   Ég ákvað að stoppa og skera úr dekkinu en hópurinn hélt áfram.  Ég kafaði í töskuna mína eftir dúkahníf en fann bara bitlausan vasahníf.  Ég hafði skilið mest af verkfærunum mínum eftir í bílnum.  Fljótlega kom þó Björgvin á bílnum og var ekki lengi að kantskera dekkið hjá mér, þá var næsta mál að ná aftur hópnum.
   Ég ákvað að hjóla í soginu á eftir bílnum, þetta gekk vel en ég mæli þó ekki með þessari aðferð við hjólreiðar því ég gat ekki séð holur í veginum með nægum fyrirvara til að forðast þær og rykið fyllti bæði augu og nef.
   Innst í Trostansfirði (í Arnarfirði) stoppuðum við hjá sundlaug sem stendur þar öllum opin.  Þar var matast og teygt á sér, framundan var Dynjandisheiði, það tók okkur um 1 tíma að puða upp að vegamótunum sem þar eru efst uppi.  Þar tókum myndir en það var farið að kvölda og orðið kalt þarna uppi svo við drifum okkur niður að Flókalundi þar sem við keyptum okkur gistingu í sumarhúsi sem stendur miðjavegu á milli Flókalundar og Brjánslækjar.
   Guðbjörg og Helga útbjuggu þar þessa líka fínu grillveislu með öllu tilheyrandi sem var kærkomið eftir langan dag, þetta endaði síðan með því að ég og Björgvin hrutum sem mest við máttum fram eftir nóttu.
   Daginn eftir sást blessuð sólin loksins enda vorum við á leiðinni heim, hún var nýtt til hins ýtrasta á leiðinni með Baldri yfir spegil- sléttan Breiðafjörðin.

   Ágætu ferðafélagar; Björgvin, Ragnar, Emmi, Áki, Óttar, Siggi, Steini, Guðbjörg og Helga, takk fyrir skemmtilega ferð.
   Jóhann Leós.

Hjólahesturinn 1. tbl. apríl 2000

© ÍFHK