barb.gif

 

NEW DELHI (AP) - Amerísk hjólreiðakona var étin lifandi í gær, um 300 kílómetra suðaustur af höfuðborg Indlands, af risastórum villtum apa.

Fréttir af láti mínu yrðu örugglega í fyrirsögnum allra helstu blaðanna heima í Bandaríkjunum. Vonandi myndi Larry segja rétt frá og gefa sögunni svip stórfenglegra hamfara í lýsingum á hryllilegu dauðastríði saklausrar hjólreiðakonu við apa, nógu stórum til að gleypa heila manneskju. Ef hann orðaði það rétt, myndi það hljóma sem ég hefði verið þarna, hjólandi innan um sveltandi mannfjöldann í vanþróðuðu landi uppfullu af eiturslöngum, tígrisdýrum og ræningjahópum, þegar skyndilega stekkur á mig villtur, hálfuppréttur mannapi úr fylgsni sínu uppí tré, eltir mig og drepur mig með ofsalegum krafti handa og tanna. Þar sem ég horfði á apann sveifla sér í átt til mín, bað ég þess að Larry myndi segja góða sögu; að hann myndi ekki segja sannleikann um það hvernig ég var um það bila að láta lífið.

Seinnipart nóvember 1979 vorum við þrjú saman að hjóla um Indland. Larry og ég hittum Geoff Thorpe, ljóshærðann, bláeygðan nýsjálending á tvítugsaldri á tjaldstæðinu í New Delhi nokkrum dögum eftir að við komum til Indlands. Geoff var líka á leið til Nepal svo við ákváðum að ferðast þrjú saman. Við kviðum öll svolítið að hjóla um svona undarlegt og framandi land. Daginn sem við héldum úr New Dehli stakk ég upp á að við fylgdum sveitavegum svo við gætum heimsótt litlu þorpin og sveitabýlin og forðast þunga umferð flutningabíla á þjóðveginum.

Við vorum fimm daga að þræða leiðina til bæjarins Mainpuri, 300km suðaustur af New Dehli og allstaðar hópaðist fólk að til að stara á okkur. Í Mainpuri drógum við að okkur stærri hóp en nokkurstaðar annarstaðar, trúlega af því að við vorum lengra frá aðal þjóðvegunum. Þegar við hjóluðum inn í Manipuri varð okkur strax ljóst að hún var ólík öðrum borgum Indlands sem við höfðum sótt heim.

Göturnar voru svo þröngar að bílar gátu ekki mæst og það voru engir bílar - aðeins fólk, reiðhjól, hjólavagnar, skellinöðrur og einstaka heilög kýr á flakki. Litlir básar með plássi fyrir einn eða tvo voru meðfram götunum. Í básunum voru verslanir sem seldu allt frá matvælum til vefnaðarvöru og skartgripa. Enginn í verslununum talaði ensku og fólk starði meira af undrun en forvitni. Í endanum fundum við þorpslækninn sem talaði ensku og leiddi okkur að eina gistihúsinu í Mainpuri.

Ég beið með Geoff úti á rykugri mykjudreifðri götunni meðan Larry fór inn með lækninum að fá herbergi. Þegar þarna var komið, eftir tvær vikur í þessu landi sem var yfirfullt af fólki með dökkt hörund, mjallhvítar tennur og starandi augu sem sífellt leituðu svara í andlitum okkar við þögulum spurningum (Hver vorum við? Af hverju vorum við þarna? Hvert vorum við að fara? Hvaðan komum við?), áttum við von á mannfjölda. En við áttum ekki von á því sem gerðist næst. Fréttirnar af komu okkar spurðust strax út, og hópar indverja flykktust að okkur um þröng húsasundin og skeyttu engu um hindranir. Framandi útlit okkar og 15 gíra gervihnattaaldar hjólin okkar og útbúnaður virtust vekja jafnmikla athygli og fljúgandi furðuhlutur. Geoff og ég stóðum með bök saman og héldum dauðahaldi í hjólin í troðningnum og reyndum að halda jafnvægi. Indverjarnir sem voru aftast reyndu að troðast fram til að sjá betur en þeir sem voru nær vörðu sínar stöður af krafti. Einhverjir menn reyndu að klifra upp á sölubásana til að ná betra útsýni en verslunareigendurnir potuðu þeim frá með löngum bambussprotum sem vanalega voru notaðir til að bægja frá heilögum kúm sem reyndu að stela mat.

Þar sem ég horfði framan í hafsjó af andlitum allt í kringum mig og hlustaði á hróp og köll bergmála í húsasundunum heyrði ég Geoff segja eitthvað fyrir aftan mig. "Eh, Ba- Barb" stamaði hann. "ég verð að komast." Við vorum bæði að kafna og næstum tilbúin til að klifra yfir múginn en það var ekki það sem Geoff átti við. "Barb, ég get ekki haldið í mér lengur," hvíslaði hann.

Hann hafði fengið blóðkreppusótt annað hvort í Íran eða Pakistan og eftir það gekk honum ekkert of vel að halda stjórn á hægðunum. Ég sá hann fyrir mér í huganum missa allt í brækurnar þarna fyrir framan nokkur hundruð grunlausra indverja, skellti upp úr og hló móðursýkislegum hlátri. Þeim mun meir sem ég hló varð múgurinn hljóðari og mennirnir tróðust enn framar til að sjá þetta undarlega fyrirbæri sem blasti við þeim - kona að hlægja.

Að sjá erlenda konu á reiðhjóli var trúlega einstæður atburður í lífi mannanna í Mainpuri, en að heyra slíka konu hlæja virtist heilla þá enn frekar. Það virtist sem indverjarnir hafi haldið að ég væri ekki mennsk, hvað þá fær um að tala eða hlæja.

"Við fengum herbergi" hrópaði Larry út um einn gluggann á annari hæð gistihússins. Orð hans stöðvuðu hláturinn í mér og léttu áhyggjum Geoffs og við ruddum okkur leið gegnum þvöguna milli okkar og gistihússins. Við ýttum til hliðar tugum manna í síðum hvítum kirtlum og víðum bómullarbuxum sem virtust hafa skotið rótum. Það þurfti að ýta hressilega við þeim til að þeir vöknuðu af transinum og viku fyrir okkur.

Þegar ég komst inn í gistihúsið og upp í herbergið lokaði ég gluggunum til að loka á hávaðann í múgnum fyrir utan. Gólfið, veggirnir og beddarnir fimm voru óhrein, - grútdrullug á amerískan mælikvarða. Rotta þvældist um gólfið og hvarf af og til út um rifuna milli gólfs og hurðar. Í eitt skiptið sem hún hvarf út greip ég tækifærið og tróð skítugum sokkum í gatið. Viftan í loftinu virkaði svo við settum hana á fullt og lyppuðumst niður í beddana. Við vildum njóta viftunnar því innan nokkurra stunda yrði allt rafmagn leitt út í sveitirnar fyrir áveitukerfin á sveitabæjunum. Það var von á þurrki þetta ár í Indlandi.

Eftir smá stund spurði ég Larry hvar klósettið væri. Hann fussaði og sveiaði og benti upp. Tveim hæðum ofar, uppi á þaki fann ég eina klósettið í gistihúsinu - fötu. Fyrst gat ég ekki hugsað mér að koma nálægt henni en eftir smástund tók ég mig á og kom mér fyrir á þessu hásæti undir beru loftinu og horfði yfir húsaþökin í nágrenninu. Fatan var hálf full og angaði.

Þegar ég sá dýrið fyrst, reyndi ég að telja mér trú um að það væri uppstoppað eða í ól. Ég neitaði að trúa því sem ég sá, sitjandi þarna á hækjum mér yfir fötunni. En ég neyddist til að horfast í augu við þá hryllilegu staðreynd að aðeins örfáum húsaþökum frá mér og fötunni minni var lifandi, ótjóðraður 120cm hár api að sveifla sér yfir húsasund og stökkva yfir húsaþök beint í áttina til mín. Svona enda ég þá þá lífið, husgsaði ég.

Alla tíð frá því að Larry og mér datt í hug að hjóla umhverfis jörðina hafði mig alltaf grunað innst inni að ég myndi ekki ráða við það. Apinn var kominn svo nálægt núna að ég var viss um að hann myndi grípa í mig áður en ég næði að forða mér af þakinu. Ég óskaði þess bara að hvorki Larry né Geoff myndu segja sannleikann um það sem var um það bil að gerast: að ég hefði orðið fyrir árás og verið drepin af apa þar sem ég var að hægða mér á húsþaki í Indlandi. Ég opnaði munninn og ætlaði að öskra en heyrði sjálfa mig hrópa "Niður! Komdu þér niður!".

Rökhugsunin hafði loksins náð yfirtökunum. Ég stökk á fætur og setti örugglega Indlandsmet í 50 metra hlaupi eftir þakinu og niður tröppurnar.

Ef allt þetta hefði gerst í upphafi ferðalagsins hefði ég örugglega gefist upp og haldið heim á leið strax þetta kvöld. En þarna höfðum við Larry verið á ferðinni í átján mánuði og lært að umbera og oftast njóta svona undarlegra og krefjandi aðstæðna. Þar sem ég sat á beddanum mínum þetta kvöld í Mainpuri hugsaði ég með mér, að þó að ferðalagið væri oft erfitt andlega og líkamlega, að eftir því sem Larry og ég hjóluðum lengur leituðum við erfiðari þrauta fyrir nýfundið úthald, styrk og getu til að standa á eigin fótum. Eins þreytt og ég var og eftir mig þetta kvöld í Indlandi var ég mjög ánægð að við lögðum í þetta ferðalag.

14. maí. 1978 lögðu Larry og Barbara Savage af stað hjólandi, eftir að hafa selt húsið og bílinn, í ferðalag umhverfis jörðina. Þau hjóluðu um 37000km gegnum 25 lönd á tveim árum. Barbara skrifaði einstaklega skemmtilega bók um ævintýrin í ferðinni sem heitir "Miles from nowhere". Útgefandi: The Mountaineers. 1011 S.W. Klickitat Way, Seattle, WA 98134, USA.

Þýðing: Páll Guðjónsson.

Teikning Jón Örn Bergsson

© Hjólhesturinn 1.tlb. 5.árg. febrúar 1996.