Að þessu sinni var ég ekki að leggja einn af stað. Bróðursonur minn, Valur, ætlaði með sem og Baldur frændi sem var nýbúinn að kaupa sér flott fjallahjól, og var mjög spenntur að prófa það við krefjandi aðstæður. Ég hafði haldið úti Facebook grúppu vegna þessarar ferðar og það voru tveir akureyrskir garpar, Rögnvaldur og Fjölnir, sem komust á snoðir um ferðina þar og ætluðu að koma með. Þeir höfðu tjáð mér að þeir ætluðu að hjóla frá Akureyri og enda ferðina á Akureyri. Ég skildi ekki hvernig þeir ætluðu að gera þetta og var búinn að álykta að þetta væru annaðhvort geðsjúk ofurmenni eða grínistar út í eitt. Ég vissi svo sem lítið um hjólamenningu á Tröllaskaga, því ég er búsettur í Hafnarfirði, þannig að ef til vill var þetta eðlilegur hjólatúr á þessum slóðum.
Ég hafði áætlað að leggja af stað rétt fyrir klukkan níu frá Melum og tvímenningarnir voru mættir þangað upp úr klukkan átta. Þeir höfðu hjólað um 50 kílómetra leið frá Akureyri kvöldið áður og gist í dalnum hjá skyldfólki. Við vorum dágóða stund á hlaðinu á Melum að spjalla og skoða hjólin hjá hver öðrum en lögðum síðan af stað um níu leytið. Heimilishundurinn elti okkur úr hlaði og vildi greinilega koma með. Eftir tvo kílómetra sá ég að hann ætlaði ekkert að snúa heim þannig að ég tók að mér að fylgja honum tilbaka og loka hann inni þannig að hann myndi ekki elta okkur frekar. Framundan voru um 15 kílómetrar á akvegi fram að Atlastöðum, næstinnsta bæ í dalnum, þar sem slóðinn yfir Heljardalsheiði byrjar.
Það hafði verið lágskýjað allan morguninn, öll fjöll í skýjum og þar á meðal Heljardalsheiðin. Það var mér svolítið áhyggjuefni, að þurfa ef til vill að vera í marga klukkutíma á heiðinni í engu skyggni. Staðan var óbreytt þegar við komum fram í Atlastaði og vissum við ekki hvað verða vildi. Framundan var nokkurra kílómetra uppbrekka frá Atlastöðum að fjallsrótum. Slóðin var nokkuð grýtt en við náðum samt að hjóla hana að mestu.
Sumar brekkurnar voru erfiðari fyrir mig en aðra því að ég var á hybrid hjóli og var ekki með eins lága gíra. Ég hafði leitaðað notuðu fjallahjóli um vorið en fann ekki rétta hjólið á viðráðanlegu verði. Ég hafði því brugðið á það ráð að troða eins stórum dekkjum og mögulegt var á hybrid hjólið en komst að því í þessari ferð aðþað þurfti fleira, til að gera það að fjallahjóli.
Eins og við var að búast þá þurfti að teyma hjólin mestalla leiðina frá fjallsrótum og upp á heiðina, bæði vegna brattans en einnig vegna þess að leiðin var stórgrýtt. Þokan færðist ofar í fjallshlíðina eftir því sem við komum ofar og við náðum henni aldrei alveg. Þegar upp á heiðartoppinn kom var sólskin og hægur vindur. Snjóskaflar voru nálægt heiðartoppnum en slóðinn stóð upp úr þeim. Ég hafði kviðið því að þurfa ef til vill að vaða snjó á löngum kafla en svo þegar ljóst var að enginn snjór yrði á slóðanum þá olli það mér smá vonbrigðum, því það hefði kryddað ferðina svolítið.
Við fengum okkur matarbita á heiðartoppnum og skrifuðum í gestabókina í skálanum sem var nýbúið að gera upp. Héldum síðan af stað niður Heljardalinn Skagafjarðarmegin. Slóðinn var vel troðinn og gripið var gott, og gaman að bruna niður, en svo jókst brattinn eftir sem leið á og þá um leið varð slóðin verri. Jarðvegurinn hafði runnið úr slóðinni svo lítið stóð eftir nema misgróft grjót. Ég þurfti að stíga af hjólinu nokkrum sinnum þegar brekkan varð of brött eða grýtt fyrir mína getu.
Neðarlega í Heljardalnum þveraði slóðin Heljarána, sem er ekki sérlega vatnsmikil en hins vegar nokkuð straumhörð. Mér brá hins vegar í brún þegar ég steig út í hana með hjólið á herðunum hvað hún var köld og mig tók að verkja í fæturna af kuldanum eftir aðeins nokkrar sekúndur. Ég var í hefðbundnum gönguskóm sem fylltust um leið af vatni. Valur kom að ánni þegar ég var nýkominn yfir og fór ég því tilbaka og náði í hjólið hans og bar það yfir fyrir hann. Valur fór svo sjálfur út í ána en átti erfitt með að fóta sig í straumnum þar sem hann var töluvert léttari en við hinir. Ég fór því enn einu sinni út í ána og var dágóða stund að jafna mig á kuldanum eftir seinustu ferðina.
Í bröttustu brekkunni niður úr Heljardalnum, áður en komið var niður í Kolbeinsdal, kom ég að Rögnvaldi sem var í þann mund að plástra sig en hann hafði skrámað sig á hendinni eftir byltu. Hann hespaði því af á mettíma og hélt svo áfram eins og ekkert hefði í skorist.
Slóðinn lá beint að Kolbeinsdalsá og þurftum við að komast yfir til að komast aftur á slóðann handan árinnar. Áin lá í nokkrum kvíslum og virtist vera nokkuð djúp en samt var erfitt að átta sig á því, þar sem hún var það mórauð að ekki sást til botns. Við hjóluðum smá spotta niður með árbakkanum til að freista þess að finna betra vað. Við fórum yfir ána á þremur kvíslum og var hún svipað djúp og vaðið yfir Heljarána en hvorki eins straumhörð né köld.
Við brunuðum niður Kolbeinsdalinn og vorum komnir að vegmótum við þjóðveg 767 um klukkan hálf sex. Þar beið bíll eftir okkur með þrjár hjólafestingar á toppnum. Við hjóluðum samt alla leið til Hóla til að klára áætlaða leið. Þar fengu menn sér hressingu og töluðu um ferðina og landslagið á leiðinni. Hjólin voru svo sett á bílinn en Rögnvaldur og Fjölnir héldu áfram sinni hjólaferð eftir þjóðveginum í átt til Akureyrar. Seinna komst ég að því að þeir voru sóttir þegar þeir komu á þjóðveg 1 nálægt Varmahlíð. Við þremenningarnir, ég, Baldur og Valur, fórum hins vegar með góða matarlist í farteskinu til Akureyrar í kvöldmat til vinafólks eftir vel heppnaða Heljarferð.
Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011