Einnig kom björkin mér á óvart, þarna norður við Skjálfandaflóa.
En svo sá ég, að þetta var gamall, íslenskur hundur, sem hafði dáið nýlega.
En svo loks, loks, loksins blasir Jökuldalurinn við, og maður virðir fyrir sér þetta náttúruundur – 300 metrum ofar.
Ánægulegast er að sjá bóndabæi á öllum þeim stöðum , sem byggilegir eru.
Stuttu eftir að ég hafði horft á fjörið í kúnum, skall skyndilega á mikið rok.
Þegar ég kom inn í það, var það fullt af gömlu dóti, og eitt herbergið hálffullt af selskinnum.
Þá fór ég að taka eftir undarlegum hljóðum, svona hálf-draugalegum.
Réttin undir Eyjafjöllum var 20. Náttstaður minn í hringferðinni.


 

Björgvin Hólm

 

ÆVINTÝRI Á REIÐHJÓLI

 

Að ferðast um Ísland á reiðhjóli hefur það í för með sér, að öll dýr horfa á mann. Hestarnir, kýrnar, hrútarnir og ærnar snúa sér í átt til manns, og skoða þetta sjaldgæfa fyrirbrigði. Svanir, sem setið hafa hinir rólegustu, þegar fjöldi bíla hafa geysts framhjá, flýja oftast undan manninum á hjólinu, en stundum sitja álftirnar kyrrar og kvaka. Trippi eiga það til að bregða á leik og hlaupa með hjólinu einhvern spöl.

Að ferðast um Ísland þýðir það líka að veðrið verður eitt aðal áhugamál mannsins. Og þá upplifir hann öll hin furðulegustu blæbrigði veðursins í samleik hita og kulda, lofts og vatns. Veðurspáin verður að lífæð.

Það var svolítið haglél, þegar ég lagði af stað úr Reykjavík klukkan 1, þriðjudaginn 4. maí. Ég var að leggja upp í þriðju hringferðina mína um landið, og í þetta sinn ætlaði ég að  ferðast á þeim tíma, þegar allra veðra var von, og taka með því nokkra áhættu.

Það var suðvestan vindur og fremur svalt, en ég hafði vindinn í bakið, svo ferðin gekk greitt fram hjá Álafossi og meðfram Esjunni. Þegar upp í Hvalfjörðinn kom, var miklu hvassari vindur í bakið, og ég þeyttist áfram. En ég varð að vera mjög aðgætinn, því vegna landslagsins mynduðust alls konar sviptivindar, sem hæglega gátu skellt mér um koll. Alla leið inn í botn slapp ég þó við snjókomu eða regn, en þegar ég kom að Botnskálanum, var svo mikið rok, að ég lagði ekki í það að halda áfram hinu megin við fjörðinn í mótvindinum.

Klukkan var eitthvað um 6, og ég leitaði mér að skjóli og tjaldstað. Klukkan 8 var ég kominn ofan í pokann minn og ákvað að vakna snemma næsta morgun í þeirri von, að vindhraðinn yrði lægri um morguninn, eins og svo mjög oft er. Ég svaf aleinn við Hvalfjarðarbotninn þessa nótt, því skálinn hafði enn ekki verið opnaður. Stöku sinnum brunuðu bílar framhjá með hávaða og látum.


TIL BORGARNESS


Ég vaknaði klukkan 7. Það var hægur vindur, og ég tók niður tjaldið hið snarasta og hélt af stað. Ég hjólaði niður að gömlu hvalstöðinni, þar sem ég fékk mér kaffi. Þegar ég ætlaði að fá mér ábót á kaffið úr könnu, sem stóð á borðinu, tók ég ekki eftir því, að hún snéri öfugt. Þegar ég þrýsti á lokið, þá flæddi kaffið á borðið hinu megin við könnuna. Ég varð að biðja kaupmanninn að þurrka það upp.

Annar maður fór að tala um það, að hann þyrfti að hreyfa sig meira til þess að bæta heilsuna, þegar hann sá, að ég var á reiðhjóli.

Ferðin til Borgarness gekk vel. Ég hafði hliðarvind að gatnamótunum til Akraness, en síðan góðan vind í bakið alla leið til Borgarness. Ég kom þangað klukkan 12, og tjaldaði á tjaldstæðinu í snatri, því þá var byrjað að rigna. Ég komst inn í tjaldið, áður en ég vöknaði.

Annars tjalda ég oft í skógarrjóðrunum hinu megin við fjörðinn, undir fjallinu, sem ég man reyndar aldrei hvað heitir.

Þegar ég sit á veitingarstað í Borgarnesi og horfði yfir fjörðinn finns mér það heita Arnarfjall, en undir því er  hægt að öðlast nokkuð merkilega lífsreynslu. Þegar rok er úr austri, myndast nokkurs konar „vindgildra“ fyrir framan fjallið. Sá sem er á reiðhjóli, og ætlar burt, fær sterkan mótvind í báðar áttir.

Það rigndi töluvert í Borgarnesi þennan dag, svo ég var mikið í tjaldinu og hvíldi mig. Ég er með hitunartæki, sem ég elda mér mat við, og sem ég nota einnig til þess að halda hita í tjaldinu, þegar kalt er. Ég þurfti ekkert að kvarta.

Ég gaf mér þó tíma til þess að hjóla svolítið um bæinn, og fór meðal annars upp á völl til þess að athuga hvort Íris Grönfeldt væri byrjuð að þjálfa íþróttafólk sitt úti. Ekki sýndist mér það, en nokkrir strákar léku sér þar í boltaleik. Annars eru Borgnesingar að byggja sér tvo nýja velli hinu megin í bænum. Það hvílir alltaf einhver ró og friður yfir Borgarnesi, þegar ég kem þangað, og hin lága og langa brú yfir fjörðinn hefur einhvern ævintýraljóma yfir sér.


UPP MEÐFRAM NORÐURÁ


Ég hafði sofnað seint kvöldið áður, og vaknaði því seint þriðja daginn á hringferð minni. Það hætti ekki að rigna fyrr en rétt fyrir hádegi, en þá tók ég upp tjaldið, klyfjaði hjólið, og hélt af stað í átt til norðurlandsins.

Vindur var enn suðvestan átt, svo ég hafði góðan meðbyr. Það er létt að hjóla yfir Holtavörðuheiðina frá Borgarnesi. Landið er að smáhækka alla leiðina upp á heiðina, þannið að brattar brekkur eru mjög fáar. Hins vegar þegar komið er yfir heiðina lækkar landið ört niður í Hrútafjörð. Manni dettur í hug hvort orðtakið „farðu norður og niður“ sé ekki upprunnið á þessari leið. Hugtakið: Upp og niður er miklu sterkara norðan megin. Annars gæti þetta orðtak alveg eins verið upprunnið í Reykjavík, því út frá Aðalstrætinu liggur Austurstræti flatt, Vesturgata og Suðurgata liggja upp, Norðurstígur liggur (norður og) niður frá Vesturgötu.

Holtavörðuheiðin var fyrsta verulega þrautin á leið minni. Það gat verið hættulegt að lenda í snjóhríð þarna uppi á heiðinni, þegar hitinn fer undir frostmark. Það var sólskin sunnan við heiðina, svo ekki gat verið mikill raki í loftinu, og ég treysti á það. Allt gekk vel, þangað til ég nálgaðist háheiðina. Þar var byrjað að skafa yfir veginn, og sum staðar varð ég að leiða hjólið yfir smáskafla. Þegar ég kom efst á heiðina, kom hríð og ég sá lítið fram fyrir mig. En þarna er skýli, sem ég leitaði skjóls við. Ég athugaði, hvort það væri opið, en það var læst. Ég varð, satt best að segja, dálítið undrandi yfir því.

Eftir stutta stund minnkaði hríðin, og ég lagði aftur af stað. Það hafði komist snjór í skóna, svo ég hafði blotnað í fæturna og fann fyrir kuldanum á fótunum. Þegar ég lagði af stað niður af heiðinni, gerðist svolítið sem aldrei hafði skeð hjá mér áður. Hjólið skipti skyndilega sjálft um gír, þ.e. keðjan færðist skyndilega af stærra tannhjólinu við pedalana yfir á minna tannhjólið. Ég varð hissa, en hugsaði svo, að ég hlyti að hafa komið óvart við gírstöngina, þegar ég var að ösla snjóinn upp að skýlinu.

Ég var fljótur að rúlla niður heiðina að Hrútárbrú, og kom þangað klukkan 4. Ég fékk mér kaffi í söluskálanum og skipti um sokka. Ég sá að þaðan voru 84 km til Blönduóss, og ákvað að halda áfram á meðan vindurinn var hagstæður.

Ferðin gekk vel. Ég stoppaði aðeins í Víðihlíð, þar sem lítil, rauðhærð stúlka búin peysu í öllum regnbogans litum tók á móti mér og spurði, hvort ég ætlaði ekki að gista. Ég sagðist ætla að halda áfram. Hundurinn á staðnum var ekki alveg eins gestrisinn, því hann lagði niður rófuna og forðaðist mig.

Til Blönduóss kom ég rúmlega 9, þreyttur eftir langa ferð. Ég tjaldaði strax, því rigningin var á næstu grösum.


Á BLÖNDUÓSI


Það er laugardagur, og ég sit í tjaldi mínu og rita þessar línur. Fyrir utan hvín í vindinum, en stundum heyri ég þó háan niðinn í Blöndu, þar sem áin rennur í iðum niður nokkrar flúðir.

Við tjaldstæðið á Blönduósi rétt við árbakkann er gamalt trjágerði sem tjald mitt stendur við. Það skýlir mér fyrir rokinu sem ekki hefur hætt frá því í gærkvöldi. Ég ætlaði að hvíla mig einn dag á Blönduósi en það er tilgangslaust að leggja í hann í dag vegna veðurs.

Í gær varð mér hugsað til ferðar minnar yfir Holtavörðuheiðina, hvað ég slapp nákvæmlega við hrakninga og vosbúð. Hefði rakinn verið aðeins meiri í loftinu, hefði ég lent í stórhríð, og þá hefði það getað orðið lífsspursmál að komast í skýlið.

Þá hefði það verið hræðilegt að koma að því læstu. Sem betur fór, voru örlagadísirnar mér hliðhollar.

Blönduós er dálítið sérstakur bær. Í flestum bæjum byggjast ný hverfi utan um gamla bæinn, en á Blönduósi hefur gamli bærinn orðið viðskila við nýja bæinn. Gamli bærinn er fremst við ósinn og berst þar fyrir lífi sínu sem athafnasvæði. Þar er kökugerð sem virðist dafna vel. Hún á stað í huga mínum vegna þess að á fyrstu ferð minni um Ísland, árið 1988 þegar ég var 53 ára, sá ég Einar Pálsson – í fyrsta og eina skiptið, sem ég hef séð hann. Þar mættust augu okkar. Einar Pálsson er meðal merkustu Íslendinga sem nú lifa en oft er erfitt að sjá hverju hann sækist eftir. Ég hef ekki lesið bækurnar hans en ég hef skoðað nokkrar greinar eftir hann. Það er örugglega ekki allt rétt, sem hann segir en sumt er rétt. Aðalatriðið er það að hann skynjar að það er ýmislegt sem vantar í þekkingu mannsins sem áður var vitað. Þekking sem hefur hugsanlega glatast í tímans rás. Það sem staðið hefur Einari Pálssyni fyrir þrifum er skortur á andmælendum jafnvel þótt að þar sé um geysilega auðugan garð að gresja.

Ég ætla að vona að veðrið verði betra í fyrramálið. Þá ætla ég upp Blöndudal og yfir Vatnsskarð. Ég býst við að tjalda í Varmahlíð og halda síðan daginn eftir til Akureyrar. Í annari ferð minni um landið, árið 1991 þegar ég var 56 ára, fór ég fyrst um suðurlandið frá Reykjavík. Á þeirri leið valdi ég leiðina: Akureyri – Dalvík – Ólafsfjörður – Sauðárkrókur. Þá lenti ég í moldroki við Ólafsfjörð og mátti þakka fyrir að sleppa burt með heilt tjald. Þó er mér minnistæðari ferð mín á hjólinu í gegnum göngin við Ólafsfjörð sem eru 3,4 km löng. Einn á hjóli í hálfrökkri í rökum göngunum – það er furðuleg lífsreynsla. Göngin virðast aldrei ætla að enda og maður verður að gæta sín vel á bílunum sem koma á eftir manni, eða á móti manni, í einstiginu.

Nú er klukkan hálf fimm og vindurinn heldur áfram að gnauða í trjágreinunum. Öðru hvoru dynja skúrir á tjaldinu. Hjólið er hérna rétt fyrir utan tjaldið, og regndroparnir hreinsa það af ryki veganna. Það er nauðsynlegt að hafa gott reiðhjól í svona ferðalögum. Það verður að vera létt, en þó það sterkt, að það geti auðveldlega borið c.a. 20 til 25 kíló af  farangri ásamt eigandanum. Stýrið þarf að vera þannig að hægt sé að halda í það á marga vegu, breytingin á handtakinu vinnur á móti þreytu í löngum ferðum. Á hjólinu mínu eru krómuð bretti sem koma í veg fyrir skítkast frá dekkjunum. Gírarnir eru 12 og eru mjög þægilegir sérstaklega þegar hjólað er á móti vindi eða í meðvindi. Í meðvindi er hæsti gírinn gulls í gildi. Ég er með skálabremsur en þar er hemlaátakið nálægt miðju hjólanna en ekki á gjörðunum. Hjólið er af gerðinni Evrópu Stjarna og reynist það mér mjög vel. Það er með góðan bögglabera sem ber tjaldið, svefnpokann og tvær hliðartöskur. Einnig er ég með eina tösku á stýrinu til þess að dreifa þunganum. Dekkin og gjarðirnar eru á hjólunum. Eiginlega bila góð hjól aldrei en það hefur komið fyrir að einn og einn teinn slitni eftir högg af steini þegar hjólað er hratt, t.d. niður brekkur.


ÓVÆNT BREYTING Á ÁÆTLUN


Klukkan var 11 þegar ég hélt frá Blönduósi, upp Blöndudalinn, á leið til Varmahlíðar. Ég fékk mótvind upp dalinn en ferðin gekk samt sæmilega upp að Húnaveri en þá taka við hinar bröttu brekkur upp Vatnsskarðið. Hjólaferðin breyttist í fjallgöngu, en þó með þeirri viðbót, að maður verður að ýta eða toga um það bil 35 til 40 kílóum upp með sér.

Það er þreytandi verk og nokkru sinnum verður maður að stoppa og kasta mæðinni. Þegar efstu brún er náð er maður í raun og veru dauðþreyttur. Bílstjórarnir horfa undrandi augum á þann sem er að bisa við að ýta hjóli upp brekkurnar. En þetta er ekki eins slæmt og það virðist. Maður er að safna orku í áframhaldandi ferð, eins og að vinda upp fjöður. Þegar hæsta punkti er náð og maður sest á hjólið og byrjar að renna niður brekkurnar hinu megin, þá er þreytan fljót að hverfa. Úr Vatnsskarðinu til Varmahlíðar er frítt rennsli um það bil 10 km.

Ég var kominn til Varmahlíðar kl. 3 og var þar til kl. 10 morguninn eftir þegar ég hélt aftur af stað. Það eru aðeins 5 km. yfir dalinn en það tók mig eina klukkustund að komast yfir hann, rokið var það mikið í fangið. Þegar ég kom að vegamótunum hinu megin þar sem vegurinn liggur annars vegar til Hofsóss og hins vegar í átt til Akureyrar, þangað sem ferðinni var heitið, þá sá ég að mér myndi ekkert miða áfram til Akureyrar vegna roks. Hins vegar var góður meðbyr til Hofsóss.

Ég ákvað að láta vindinn ráða ferðinni. Ég snéri á átt til Hofsóss og áður en ég vissi af hafði ég rúllað rúmlega 80 km. í átt til Siglufjarðar. Ég stoppaði þegar eftir voru 24 km þangað, tjaldaði, eldaði mér mat og hugsaði um hvort ég ætti að reyna að komast yfir Lágheiðina til Ólafsfjarðar, en hún er víst ekki opnuð fyrr en í júní vanalega. Satt best að segja leist mér ekki á allt snjómagnið í hlíðum fjallanna í kring svo morguninn eftir ákvað ég að hjóla áfram til Siglufjarðar og skoða bæinn, en þangað hafði ég ekki komið í yfir 20 ár eða allt frá því að göngin voru opnuð.

Þegar ég hjólaði inn í bæinn, fannst mér hann mikið breyttur en það að koma inn í bæinn frá göngunum en ekki úr skarðinu breytir auðvitað viðmóti bæjarins. Íbúar Siglufjarðar eru um 1700 svo ekki hefur þeim fjölgað að ráði en húsum hefur þó fjölgað mikið.


MIÐVIKUDAGUR, 12. MAÍ


Klukkan er 1 og ég ligg hérna í sólbaði í steikjandi sól. Hvergi sést skýhnoðri á lofti og sólargeislarnir eru sterkir vegna þess hve loftið er tært. Ekki er það alveg samkvæmt veðurspánni en það kemur sér vel fyrir mig því ég þurfti að þurrka allt hafurtask mitt. Það rigndi þegar ég kom inn í bæinn í gær svo föt mín voru orðin blaut og þar að auki passaði ég mig ekki nægilega að tjalda í mátulegum halla svo í hellirigningu rann inn í tjaldið, en ég tók ekki eftir því, fyrr en svefnpokinn var orðinn hundblautur. Ég svaf hálfblautur í alla nótt.

En nú ligg ég í skýlu einni fata og læt fara vel um mig. Ég læt ferðina bíða meðan veðrið er svona gott. Kampur Siglfirðinga fyrir tjöld er fyrir utan bæinn og í gær komu hingað menn og opnuðu fyrir vatnið fyrir mig. Hér eru góðir grasbalar í kampinum og svolítið er byrjað að rækta tré í skjólgarða. Góð trjágerði eru mjög heppileg í kömpum og er nauðsynlegt að fá skógræktina á hinum ýmsu stöðum til aðstoðar. Tré þrífast best innan um fólk og er sjálfsagt að planta þeim þar sem fólk kann að meta þau. Kampur með góðum trjágerðum lengir notagildi kampsins um 1 til 2 mánuði á ári. Okkur veitir ekki af því hérna á Íslandi, fyrst og fremst fyrir okkur sjálfa en einnig fyrir erlenda ferðamenn.


VEÐURTEPPTUR Í ÓBYGGÐUM


Ég er nú farinn frá Siglufirði, en þeir sem lesa þetta, hafa eflaust velt því fyrir sér, hvernig ég hygðist ætla að halda áfram ferð minni, þar sem Lágheiðin var ófær. Var ég ekki kominn langt út af leið? Til þess að komast til Akureyrar yrði ég að fara langa leið til baka, nærri því til Varmahlíðar. Ætlaði ég ef til vill að fá far með skipi eða rútu til Akureyrar?

Ég hafði sofið tvær nætur á Siglufirði, þegar ég hélt þaðan kl. 1. Ég bætti við mig tveim gaskútum til ferðarinnar. Ég fór hjólandi og ætlaði yfir Lágheiðina. Ég hafði heyrt það daginn áður að byrjað væri að moka upp á heiðinni og ætlaði að reyna að komast yfir.

Ég var kominn að brekkunum kl. 5. Þá sá ég að snjór var yfir öllu alveg niður á jafnsléttu við brekkurnar. Ég sá að búið var að ryðja brekkurnar og þar sem sólin hafði skinið allan daginn og enn var mjög bjart hikað ég ekki við að leggja í þær. Þó þær væru ruddar var samt 10 cm. snjólag á þeim sem gerði ferðina upp töluvert erfiða. Ég þurfti að hvíla mig mörgum sinnum á leiðinni en upp hafði það að lokum að þeim stað þar sem verið var að ryðja brautina. Það var ekki svo langt frá hæsta punkti.

Á leiðinni upp komu á móti mér tveir hestar á leiðinni niður brekkurnar og þegar ég náði snjóruðningsmönnunum ræddi ég við þá. Þeir sögðu að ekki væri byrjað að ryðja neitt Ólafsfjarðarmegin og það væri mikill snjór á heiðinni. Þeir voru hissa að sjá mig þarna en voru sammála mér í því að mér ætti að takast að komast yfir. Ég hélt því ótrauður áfram.

Það var erfitt að ganga í snjónum því hjólin sukku töluvert í hann. En ég dró það áfram, eða ýtti, með stuttum hvíldum öðru hverju. Mér sóttist ferðin seint. Þá rakst ég á spor eftir hestana tvo og skildi þá að þeir höfðu farið yfir heiðina áður um daginn. Ég hélt áfram niður á við í átt til Ólafsfjarðar en sjórinn virtist aldrei ætla að enda. Þó kom að því að stöku börð nálægt veginum fóru að standa upp úr snjónum og leiddi ég þá hjólið yfir þau því það var léttara jafnvel þótt þau væru ekki slétt. Hægt var að fylgja veginum eftir vegamerkjum sem stóðu sum staðar upp úr snjónum.

Sólin var að hverfa bak við fjöllin þegar loks fór að sjást í veginn öðru hverju en sum staðar voru allt að 3ja metra háir skaflar sem ég þurfti að krækja fyrir.

Það kom að því að mikill hluti vegarins stóð upp úr og ég varð viss um að nú væri ég sloppinn yfir heiðina. Þá skyndilega fann ég að ég var örmagna af þreytu. Hugur minn hafði ekki leyft mér að taka eftir því á meðan ég var ekki öruggur. Eftir stutta hvíld fór ég á bak hjólinu og ætlaði að hjóla þann vegarspotta sem stóð upp úr snjónum. Þá uppgötvaði ég að það hafði sprungið á afturhjólinu. Ég veit ekki hvers vegna en þá ákvað ég að tjalda þarna efst í dalnum, fyrst og fremst vegna þess hve þreyttur ég var en auk þess var orðið töluvert kalt.

Ég fann ágætan stað til þess að reisa tjaldið og gekk það vel, en ég hafði varla orku til þess að fá mér svolítið að borða áður en ég sofnaði en þó gat ég ekki  sofnað fyrr en kl. 2 um nóttina.

Ég vaknaði kl. 6 um morguninn þegar tjaldið þeyttist til og frá í hríð og roki. Ég varða að sitja uppi með bakið á tjaldhliðinni í vindáttina og bíða betra veðurs. Á meðan kyngdi snjónum niður allt í kring um tjaldið.

Veðrið hefur lítið skánað og ég tók það ráð að moka snjó hátt upp á allar hliðar tjaldsins. Ég verð hér aðra nótt. Það kom sér vel að ég hafði verið svo forsjáll að bæta við mig tveim gaskútum þegar ég fór frá Siglufirði. Ég hef því getað haldið á mér sæmilegum hita þann tíma sem ég hef verið hérna veðurtepptur.

Þegar ég rita þessar línur í tjaldinu, með haglið byljandi á því, verður mér hugsað: Svona er hringferð í maí – með sínum áhættum.


TJALDAÐ Á AKUREYRI – Í 15 CM SNJÓ


Veðrið var ágætt kl. 9 á laugardagsmorgunn eftir að ég hafði sofið tvær nætur efst í dalnum fyrir ofan Ólafsfjörð. Snjórinn náði upp á mitt tjaldið all í kring um það og ég byrjaði á því að moka hann burt. Síðan tók ég saman föggur mínar, setti þær á hjólið, og hélt af stað til byggða. Ég hafði áður gert við sprungið afturhjólið með því að draga það inn í tjaldið í gegnum tjaldopið í hríðinni. Örlítið gat hafði komið á slönguna sem ég bætti. Nú ætlaði ég að hjóla til Akureyrar.

Ferðin gekk vel. Ég stoppaði aðeins á Ólafsfirði fór síðan í gegnum hin 3,4 km. löngu göng. Nú voru þau aðeins upp í móti því þau halla aðeins í átt til Ólafsfjarðar. Það er furðuleg tilfinning að hjóla í gegnum svona göng. Ég stoppaði einnig á Dalvík en hjólaði síðan þaðan alla leið til Akureyrar. Ég hafði smá golu í bakið en á miðri leið byrjaði að snjóa. Í þetta sinn dreif  á mig dúnmjúk mjöllin sem ekkert hindraði þó ferð mína.

Ég kom til Akureyrar kl. 4 og tjaldaði þar í kampinum. Það hélt áfram að snjóa og daginn eftir var komið 15 cm. lag yfir allt.

Það kom til mín fólk að tjaldinu, spurði hvort ég kynni ensku og ég svaraði „Yes“. Síðan spurði það mig á ensku hvort mér væri ekki kalt og hvort ég vildi ekki húsaskjól. Ég þakkaði þeim kærlega fyrir hugulsemina en sagði þeim að mér liði vel og ég hefði ágætan hita í tjaldinu. Ég hélt, að þetta væru útlendingar því ég heyrði að þau töluðu saman á ítölsku þegar þau komu að tjaldinu. Þó datt mér í hug að segja: „Ég er Íslendingur“. Þá kom í ljós, að þau höfðu einnig haldið að ég væri útlendingur og er það ekki í fyrsta skipti sem fólk heldur að ég sé útlendingur. Því ættu Íslendingar ekki að upplifa sitt eigið land í hjólaferð um það með tjald og poka?

Hann var Ítali, hún var Íslendingur. Ég ræddi við þau í smátíma í snjókomunni en kvaddi þau síðan og sagði: „Tjaó“ við Ítalann þótt ég viti ekki hvernig eigi að skrifa það.

Það vakti töluverða athygli á Akureyri að ég skildi vera þarna í tjaldi og snjór allt í kring. Fréttamenn frá blöðum, útvarpi og sjónvarpi komu að tjaldinu og fengu viðtal við mig. Þeir héldu sömuleiðis fyrst að ég væri útlendingur.

Eflaust spyrja margir hvers vegna ég sé að leggja á mig allt þetta puð og ferðast um Ísland í maí á þeim tíma sem örugglega fáir myndu reyna. Það er í raun og veru ekkert svar til við því. Ekki einu sinni hið fræga svar fjallgöngumannana: „Af því að fjallið er þarna“. Til er íslenskt svar, sem gæti þó passað: „Af því bara“. Það er íslensk sál í mér sem heldur þreki mínu og heilbrigði ávallt í góðu ástandi.

bjorgvin-holm.jpg

Sjá frétt á timarit.is hér.  

Á AKUREYRI


Hér hefur nú snjóað í meira en einn sólarhring og mjöllin yfir öllu, svo ég tek mér hvíld í bili og hef það bara gott á Akureyri. Töluvert gestkvæmt hefur verið að tjaldinu og flestir hissa á því að hér skuli vera Íslendingur á ferð. Ég ætla að nota tímann sem við töfina skapast til þess að lýsa fyrstu árum tölvutækninnar á Íslandi. Ég fékkst við að rita vísinda- og tæknigreinar í ýmiss blöð á árunum upp úr 1960 þegar IBM á Íslandi auglýsti eftir tveim mönnum til að læra að hagnýta sér þessa tækni sem þá var mjög spennandi verkefni í vísindaheiminum. Margir voru látnir þreyta sérstakt hæfileikapróf og svo fór að ég fékk aðra stöðuna. Ottó Michaelsen var þá forstjóri IBM á Íslandi. Starfsheitið hafði verið valið: Kerfisfræðingur en það var þá eingöngu hægt að læra hjá tölvufyrirtækjunum sjálfum. Reyndar töluðum við þá alltaf um rafreikna því tölvuheitið var ekki komið þá.

IBM á Íslandi hafði þá ekki fengið tölvu en rak samt svipaða þjónustu með undanfara tölvanna sem við kölluðum TABULATOR. Þá voru allar upplýsingar geymdar og unnar í 80-stafa gatspjöldum, og stundum þurftum við að vinna með heila skápa af gatspjöldum, sem í dag er hægt að geyma á nokkrum diskum.

Ásamt tabulatornum voru til raðari og collator, sem gat raðað spjaldskrám saman, ef þær voru í sömu röð. Það fór geysimikil vinna í það að raða spjöldum á þessum tíma, og oft áttu spjöldin það til að festast í vélunum og rifna. Þá var það vandaverk að gera ný spjöld með námkvæmlega sömu upplýsingum og spjöldin höfðu sem ónýttust.

Tabulatorinn var kassalaga vél, um það bil 120 cm á hæð, 150 cm á breidd og 120 cm á dýpt. Það var ekki hægt að gefa honum skipanir með forriti, eins og gert er í tölvum, heldur var nokkurs konar stjórnskífa með óteljandi götum. Til þess að stjórna verkefni voru götin tengd með óteljandi rafleiðslum, allt eftir því, hvert verkefnið var. Töluverða kunnáttu þurftir til þess að framkvæma þetta. Stjórnskífuna var hægt að fjarlægja úr vélinni, og setja aðra í staðinn, og á þann hátt gat hún sinnt ýmsum verkefnum sem fór eftir því hvaða stjórnskífa var í henni. Flest verkefnin gengu út á það að: lesa eitt spjald, skrifa línu út frá því, safna ýmsum summum og framkvæma ýmsa útreikninga áður en næsta spjald var lesið, og svo koll af kolli. Ég man eftir nokkrum verkefnum frá þessum tíma. Þarna var til dæmis unnið bókhald fyrir Útvegsbankann og mig minnir fyrir Eimskip líka. Eitthvað var unnið fyrir Hagstofuna en einnig ýmis einstök verkefni sem til féllu. Sum þeirra voru mjög áhugaverð: Stærðfræðilegir útreikningar og tölfræðilegar rannsóknir.

Í daglegu tali kölluðum við tabulatorinn Tabba, og mestur tíminn fór í það að „mata“ tabbann með spjöldum sem hann las malandi hægt og bítandi, mig minnir 60 spjöld á mínútu.

Vinnan við tabbann var góður undirbúningur undir tölvuvinnsluna en IBM var þá að undirbúa sig undir það að fá tölvu.

Við lásum bækur um tölvur og kynntum okkur forritin eftir fremsta megni. Einnig lærðum við alla þá tækni sem til var er varðaði skipulagningu í fyrirtækjum sem hygðust nota sér tölvur, eyðublaðatækni, upplýsingaflæði, hagnýtni o. m. fl

Við lærðum að rita upp verklýsingar og teikna flæðirit.

Svo kom að því, að tölvan kom. Það var dýrðleg stund. Þetta var á þeim tíma þegar menn voru tiltölulega nýbyrjaðir að senda gervihnetti út í geyminn og voru að undirbúa ferð til tunglsins. Sjónvarp var að byrja á Íslandi og Bítlarnir að byrja að syngja.

Og við fengum tölvuna okkar. Hún hafði aldrei neitt annað nafn en 1401. Hún var með 4000 stafa minni sem þætti ekki mikið í dag en það var heilmikið þá. Og hún vann miklu hraðar en tabbinn. Nú var hægt að gera ýmislegt, sem ekki var hægt að gera áður. Og nú gátum við ritað skipanir okkar í gatspjöld og búið til forrit. Þetta var allt svo dásamlegt.

ÁFRAM Í AUSTUR


Ég lagði af stað frá Akureyri kl. 11, miðvikudaginn 19. maí.

Eftir að hafa hjólað fyrir fjörðinn og svolítinn spöl hinu megin, stoppaði ég við bæ, sem heitir Marbakki, og virti fyrir mér Akureyri. Stórt skip var á hægri siglingu inn fjörðinn, já svo hægt að það var eins og það léti reka undan hægri norðangolunni.

Það er alltaf gaman að koma til Akureyrar, annars stærsta bæjar á Íslandi, og að horfa á hann yfir fjörðinn sýnir manni hve hann er í raun og veru orðinn stór. Smíði og iðnaður dafnar vel og það er athyglisvert að smíði, iðnaður og framleiðsla á sér stað fyrst og fremst á sjálfri Akureyrinni, á meðan íbúðarhúsin eru í hinum bröttu og sérkennilegu brekkum Akureyrar og þar upp af. Akureyri er einn af fáum bæjum, þar sem enn er til kvikmyndahús. Ég er vanur að sjá þar eina eða tvær myndir þegar ég er á Akureyri en í þetta sinn hafði ég séð einu myndina sem ég hafði áhuga að sjá. Bíóið á Siglufirði er enn starfrækt og eru sýndar kvikmyndir þar öðru hvoru.

Ég er einn af þeim mönnum sem aldrei gat sætt sigvið „video-innrásina“, þegar kvikmyndir voru settar á segulbönd og fólk gat horft á þær í heimahúsum. Það var ótrúlegt hve fólk gat horft mikið á video-myndir um tíma. Fólk hékk yfir þessu langt fram á nætur. Við það glataðist sú tilfinning að upplifa þessar myndir í návist fjölda fólks sem lætur í ljós tilfinningar sína í heild.

Mér fannst bæði litir og greinileiki glatast of mikið í video. Ég var aldrei hrifinn af því. Heldur fer ég í kvikmyndahús þegar myndir eru sýndar sem ég hef áhuga á. Það eru unglingarnir sem nú sækja bíóin mest. Oft er ég eini maðurinn þar yfir 30 ára.

Eftir að hafa virt fyrir mér Akureyri um stund fór ég aftur á bak hjólinu og hjólaði að skarðinu við Vaðlaheiði. Þar var erfitt að ýta hjólinu upp brekkurnar því ég hafði stífan mótvind sem gerði hjólið enn þyngra. En ég var laus við snjó á veginum, það var bót í máli. Ég hafði mótvind fram hjá Vaglaskógi og Ljósavatni og var því orðinn þreyttur þegar ég kom að vegamótunum, annar vegar til Húsavíkur og hins vegar til Mývatns. Vindurinn var á ská í bakið til Húsavíkur og í annað skiptið í hringferðinni lét ég vindinn ráða. Á skiltinu stóð 45 km til Húsavíkur. Ég var þá kominn hálfa leið frá Akureyri og ákvað að fara til Húsavíkur en þangað hafði ég aldrei komið áður.

Ég sá ekki eftir því. Á þessari leið er sérstakt landslag með mjög sérkennilegum hraunmyndunum. Einnig kom björkin mér á óvart þarna norður við Skjálfandaflóa. Þegar ég fór yfir Skjálfandafljót var ég ekki viss hvort þetta væri fljótið. Mér fannst vatnið ekki vera þannig litt, að það rynni úr jökli.

Ég kom til Húsavíkur kl. 7 þreyttur og lúinn og varð þeirri stund fegnastur þegar ég var búinn að tjalda. Þarna er ágætur kampur þótt enn vanti þar meira skjól af trjám. Grasið var orðið töluvert grænt þó enn væru snjóskaflar á víð og dreif um bæinn. Þegar maður sér víkina og umhverfi hennar furðar maður sig ekkert á því að hér skuli hafa risið þorp.


HÁEY OG LÁGEY


Ég áði tvær nætur á Húsavík, og notaði tímann til þess að skoða þorpið og umhverfi þess. Þarna eru nokkrar gamlar grjótveggjahleðslur sem ég hafði gaman af að skoða. Síðan hélt ég áfram fyrir Tjörnes og meðfram Axarfirði. Ég hafði austanmótvind eða hliðarvind og stoppaði því nokkrum sinnum á leiðinni. Sérstaklega var ég spenntur að sjá Háey og Lágey, tvær eyjar beint út af Tjörnesi sem  bera þessi skemmtilegu nöfn. Þær heita öðru nafni Mánáreyjar og er Lágey lengra frá landi og um það bil helmingi lægri en Háey en hún er lengri sem nemur um það bil tveim þriðju. Hún er því lengri, lægri og lengra frá. Séð frá Kópaskeri sýnast eyjarnar álíka langar. Ég hugsaði með mér að það væri gaman að sigla einhvern tíma út í eyjarnar.

Ég tjaldaði í Lyngási, kjarri vöxnum og lyngivöxnum ás, ekki langt frá Ásbyrgi. Skammt þar frá sá ég loðfeld á jörðinni, og hélt fyrst, að þetta væri ullarreifi af kind, en sá svo, að þetta var gamall, Íslenskur hundur, sem hafði dáið nýlega. Daginn eftir hjólaði ég til Kópaskers og  var þar eina nótt.


ÓVÆNTIR ERFIÐLEIKAR


Það hafði sprungið á afturhjólinu og komið smá gat á dekkið, og ég keypti límbönd á Kópaskeri til þess að vefja dekkið með. Síðan fór ég frá Kópaskeri í sama austanvindinum. Fram hjá Autúni, Efrihólum og Presthólum og síðan Valþjófsstöðum. Síðan fram hjá veginum til Þórshafnar og að brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum. Þar stendur á vegaskilti að 26 km séu aðDettifossi og um 190 km til Egilsstaða. Ég ákvað því að fara þá leið. Ég vissi að menn brugðu sér oft frá Grímsstöðum að Dettifossi  svo varla gat sú leið verið mjög löng.

Ég svaf mánudagsnóttina skammt fyrir ofan Vestaraland eftir að hundur þaðan hafði hlaupið á undan mér töluverðan spotta.

Morguninn eftir var komið heiðskýrt veður og í tvo daga átti sólin eftir að skína í öllu sínu veldi. Þar sem ég svaf þarna í tjaldinu tók ég eftir því að enginn bíll fór eftir veginum og þá fór ég allt í einu að skilja að vegurinn var ófær. Ég var nú samt ekki á því að snúa við og hélt því áfram.

Fyrstu 20 km var lítill snjór en hins vegar var vegurinn mjög mjúkur því frostið var að fara úr honum. Ég varð því oftast að ganga og leiða hjólið því það var of erfitt að hjóla. Þetta var svipað eins og þegar ég hjólaði Bláfjallahringinn frá Reykjavík sem er um 70 km. Þá hjólar maður fyrst til Hafnarfjarðar og þaðan í átti til Kleifarvatns en beygir síðan inn á veginn til Bláfjalla. Þá var vegurinn meðfram Bláfjöllum svona mjúkur og ég orðinn dauðþreyttur þegar ég kom til Reykjavíkur fram hjá skíðaskálanum og Sandskeiðinu.

Annars er umhverfi Reykjavíkur sérstaklega skemmtilegt til að hjóla um, því þar má fara ýmsa hringi bæði stutta og langa. Einnig eru vegalengdir um borgina orðnar töluverðar. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að í ferð til Hveragerðis frá Lækjartorgi fer maður nærri fjórðung vegalengdarinnar innan borgarinnar.

Nú, ég var á leiðinni upp að Dettifoss en ekki í Reykjavík en ferðin gekk rólega í góðviðrinu. Ég hafði nægan tíma til þess að virða fyrir mér landslagið á Öxarfjarðarheiði. Maður reiknar með að komast 5 km á klukkustund, ef maður gengur, en ef maður hjólar er ágætt að fara um 15 km á klukkustund. Þó hef ég náð 25 km meðalhraða á 100 km vegalengd.

Það höfðu tveir bílar ekið veginn upp að Dettifoss svo varla var hann  mjög slæmur. Og það létti mér hjólreiðina að vera í förum þeirra. En skyndilega stöðvuðust þessi för í stórum snjóskafli og þá uppgötvaði ég að þetta hafði verið aðeins einn bíll, bara fram og til baka. Og nú tók við fullt af blautum snjósköflum sem vatn rann úr í sólinni sem varð að puða yfir. Þetta var erfitt en það gleymdist allt saman þegar ég kom að Dettifoss í fyrsta skipti á ævinni. Það var stórkostleg sjón. Fyrst og fremst voru það hin ógnvekjandi gljúfur sem höfðu áhrif á mig. Þarna var ég aleinn og enginn hafði líklega komið þarna í langan tíma. Það jók áhrifin.

Ég stoppaði stutt, því ég varð að komast eins langt og ég gat þennan dag. Ég hafði aðeins matarforða í einn dag og ég reiknaði með því að ég kæmist ekki í matarkaup fyrr en á Egilsstöðum. Ég treysti ekki á að geta keypt eitthvað á Grímsstöðum. Nú hafði vindáttin til allrar hamingju snúist í norður en ég varð samt að ganga mest alla leiðina að Hólseli í gegn um skafla og polla, og það var miklu lengri leið en ég hafði gert mér grein fyrir. En mér leið vel í sólskininu og var í góðu skapi þegar vegurinn skánaði og ég varð fljótur að Grímstöðum. Þar var ekkert að fá svo ég hélt áfarm í hinum hagstæða vindi. Ég var enn ótrúlega þrekmikill eftir hina löngu erfiðu leið sem sýndi mér það að þrekið hafði vaxið mikið síðustu 3 vikurnar á ferð minni. Og ég hélt áfram þar til sólin nálgaðist sjóndeildarhringinn. Þá átti ég eftir um það bil 90 km. til Egilstaða sem ég þurfti að fara daginn eftir.

Það hafði hvellsprungið hjá mér þrisvar sinnum á leiðinni og ég var kominn í erfiðleika með að gera við dekkið. Gatið var alltaf að stækka, og slangan við gatið var orðin eins og landakort af bótum, og ég átti aðeins eina ónotaða bót eftir. Sömuleiðis var límbandið að verða búið.

Ég tjaldaði ekki langt frá þar sem 15 hestar voru í girðingu og þegar ég fór þaðan snemma morguninn eftir stóðu þeir allir og snéru að mér og horfðu á mig í röð sem virtist hafa ákveðna merkingu þar sem meðal annars litir þeirra höfðu sitt að segja.

Ég komst ekki mjög langt, þegar aftur byrjaði að leka úr slöngunni, og ég ákvað að spara síðustu bótina, þar til ég kæmi niður í Jökuldal. Því gekk ég langan tíma og bætti vind í slönguna öðru hvoru. Þetta er ekkert skemmtileg leið – hæð eftir hæð og dalur eftir dal, svona hálfgerð eyðimörk og maður verður hálf leiður. En svo loks, loks, loksins blasir Jökuldalurinn við og maður virðir fyrir sér þetta náttúruundur 300 metrum ofar.

Ég gekk niður allar brekkurnar í dalinn, en þegar ég kom niður, settist ég á grasbala, og byrjaði að gera við dekkið. Það tókst, og ég steig aftur á bak. Allt gekk vel, þar til ég kom í langa brekku, þar sem ég lét mig renna niður með nokkrum hraða. Þá lenti ég í ójöfnum á veginum, hjólið hristist, og BANG – þar fór dekkið og slangan einu sinni enn. Sumir hefðu örugglega hent hjólinu með öllu út í Jökulsá. En ég þraukaði enn. Ég gekk þangað sem selt var benzín og bóndakonan var mér mjög greiðvikin. Henni tókst að finna nokkrar bætur og leðurbút til þess að setja inn í dekkið til þess að gera við það. Ég dáðist að þolinmæði hennar en ef til vill hafði hún bara gaman að því að selja mér þetta. Nú var allt í fínasta lagi því ég var viss um að mér tækist að gera við hjólið og gæti haldið áfram. Ég leiddi það á þægilegan stað og byrjaði verkið. Ég lagði það á jörðina, tók fram verkfærin, bæturnar og leðrið, beygði mig niður og þá sá  ég að róin sem heldur ventlinum var horfin og vetillinn líka. Það hafði hrists af. Ég var að hugsa um að henda hjólinu til Vatnajökuls.

Nú var ekkert um annað að gera en ganga til Egilsstaða allan daginn og nóttina, nema mér tækist að fá mér far með bíl. Ég var varla farinn að hugsa þessa hugsun, þegar einn maður á bíl kom þar að. Ég vinkaði honum og hann stöðvaði bílinn. Þar var þá kominn Friðjón Vigfússon, mikill laxveiðimaður, og hann leyfði mér að vera með til Egilsstaða. Skelfing var ég feginn þegar ég var búinn að tjalda á Egilsstöðum og búinn að kaupa mér svolítinn mat. Annars var mjög ánægulegt að ferðast með Friðjóni.

Ég var einn í kampnum á Egilsstöðum ásamt tveim vinstúlkum frá Akureyri sem buðu mér uppá súpu. Við sátum saman í kvöldsólinni og ræddum saman. Rósa hafði ferðast töluvert á ævi sinni og hafði meðal annars komið til Baikalsvatns sem er stærsta og dýpsta vatn í Asíu. Ingveldur var á leiðinni til Bandaríkjanna, þar sem hún ætlaði að dveljast í eitt ár.

Jæja lífið var ekki svo slæmt eftir allt saman. Það er best að halda hjólinu.


Á EGILSSTÖÐUM


Nú er föstudagur og ég hef verið hér í tvær nætur. Það er kalt í veðri, suðaustan strekkingur með rigningu öðru hverju. Ég verð hér eina nótt í viðbót.

Í gær sá ég fyrstu útlendingana á hjólum í ferð minni en það er orðið töluvert vinælt að ferðast til Íslands með reiðhjól. Stundum hef ég verið samferða útlendingum eftir vegum landsins. Í annarri ferð minni um landið ferðaðist ég einmitt með tveim Þjóðverjum héðan frá Egilsstöðum til Grímsstaða, en þaðan fóru þeirað Dettifossi og ég til Mývatns. Það furðulega er að þá lenti ég í sömu vandræðum með slönguna í afturhjólinu. Það var alltaf að springa hjá mér og Þjóðverjarnir biðu á meðan ég var að gera við. Í fyrstu ferð meinni niður Jökuldalinn lenti ég í algjöru slagviðri og fór í skjól við fjárhús sem var nálægt veginum. Þá vildi svo til að bóndinn sem hét Páll var að stinga út úr fjárhúsi. Við tókum tal saman, og svo fór, að hann bauð mér inn í bæinn þar sem ég fékk kaffi og kökur. Konan hans var þýsk, og við ræddum öll saman í nokkurn tíma, m. a. um hreindýrin á Íslandi en þá voru þau töluvert í brennidepli. Mig minnir að bærinn hafi heitið Hjarðarholt.

Þegar veðrið skánaði aðeins og rigningin hætt lagði ég aftur af stað, en fljótlega versnaði veðrið aftur, svo ég fann mér góða laut sem veitti nokkuð skjól og tjaldaði þar. Þetta var í óveðrinu, þegar miklar aurskriður urðu á Ólafsfirði. Slagviðrið hélt áfram en þegar ég var búinn með allan matinn, var ekki um annað að ræða en halda aftur út í óveðrið og koma sér til Egilsstaða. Ég puðaði í hliðarvindi niður að brúnni yfir Jökulsá, holdvotur meðan regnið dundi á andliti mínu. En þegar ég kom yfir brúna fékk ég rokið í bakið og ég bókstaflega fauk til Egilsstaða. Þá var ég einnig feginn þegar ég var búinn að tjalda. Fyrsta verk mitt var að fara í þurr föt. Tvær fyrri ferðir mínar voru farnar í ágúst en nú ferðast ég í maí.

Að koma að Jökuldalnum eftir langa ferð frá Grímsstöðum um hálfgerða eyðimörk, sem þó í öllum sínum margbreytileika reynir á manninn á hjólinu, er eins og að sjá allt í einu eitthvað svipað Himnaríki í hugum manna. Jökuldalurinn er náttúruundur, þegar maður kemur úr auðninni. Annars er það alveg ótrúlegt, hve landslag Íslands sýnir manni margar ásjónur. Hvert horn Íslands er gjörólíkt frá hinum. Hið sama gildir raunar um veðrið á Íslandi. Að munurinn á hitastigi á milli horna geti orðið eins mikill og raun ber vitni á þessum litla hólma í Golfstraumnum úti  í miðju Atlantshafi er einnig ótrúlegt. Hve vindáttir geta verið ólíkar eftir landshlutum og hvernig sólskin og rigning skipta með sér landinu er efni til undrunar. Og líklega leikur þeyr stærra hlutverk á Íslandi en í nokkru öðru landi.

„Ætli þetta verði ekki síðasta ferð mín um landið“, sagði ég við Friðjón í bílnum. „Maður skal aldrei segja aldrei“, sagði þá Friðjón, og ég sagði, að það væri líklega rétt hjá honum. Hann var að koma af sýningu í Reykjavík, þar sem hann sýndi einhverjar veiðigræjur. Hann var á leið til Reiðarfjarðar. Lítið horfðum við á undur dalsins í bílnum sem þeystist áfram til Egilsstaða. Hins vegar áttum við saman skemmtilegt samtal. Í útvarpinu var sagt frá því að Íslendingar sópuðu til sín verðlaunum á Smáþjóðaleikunum þar sem m.a. Sigurður Einarsson og Einar Vilhjálmsson urðu í 1. og 2. sæti í spjótkastinu.

Hérna í kampnum á Egilsstöðum er verið að undirbúa fyrir sumarið. Trésmiðir eru að smíða á meðan vætan er smá saman að renna úr grassverðinum. Hér er frekar mýrlent, svo kampurinn er varla tilbúinn. En skipulagning trjágerðanna til skjóls fær einkunnina 10. Einnig er ýmislegt annað hér til sóma.

Þegar ég skrifa þetta hér í tjaldinu dettur mér í hug að nú sér rétti tíminn fyrir mig að skreppa í sundlaugina hérna á Egilsstöðum.


Áð Í HAMRABORGUM


Ég svaf tvær nætur á Egilsstöðum, fór þar í laugina og skoðaði bæinn. Þarna er lítil laug sem hefur þá sérstöðu að vera rétt við hliðina á íþróttavellinum. Ég var heppinn að geta keypt mátulegt dekk og slöngu og gat því gert við hjólið. Það var því í topplagi þegar ég fór af stað til Djúpavogs en þangað eru 142 km. Ég ætlaði að reyna að komast það í einum áfanga.

Ég var á leið upp dalinn frá Egilsstöðum og nýkominn fram hjá á sem heitir Jóka í Þórudal og ég var að hugsa hvort hér hefði búið Finnskur landsnámsmaður þegar þrjár stúlkur á stórum bíl stoppuðu hjá mér þar sem ég var að leiða hjólið upp brekku og tóku mig tali. Þær héldu fyrst að ég væri útlendingur en svo fór að þær buðu mér inn í bílinn upp á kaffi. Þetta fannst mér bráðskemmtilegt því það hafði aldrei komið fyrir mig áður. Þær voru með einn Englending með sér í bílnum og mér skildist að þær væru að sýna honum landið. Þær hétu Magga, Lísa og Þóra. Ég sat í bílnum  hjá þeim og átti fjörugar viðræður við þær.

Ég hélt svo áfram og yfir skarðið inn í Breiðdal austan við skarðið. Hitinn var við frostmark en ég slapp mátulega yfir. Skyggnið var lélegt og smá hríð efst í skarðinu þar sem byrjað var að skafa yfir veginn. Ég heyrði það í útvarpinu daginn eftir að þá hefði þurft að ryðja það.

Mér gekk vel niður dalinn meðfram þessum furðulegu fjallatindum sem eru svo einkennandi fyrir Austfirðina. Ég náði inn í Berufjörð en ekki inn í botn því stífur mótvindur hindraði för mína. Eftir um það bil 110 km frá Egilsstöðum tjaldaði ég í skjólsælli hamraborg en hélt síðan áfram daginn eftir fram hjá Djúpavogi, fyrir Hamarsfjörð og Álftafjörð. Öðru hvoru kom smá hagl en það olli mér engum vandræðum. Ég tjaldaði í annari hamraborg, svaf þar yfir nóttina, en hélt síðan áfram til Hafnar í Hornafirði. Mér fannst ég þreytast nokkuð fljótt á þessari ferð og var að hugsa um það hvernig stæði á því. Þá datt mér í hug, að sennilega væri það vegna hins lága hitastigs.

Hitinn var rétt við frostmark  allan tímann frá Egilsstöðum til Hafnar. Mér var ekki kalt enda vel búinn en reikna með því að kuldinn hafi áhrif á líkamsvinnuna.

Á Höfn var ég búinn að tjalda kl. 5:30 og hafði  áður keypt það sem mig vantaði í kaupfélaginu, sem mér til ánægju var opið, þótt annar dagur Hvítasunnu væri. Hælarnir sem halda tjaldinu eru nú af öllum gerðum: blýantar, hjólteinar, rakvél, skrúfjárn, 3 pennar og nokkrir venjulegir hælar sem urðu eftir í pokanum utan um tjaldið, en hælarnir hafa verið að smá týnast úr honum á leiðinni, og eru nú dreifðir milli Álftafjarðar og Hafnar. Einu sinni fannst mér eitthvað detta af hjólinu og heyrði málmhljóð en ég vissi ekki hvað það var. Ég svaf fram að fréttum, hlustaði á þær en settist síðan upp og ritaði þessar línur.


VATNAJÖKULL Í AUGSÝN


Ég borgaði fyrir tvær nætur á Höfn á Hornafirði, og var það í fyrsta skipti, að ég borgaði kampgjald í ferðinni um landið. Það var ekki byrjað að innheimta kampgjöld á hinum stöðunum.

Ég fór frá Höfn kl. 11 og fékk hagstæðan vind til Skaftafells. Þessi leið býður upp á ýmislegt skemmtilegt, og töluvert fjölbreytt landslag. Ánægjulegast er að sjá bóndabæi á öllum  þeim stöðum sem byggjanlegir eru. Sjórinn á aðra hönd og jökull á hina í langan tíma hefur áhrif á mann. Og þarna er fjöldi áa og eyra.

Til Skaftafells kom ég kl. 9 um kvöldið. Þar var ferðafólk og um það bil 20 tjöld. Kampurinn við Skaftafell er alveg einstakur á Íslandi fyrir gott skipulag og fullkomin þægindi. Hann er greinilega einn vinsælasti ferðastaður á Íslandi, bæði meðal Íslendinga og útlendinga. Þetta er ferðastaður sem byggir tilveru sína á fólki með tjöld, tjaldvagna og hjólhýsi. Þetta fólk dvelur lítið á hótelum og er í raun og veru gjörólíkt því fólki sem eyðir ferðum sínum á hótelum. Þegar ferðast er á milli kampa þarf ekki að skipuleggja ferð sína fram í tímann. Menn geta tekið sig upp hvenær sem er og komið í nýjan kamp hvenær sem er. Og ekki þarf að panta neitt fram í tímann. Ferðamaðurinn er laus við allar skuldbindingar sem eykur tilfinningu hans að vera frjáls og í fríi.

Ég fór frá Skaftafelli kl. 11, og það atvikaðist svo að ég greiddi ekkert fyrir nóttina sem ég var þar. Snemma um morguninn kom kona að tjaldinu að rukka kampgjaldið. Ég var ekki almennilega vaknaður og sagðist myndi koma og greiða það. „Já, á skrifstofuna“, sagði hún, og ég sagði „Já“. Það gerði ég þegar ég var að fara en þá var hún lokuð og ég gat ekki séð neina manneskju neins staðar svo ég bara fór því ég hafði ekki tíma til að bíða.

Þegar ég var kominn hálfa leiðina til Kirkjubæjarklausturs horfði ég á það, þegar verið var að hleypa kúm út í fyrsta skipti þetta vor. Það er alltaf gaman að sjá læti kúnna og gleði þegar þær fá að hreyfa sig almennilega eftir langan tíma í básnum. Mér fannst það undarlegt hvað þetta var gert seint á vorinu en ég hafði ekki séð mikið af kúm á leiðinni. Hins vegar hafði það verið ánægjulegt að sjá stoltar og glaðar ær með litlu lömbin sín mest alla ferðina. Að sjá hvað lömbin eru fljót að tileinka sér hlaup og hreyfingar eftir fæðingu vekur undrun hjá manni.

Stuttu eftir að ég hafði horft á fjörið í kúnum, skall skyndilega á mikið rok. Það varð svo hvasst, að það var erfitt að hjóla eftir veginum þegar rokið var á hlið. Varð ég að halla mér töluvert upp í vindinn en fauk oft til í vindhviðunum. En hann var að austan, svo hann var að mestu leiti í bakið á leið minni. Ég kom til Kirkjubæjarklausturs kl. 4 og ætlaði að bíða aðeins og sjá til. Ég keypti það sem mig vantaði í verzlun en settist síðan inn á greiðastað olíufélags og fékk mér kaffi og beið.

Þá hitti ég Jón Norðfjörð, sem vinnur hjá Símanum, og var að koma úr viðgerðarferð einhvers staðar fyrir austan. Hann var frægur boxari áður en box var bannað á Íslandi. Við hittumst oft á gamla Adlon í Reykjavík, sem nú heitir Prikið, og er alltaf skemmtilegt að ræða við hann. Ég hef stundum rætt um það við hann hve kjánalegt væri að banna hnefaleika á Íslandi. Það væri eins og, að Íslendingar þyrðu ekki að slást. Jón vill lítið tala um þetta mál og veit ég ekki almennilega hvar hann stendur í því. Annars hafa heyrst raddir í vor sem vilja leyfa box á ný.

Við ræddum saman, ég og Jón, um tíma en svo fór hann en ég beið lengur. Rokið hélt áfram en ekki virtist hann ætla að rigna svo um fimmleitið ákvað ég að leggja aftur af stað og sjá til. Ég ætlaði að stytta leiðina til Víkur. Ég vissi að ég gæti fundið staði á leiðinni þar sem hægt væri að tjalda í skjóli fyrir vindinum. Ef til vill næði ég til Víkur.

Mér gekk vel undan vindinum og ég virtist hafa hugsað dæmið rétt þegar allt í einu byrjaði að rigna. Ég var þá staddur í hraunbreiðunni á leiðinni þar sem erfitt var að finna skjól. Ég hafði áður fengið smá sandfok á vangann í rokinu en nú buldi regnið á mér. Ég fór í regnskikkju sem ég á en hún hlífir mér aðallega að ofan. Buxurnar urðu fljótlega votar og síðan varð ég blautur á fótunum vegna polla á veginum. Þegar ég kom út úr hraunbreiðunni, fór ég að skima eftir hentugum stað til þess að tjalda. Um tíma fann ég engan. Þá sá ég úr fjarska þar sem ær höfðu þjappað sér saman í stóran hóp og þegar ég kom nær sá ég, að þær höfðu fundið skjól í hlið,sem var innan túns. Aðeins lengra fann ég á sem bugðaðist á milli brattra hæða. Við bakka hennar voru litlir flatir vellir. Ég athugaði hvort væri skjól og þurrir staðirog reyndist svo vera. Ég náði í hjólið af veginum og tjaldaði.

Ég var orðinn ansi blautur og kaldur þegar ég kveikti á hitunartækinu inn í tjaldinu og verst var það að svefnpokinn hafði blotnað svolítið í slagviðrinu. Pokinn utan um heldur ekki vatni og ég hefði átt að hafa hann einnig í plastpoka eins og ég stundum geri þegar ég á von á rigningu. Ég breiddi þurra úlpu yfir blauta hlutann inní pokanum og það var strax skárra.

Ég skipti um sokka og buxur fór ofan í pokann og fljótlega fór mér að hlýna þótt regnið hamaðist á tjaldinu fyrir utan. Öðru hverju þarf maður að gæta að vatnsrennslinu úr þeirri hlið tjaldsins, sem snýr í vindáttina.

Ég hitaði mér mat sem ég át. Fékk mér kaffi og vindil. Hlustaði svolítið á B.B.C. og ríkisútvarpið og fór síðan að sofa. Ég sofnaði strax en dreymdi illa. Mig dreymdi að öll ætt mín væri að skamma mig og vildi ekkert með mig hafa. Þetta tengist örugglega því að fyrsta ættarmót ættarinnar var haldið að Kirkjubæjarklaustri í fyrra, þar sem ég var ekki með. Þó söng Mjöll systir mín þar lag sem ég hef samið: Megir lengi lifa, lætur óskin mín. Ég hef svo sem sjaldan verið ættrækinn og haft lítið samband við frændur mína, enda lifi ég allt öðru vísi lífi en nokkur í ætt minni.

Ég vaknaði, settist upp, athugaði vatnsleka, og fékk mér nokkrar brauðsneiðar. Eftir það svaf ég vel til morguns.

Klukkan er nú rúmlega 6 að degi og búið að rigna í allan dag, svo ég hef verið kyrr í tjaldinu. Veðurspáin lofar ekki góðu svo ég ætla að fara af stað snemma á morgun. Ég ætla að fara að minnsta kosti til Víkur í Mýrdal.

Ég ætla að nota tímann og bæta svolitlu við frásögu mína af fyrstu árum tölvutækninnar á Íslandi. Ég fór á vegum I.B.M. til Svíþjóðar og var þar á námskeiðum hjá fyrirtækinu í sambandi við kerfisfræði. Þegar ég kom til baka undirbjó ég kennslu í forritun – sem þá var aðeins kallað prógrammering – og kenndi síðan á fyrstu námskeiðunum í forritun á Íslandi.

Stuttu síðar hætti ég hjá I.B.M. og stofnaði fyrsta tölvufyrirtæki í einkaeign á Íslandi. Ég rak það í 10 ár, og hafði ánægju af því að starfa sem brautryðjandi á þessu sviði. Ég tók að mér ýmis verkefni, og skipulagði í fyrirtækjum. Fyrirtæki mitt gekk mjög vel.


SÍÐUSTU ÁFANGARNIR TIL REYKJAVÍKUR


Ég vaknaði kl. 5 um morguninn og heyrði að regnið buldi enn á tjaldinu. Ég hélt því áfram að sofa og svaf til 8:30. Þá var sólin farin að skína og rigningin hætt. Ég tók upp tjaldið og hélt af stað til Víkur. Þá sá ég að áningarstaður minn var ekki langt frá Hólmsá, sem er straumhörð jökulsá, sem á upptök sín í Torfajökli. Þetta var 19. áningarstaður minn í ferðinni.

Ég kom til Víkur um eitt leitið, en þá var kominn stífur vestanvindur og hafði ég orðið að ganga síðustu kílómetrana. Sólin skein blítt svo ég hvíldi mig í Vík og fór í sólbað í brekkunni fyrir ofan bæinn. Þaðan gat ég virt fyrir mér bæinn og umhverfið. Ekki er hægt annað en undrast yfir Dröngunum þremur, sem rísa upp úr sjónum þarna við Víkina. Ég setti á mig útlínur þeirra, þannig að ég get teiknað mynd af þeim hvenær sem er. Hið sama hef ég gert við ýmsa aðra áhugaverða staði á Íslandi, og hef skýra mynd af þeim í huga mér.

Aðeins er farið að bera á útlendum ferðamönnum og m.a. sá ég einn furðufugl sem kom arkandi inn til Víkur með bakpoka og tvo skíðastafi, sem hann gekk með. Hann fór inn í Víkurskálann, borgaði greinilega kampgjald og gekk síðan með stöfunum út í kamp. Nokkru síðar kom hann þaðan gangandi og hafði losað sig við bakpokann og allt annað nema skíðastafina. Hann gekk ennþá með þá. Ég var að velta því fyrir mér, hverju hann svaraði, þegar hann væri spurður að því, hvers vegna hann væri með skíðastafi.

Klukkan 5 hafði vindinn lægt svolítið, svo ég lagði af stað aftur eftir góða hvíld. En ferðin gekk seint og um kl. 10 var ég að ganga á móti vindinum yfir sandinn sem er undan Eyjafjallajökli frá Pétursey að Skógum. Ég var orðinn þreyttur þegar ég kom að Skógum og fór strax að leita að tjaldstað.

Þegar á rennur í gegnum veginn, oft í djúpum skorningi, með girðingar sitt hvoru megin við ána verða þar oft góð tjaldstæði í skjóli, og fyrir utan girðingar. Það er djúpt í vitund mannsins að fara ekki með tjald sitt inn fyrir girðingar og inn á eigur annara. Þó hefur það skeð tvisvar sinnum  í ferðum mínum um landið. Í báðum tilfellum hélt ég að ég væri að fara inn að eyðibýli. Fyrra skiptið var í fyrstu ferð minni um landið. Ég var að koma inn Berufjörðinn frá Breiðdalsvík, eftir að hafa farið frá Reyðarfirði eftir fjörðunum, fram hjá Stöðvarfirði, þar sem ég áði áður en ég hjólaði til Breiðdalsvíkur. Þá kom skyndilega mikið rok sem þeytti mér áfram. En þá sprakk á hjólinu í fyrsta skipti í þeirri hringferð. Þetta var seint um kvöldið og orðið skuggsýnt. Vindurinn kom í hviðum svo erfitt var að standa á fótunum. Þá sá ég gamalt íbúðarhús ásamt gripahúsum og datt mér ekki annað í hug, en að þetta væri eyðibýli. Ég ákvað þá að tjalda í skjóli við gripahúsin. Þegar ég var að ljúka við að tjalda kom skyndilega mikil vindhviða sem reif himininn yfir tjaldinu í tvennt og hótaði að rífa allt tjaldið í tætlur fyrir framan augun á mér. Ég tók það því saman í einum hvelli. Þá ákvað ég að líta á gamla íbúðarhúsið. Það var hrörlegt og allt opið. Þegar ég kom inn í það var það fullt af gömlu dóti og eitt herbergið fullt af selskinnum. Ég ákvað að sofa á selskinnunum yfir nóttina.

Snemma morguninn eftir gerði ég við hjólið og lagði aftur af stað. Þá sá ég að búið var að byggja nýtt íbúðarhús á jörðinni, sem stóð svolítið frá gamla húsinu og ég skildi, að ég hafði ekki verið á eyðijörð. Þegar ég hafði farið um einn km. var loftið að fara úr dekkinu, og ég varð að bæta aftur. Þá tók ég eftir því , að ég var búinn að týna úrinu mínu. Ég þóttist viss um það að ég hefði týnt því þegar ég svaf á selskinunum og snéri því til baka til þess að sækja það.

Þetta reyndist rétt hjá mér og ég fann úrið. Þegar ég fór frá bænum í annað sinn þá heyrði ég að hundurinn gelti í fyrsta sinn þennan morgun. Hann var inni í nýja bænum.

Þegar ég var nálægt Ásbyrgi í Þingeyrarsýslu á ferð minni til Kópaskers, byrjaði skyndilega að rigna, og ég skimaði strax eftir hentugum tjaldstað. Þá sá ég eyðibýli, sem ég hjólaði til, og tjaldaði síðan í skjóli við húsið. Ég leit inn um gluggann á húsinu, og sá að þar var geymt ýmislegt gamalt drasl. Við veginn var skilti, sem sagði að bærinn héti Lyngás.

Ég var að hita mér mat þegar ég heyrði bíl aka að húsinu og stuttu siðar heyrði ég rödd spyrja utan við tjaldið: „Hver er þar?“ Ég gerði grein fyrir því hvers vegna ég hefði tjaldað þarna og spurði síðan hvort það væri í lagi að ég væri þarna þessa nótt, „Þú verður að spyrja eigandann að því,“ sagði þá röddin.

Ég var kyrr í tjaldinu á meðan ég lauk við matinn en þá kom maðurinn aftur og ég heyrði röddina segja: „Eigandinn segir að þú megir tjalda á jörðinni en ekki við húsið.“

Ég hafði engan áhuga að tjalda á annara manna eigum og sagði því: „Segðu eigandanum, að ég þakki honum gott boð en ég ætla að fara.“ Ég tók upp tjaldið, hjólaði c.a. 2 km. Þar var ógyrtur lyngás, sem reyndist ágætur tjaldstaður, rétt við veginn. Hið furðulega var það, að ég svaf eftir allt saman í lyngási þessa nótt.

Rétt eftir að ég hafði farið fram hjá Skógum sá ég gamla rétt sem vakti áhuga minn. Hún var innan girðingar en hliðið á girðingunni var galopið. Þetta var rétt sem hlaðin var úr stóru grjóti, undir hárri fjallshlíð. Hún var óregluleg í lögun með þrjá afkima út frá aðalréttinni. Sum staðar voru björg úr hlíðinni hluti af veggjum réttarinnar og einn afkiminn var um það bil hálfum meter hærri en aðalréttin miðað við gólfið. Réttin var vel þess virði að skoða hana en þá datt mér í hug að tjalda inni í henni.

Ég tjaldaði, borðaði, fór í pokann og ætlaði að fara að sofa. En það gekk ekki vel. Það var ekki allt í lagi. Mér leið ekki vel að tjalda innan girðingar. Eðlishvötin gegn því var of sterk í mér. Þá fór ég að taka eftir undarlegum hljóðum, svona hálf draugalegum. Svo fannst mér þetta  vera andardráttur í hundi sem þreyttur andar ótt og títt. Ég leit út fyrir tjaldopið og gáði eftir hundi sem gæti verið kominn frá bóndabænum að tjaldinu án þess að gelta. Ég sá engan hund og lagðist því aftur og reyndi að gera mér grein fyrir því að þetta væru hljóð frá bjargfuglunum sem í þúsunda tali voru í fjallshlíðinni fyrir ofan réttina. Þetta voru undarleg hljóð sem ég hafði aldrei áður beint athygli minni almennilega að. Og svo hafa björgin áreiðanlega endurvarpað hljóðunum á einhvern undarlegan hátt.

Ég vaknaði snemma næsta morgun, og dreif mig af stað. Þegar ég hafði hjólað í logni meðfram Eyjafjöllum í um það bil einn tíma náði ég í útvarpið mitt, festi það á töskuna á stýrinu og stillti það á ríkisútvarpið. Þá heyrði ég að klukkan var 6:30. Ég hafði  þá vaknað kl. 5 um morguninn. Ég hef útvarpið stundum á þegar ég hjóla og meðan ég var á suðaustur hluta landsins náði ég til Færeyja og hafði mjög gaman af því að heyra færeysku. Þar var meðal annars verið að lýsa róðrakeppni með fjölda af bátum, bæði sexæringum og áttæringum. Keppnin var það fjölmenn og stór að umfangi að slíkt þekkist ekki á Íslandi. Ég sakna þess að geta ekki náð Færeyska útvarpinu í Reykjavík.

Ég kom til Hvolsvallar kl. 9 þennan sunnudagsmorgun, og var svo heppinn, að verið var að opna sölustaðinn Björk, þegar ég kom þangað. Ég keypti mér kók, lítið súkkulaði, og vindlapakka og sat smá stund yfir kókinu og hvíldi mig. Ég ætlaði að hjóla 150 km þennan dag og komast alla leið til Reykjavíkur. Það er töluverð vegalengd en þó stutt miðað við það sem ég fór í fyrstu ferð minni um Ísland. Þegar ég var þá við Djúpavog, datt mér í hug að reyna að fara í sem fæstum áföngum til Reykjavíkur. Ég lagði af stað frá Djúpavogi kl. 7 og var kominn til Hafnar á Hornafirði um hádegið. Hélt síðan áfram meðfram Vatnajökli fram í myrkur. Ég fór yfir Skeiðarárbrú í myrkri, og var það dálítið óhugnanleg reynsla, en ég mætti bíl á miðri brúnni. Þetta var í lok ágúst. Ég komst að Kálfafelli kl. 4 um nóttina og hafði þá verið hjólandi í 21 tíma. Ég svaf langt fram á næsta dag en lagði svo aftur af stað kl. 9 morguninn eftir. Eftir 18 tíma, klukkan 3 um nóttina, var ég kominn til Reykjavíkur. Ég hafði þá farið tæplega 600 km í tveimur áföngum. Þetta varð geysilega eftirminnileg ferð, en áreynslan var það mikil, að ég var heila viku að ná mér eftir hana. Ég gleymi aldrei þegar ég kom til Reykjavíkur kl. 3 um nóttina og hjólaði inn á gamla  mjúka malbikið á Suðurlandsbrautinni.

Mér verður oft hugsað til þessarar ferðar, þegar ég dauðþreyttur er að ljúka við t.d. 100 km leið. Það er hægt að leggja ansi mikið á sig, ef viljinn er fyrir hendi.

Björgvin Hólm



Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011 í styttri útgáfu.