Ég fór með fjölskyldunni til bæjarins Denia í sumar sem liggur u.þ.b. miðja vegu á milli Alicante og Valencia. Þar sem mér leiðist að liggja í sólbaði ákvað ég að skoða hvort ekki væri hægt að leigja reiðhjól á staðnum og fara í hjólatúra um fjöllin. Fyrir þá sem ekki vita hentar Spánn frábærlega til hjólreiða enda hafa ófáir Tour de France sigurvegararnir komið þaðan.
Stutt google-leit áður en ég flaug út beindi mér inn á síðuna www.bicitours.nl . Bicitours er rekið af Hollendingnum Jan Evelder sem ákvað að yfirgefa rigninguna í heimalandinu og flutti til Spánar fyrir um sjö árum síðan. Hann hefur verið ötull að kanna svæðið á reiðhjóli og þekkir orðið hvern einasta stíg og vegarslóða á svæðinu. Jan er mikill hjólagarpur og hefur m.a. hjólað þvert yfir Bandaríkin og í SA-Asíu. Eins og fyrr sagi ákvað hann að hætta baslinu í Hollandi og vinna á Spáni við áhugamálið – hjólreiðar.
Ég hafði samband við Jan áður en ég lagði af stað til að athuga með möguleika á að leigja mr fjallahjól og spurði hann einnig hvort hann gæti hjálpað mér að finna einhvern til að hjóla með sem þekkti helstu leiðirnar. Daginn eftir fékk ég tölvupóst þar sem hann sagði mér bara að hringja í sig þegar ég væri kominn til Denia og að hann myndi redda þessu. Ekkert vesen.
Ég hringdi svo í Jan þegar komið var á áfangastað og við mæltum okkur mót daginn eftir. Þegar við hittumst var hann með fínan hjólhest tilbúinn handa mér og eftir að hafa gengið frá formsatriðum fékk ég gripinn afhentan í viku leigu.
Við ákváðum svo að hittast snemma morguns daginn eftir svo ekki yrði orðið of heitt til að hjóla. Það var enn þá hálfdimmt þegar ég vaknaði um morguninn. Eftir góðan morgunmat og með tvo fulla vatnsbrúsa lagði ég af stað að hitta Jan. Það var orðið fullbjart þegar við lögðum af stað og þótt það hafi verið hálfsvalt um morguninn byrjaði fljótt að hitna.
Í upphafi hjóluðum við eftir sléttu malbiki sem hlykkjaðist upp í hæðirnar. Eftir um 10 km benti Jan mér á elta sig, beygði út af veginum og á milli þyrnóttra runna inn á grófan vegslóða sem lá yfir uppþornaðan stórgrýttan árfarveg.
Mér leist ekkert á blikuna í fyrstu og ætlaði að teyma hjólið yfir torfæruna en þar sem Hollendingurinn var ekkert að slá af lét ég bara vaða og fylgdi honum eftir. Það sem á eftir kom var misgróft en ákaflega skemmtilegt. Við fylgdum svo árfarveginum meira eða minna meðfram ökrum, geitahjörðum, geltandi hundum og veifandi smölunum sem sátu yfir geitunum þar til við komum að þorpinu Jalón. Þar stoppuðum við ekki, heldur héldum beint áfram í gegnum þorpið og stefndum á hlíðarnar fyrir ofan með ótrúlegu útsýni. Vínberin eru byrjuð að þroskast í ágúst og stoppuðum við til að tína ofan í okkur nokkur ber áður en við héldum áfram. Eftir góðan spotta komum við aftur niður í þorpið þar sem við stoppuðum og fengum okkur kaffibolla og hressingu. Að því loknu héldum við áfram í gegnum vínekrurnar.
Þegar við vorum komnir langleiðina aftur á malbikið spurðu Jan mig hvort ég væri þreyttur eða hvort ég vildi taka viðbótarhring en við höfðum þá hjólað um 35-40 km. Að sjálfsögðu sagðist ég ekki finna fyrir þreytu. Úr varð að stuttu seinna yfirgáfum við aftur umferðargötuna. Leiðin lá því næst milli skuggsælla trjáa upp lúmskt tæknilegan slóða, upp nokkuð bratta brekku að gömlu munkaklaustri. Eftir að hafa varpað aðeins öndinni í skugganum við klaustrið og góðan vatnssopa (en það var orðið ansi heitt) héldum við áfram. Næst tók við bugðóttur og holóttur slóði niður í móti sem greinilega var eitthvað búið að eiga við, því hér og þar höfðu staðkunnugir smíðað stökkpalla og víða voru för eftir reiðhjól. Við brunuðum eftir slóðanum eins hratt og við þorðum á hardtailunum okkar. Slóðinn var lengri en ég átti von á og þegar við vorum komnir á enda voru hnéin á mér orðin ansi mjúk. Leiðin lá síðan aftur eftir vínekrum í gegnum smáþorp með skrautlegum nöfnum eins og Pobre Jesus (Jesús hinn fátæki) þar til við loks komumst aftur á upphafsstað 70 km seinna og allmörgum lítrum af svita léttari.
Þar sem þetta átti að heita nettur kynningartúr var ég spenntur að sjá hvað næsta ferð hefði upp á að bjóða.
Alls fórum við fjórar ferðir saman um nágrennið og má segja að hver ferð hafi verið annarri betri. Náttúran er stórkostleg og útsýnið af fjallstoppunum eru frábær verðlaun fyrir puðið við að hjóla upp.
Menn ættu endilega að athuga með reiðhjólaleigur næst þegar ferðinni er heitið á sólarströnd og kynnast landinu á þann hátt sem eingöngu hjólreiðar bjóða upp á.