Ákveðið var að hefja ferðalagið við Hreðavatnsskála. Í fyrstu morgunskímu mættum við fráneygðir bak við dökk sólgleraugu, snöggklipptir og vígalegir á mjög klifjuðum fákum niður á BSÍ. Í rútunni veltum við fyrir okkur þessu ferðalagi sem var rétt í þann mund að hefjast og ekki var laust við að nokkurrar spennu og eftirvæntingar gætti.

Í Bröttubrekku

Veðurspáin lofaði ekki góðu sem ekki er sjaldgæft. Eftir að stigið var út úr rútunni i Norðurárdal hófumst við handa við viðgerðir sem áttu eftir að verða vort daglega brauð. Þessi fyrsta viðgerð ferðarinnar tók skamma stund og vel fyrir hádegi vorum við á leið yfir Bröttubrekku. Eins og nafnið gefur til kynna er brekka sú bæði brött og löng. Þar urðum við verulega varir við þyngdarlögmálið, því að hjólin vógu nú með öllum útbúnaði um og yfir 40 kíló. Eftir mikið puð og púi var toppnum náð. Sælan var mikil og brekkan niður í Dalina vakti mikinn fögnuð meðal viðstaddra. Segir ekki af för okkar fyrr en komið var í Búðardal. Þegar þangað var komið var starfsemi söluskálans könnuð og kort skoðuð yfir kaffi og kleinum. Víð höfðum lagt að bakí u.þ.b. 50 km á skömmum tíma og ákváðum við því að hætta ekki fyrr en í Ólafsdal við Gilsfjörð. Þessi ákvörðun var tekin í blússandi meðbyr, en skjótt skipast veður í lofti og þegar lagt var á Svínadalinn rigndi eins og hellt væri úr fötu og víndátt reyndist margbreytileg, Á leið niður úr Svíndalnum fengum víð mikla og snarpa vindkviðu í bakið sem skilaði okkur á tæplega 80 km hraða niður á láglendi. Eftir að Saurbæ í mynni Gilsfjarðar sleppti gerði hið mesta gerningaveður. Þar upplifðum við að hægt er að fljúga langar leiðir, afturábak og út á hlið á fullklyfjuðum fjallahjólum. Þegar í skjól var komið í Ólafsdal var risið lágt á hetjunum hugrökku. Holdvotir og hraktir en sælir eftir afrek dagsins hengdum við plögg okkar og pinkla til þerris og tókum vel til matar okkar fyrir svefninn.

Úr Ólafsdal

Þegar risið var úr rekkju skein sól í heiði. Vindurinn gnauðaði í húsinu svo að okkur lá ekki á að þeysa af stað. Við sleiktum sár okkar, reyndum að liðka liðamót og nýttum vindinn til þurrkunar. Um fjögurleitið yfirgáfum við þennan sögulega og fallega stað sem býr yfir mikilli dulúð. Enn eitt "rokgjarnt" ævintýrið beið handan við næsta ás. Slóðin upp á Steinadalsheiði liggur upp brattar hlíðar og þrönga gilskorninga í botni Gilsfjarðar. Vegurinn hafði ekki verið heflaður frá árinu áður og var því mjög grýttur og sundurskorinn af tugum smárra lækjarspræna sem áttu upptök sín í ört minnkandi fönnum á heiðinni. Mikill meðvindur hjálpaði okkur upp brekkurnar þannig að tími gafst til náttúruskoðunar og hugleiðinga um einstaka fegurð landsins. Þegar upp á heiðina var komið tók að kárna gamanið því að litlu lækirnir urðu að straumhörðum ám og vindurinn varð að roki þannig að vart var hægt að halda uppi samræðum. Ekki var viðlit að hjóla niður í Steinadalinn og lætin voru þvílík að afturbarði á hjóli Jóns hreinlega rifnaði undan hjólinu. A sama tíma fór Þórður margar kollsteypur og endaði verulega vankaður langt fyrir utan veg og ekki er ljóst hvort hann hefur náð sér að fullu, Nú voru góð ráð dýr en hetjurnar bitu á jaxlinn og hófu viðgerð í 12 vindstigum og tókst með undraverðum hætti að bæta hjólbarða í skjóli við hundaþúfu. Eftir margra stunda baráttu var Kollafjörður í augsýn og þar færðist ástandið aftur í eðlilegt horf. Undir skjólgóðum álfakletti í mynni Bitrufjarðar slógum við vindbarðir og vesældarlegir upp tjöldum. Á þessu kvöldi í seinni hluta júní fylgdumst við með miðnætursólinni út við sjóndeildarhringinn, nutum umhverfisins sem var að vakna til lífsins og öldugjálfrið var ljúft undirspil við þessa fögru mynd.

Á Steinadalsheiði

Þriðji dagur ferðarinnar hófst á skoðun farartækja en ýmislegt hafði gefið sig í átökum gærdagsins. Böggaberi var brotinn og var honum klambrað saman. Eins var afturgjörð verulega skökk en Jón,sem gaf sig út fyrir að vera vel að sér í uppbyggingu gjarða, tók að sér að laga þessa smámuni. Það varð til þess að gjörðin breyttist með undraverðum hraða í hinn myndarlegasta hringvinkil, hlykkjóttan og skáldaðann.
Ferðin inn Hrútafjörð var tíðindalítil og gekk mjög vel. Við komum síðla kvölds að Staðarskála á þessum lengsta degi ársins. Við nutum kvöldsins við árbakka ásamt heilu hrossastóði Hrútfirðinga sem inniheldur með eindæmum forvitna einstaklinga.

Við hófum fjórða dag þessarar ferðar með samsetningu hjóla sem leiga átti ferðalöngum. Að samsetningu lokinni var okkur veittur mikill og góður viðgjörningur sem lengi verður í minnum hafður. Nú skildi haldið að Brekkulæk í Miðfirði en ábúandinn þar, Arinbjörn Jóhannsson á veg og vanda að skipulagningu hjólreiðaferða sem þessi ferð var undirbúningur að. Leiðin lá yfir Hrútafjarðarhálsinn sem er að hluta nokkuð torfær en mjög skemmtilegur sem hjólaleið. Skökk gjörð lagast ekki sjáifkrafa og á miðjum hálsinum versnaði staðan því að tilhneiging afturbarðans til að snúast minnkaði jafnt og þétt þar til að eitthvað varð að gera. Eftir miklar vangaveltur og notkunnar á stærðfræðilegu innsæi tókst að greina teiningu gjarðarinnar. Einbeitingin var þvílík að ekki var mælt orð í langan tíma. Málshátturinn "Neyðin kennir naktri konu að spinna" átti vel við þarna á hálsinum.

Hrútafjarðarháls

Á Brekkulæk fengum við höfðinglegar móttökur þar sem matur var fram borinn og langþráð sturta beið okkar. Þetta var fyrsta sturtan síðan í Reykjavík og vorum við eflaust verst lyktandi menn í    allri Húnavatnssýslu.

Eftir mikil þrif stigum við fram sem Afródíta úr löðrinu. Við sem Íslendingar urðum að sýna okkar betri hliðar því samtímis okkur var hópur erlendra ferðamanna á Brekkulæk sem var vart kominn yfir hafið í leit að óþef. Nú tóku við náðugir dagar, samsetning 12 reiðhjóla, stuttar skoðunarferðir og almenn "sósélering". Einnig aðstoðuðum við Brekkulækjarbóndann með fóðurgjafir í fáka Þýðverskra ferðalanga. Þá brá bliku á loft því áður en nokkur vissi hvaðan á sig stóð veðrið, fór að snjóa eins og um hávetur væri, Urðum við að endurskoða áætlun okkar um að halda áfram yfir Kjöl. Og björgunin kom í formi ferjuflutninga á farartæki einu miklu til Húsafells. Suður yfir heiðar ókum við í hríðarkófi og þegar þangað kom lá snjór niður fyrir miðjar hlíðar. Gistum við í kofa gönguhóps frá Brekkulæk og nutum gestristni þeirra til brottfarar daginn eftir. Ætlunin var að fara um 100 km. leið til Akraness og ná þar síðustu ferju til Reykjavíkur. Nú var allt sett á fullt og hjólað og hjólað eins og hver sem betur gat. Tíminn styttist óðum og svo kom að við afleggjarann að Akranesi sáum við fram á að ekki næðist i ferjuna í tæka tíð. 15 km. eftir og hálftími i brottför Akraborgar, en þrekið var einnig þrotið og því lögðumst við örmagna í vegarkantinn og sofnuðum þegar. Einni klukkustund síðar vöknuðum við til lífsins, stirðir og kaldir og biðum skjálfandi eftir næstu rútu í bæinn. Þegar þangað var komið skelltum við okkur á næstu ölstofu og kneifuðum sitt hvora ölkrúsina. Eftir þessa viðburðarríku en fremur stuttu ferð var ekki hjá því komist að taka eftir fyrringunni og hraðanum í stórborginni. Því biðum við í ofvæni eftir að geta lagt aftur af stað á vit nýrra ævintýra.
 

Jón Örn og Þórður.
Birtist fyrst í Hjólhestinum maí 1993.