Sesselja fararstjóri tók á móti okkur við Árbæjarsafn og deildi út gulum vestum. Betra að vera vel sýnilegur þegar skammdegið færist yfir. Við fengum líka að vita að við værum á leið upp í Bláfjöll með viðkomu í Heiðmörk og Lækjarbotnum. Heiðmörkin er alltaf falleg, sérstaklega á haustin. Framan af hjóluðum við á auðveldum malbikuðum stígum, síðan eftir malarstígum Heiðmerkurinnar en gamanið kárnaði í Lækjarbotnum. Hjólafær stígur átti að vera yfir í Waldorfskólann en hann fundum við ekki. Við teymdum því hjólin yfir mela, móa og nokkrar lækjarsprænur, síðan tók við torfær stígur sem var æði tættur eftir mótorhjól. Við áðum svo við nýlegt minnismerki, súlu með ljósi efst, og klifruðum upp í nærliggjandi kletta þar sem Sesselja fann þetta líka fína einkatjaldstæði, eins og arnarhreiður uppi í klettunum.
Veðrið var gott framan af, 15 stiga hiti en svolítill úði. Varla hægt að óska sér betra veðurs á þessum árstíma. Eitthvað var náttúran í sérkennilegu formi því við höfðum aldrei séð jafn lítið vatn í Elliðaárstíflu og í ánum á leiðinni voru stórar laxatorfur á sveimi. Þegar við komum á Bláfjallaafleggjarann brast hins vegar á dæmigert íslenskt haustveður, rok og rigning. Auðvitað vorum við að hjóla upp í mót og með vindinn í fangið. En það var bara gaman að takast á við náttúruöflin og fá roða í kinnarnar og finna rass- og lærvöðvana styrkjast vitandi það að skálinn var aðeins í 3-5 km fjarlægð. Hópurinn hafði haldist nokkuð þéttur en nú teygðist á honum, sprækustu garparnir stormuðu á undan (ég þar á meðal) en við áttum í erfiðleikum með að finna skálann. Við sáum glitta í hvítt hús uppi í hlíð og annað brúnt aðeins lengra. Við hjóluðum fram og til baka, upp og niður brekkur í leit að rétta skálanum.
Skíðaskáli Fram reyndist svo vera ljómandi huggulegur skáli með góðri eldunaraðstöðu, tveimur sturtum, stóru og góðu svefnloft ásamt tveimur litlum herbergjum. Ég bauðst til að taka annað einkaherbergið, verandi annáluð hrotudrottning og var því boði tekið fegins hendi af samferðafólkinu. Þegar fólk hafði farið í sturtu og gírað sig aðeins niður yfir bjór hófst eldamennskan. Magnús Bergs og Árni gerðust grillmeistarar, Magnús Þór tók að sér sveppina og sósuna. Ég skar niður salatið, Sesselja kryddaði og undirbjó kjötið fyrir grillið, hinir lögðu á borð og gerðu salinn huggulegan. Þetta var eins og hjá stórri samheldinni fjölskyldu. Síðan snæddum við herlegheitin sem smökkuðust gríðarlega vel, skildum þó nokkra vel valda bita eftir handa Morten sem var væntanlegur í hús á milli kl. 21 og 22. Sumir lögðu seint af stað en komu þó.
Eftir matinn fengum við kaffi og konfekt en svo fóru menn að ókyrrast þegar leið á kvöldið. Loks ákvað Magnús að fara út og leita að Morten. Hálftíma seinna vorum við, sem eftir vorum í skálanum, farin að efast um ágæti þess að senda Magnús einan út að leita. Ef ræsa þyrfti út björgunarsveit þyrfti að leita að tveimur stökum mönnum í myrkrinu í Bláfjöllum. Fljótlega sáust þó tvær týrur í fjarska sem færðust í átt að skálanum. Íþróttafélögin mættu gjarnan setja upp vegvísa heim að skálunum. Skálinn sást ekki frá veginum í myrkri, þoku og rigningu, þrátt fyrir að hann væri uppljómaður.
Menn voru misþreyttir eftir daginn, sumir fóru í háttinn klukkan 10, aðrir vöktu fram eftir við að ræða landsins gagn og nauðsynjar, segja ferðasögur, ræða fjarlæg lönd, dagskrána framundan hjá Fjallahjólaklúbbnum, hjólagræjur og hvaðeina. Ég er ægileg prinsessa þegar kemur að svefnvenjum, þarf helst að sofa á hvítu laki og hafa blómamynstur á koddum og sæng. Það er langt síðan ég svaf síðast í svefnpoka og átti von á að nóttin yrði erfið. En merkilegt nokk, ég sofnaði kl. 1 og rumskaði ekki fyrr en kl. 10 næsta morgun. Þá var ég handviss um að klukkan mín væri biluð og hefði stoppað kvöldið áður. En ilmurinn af ný löguðum hafragraut lagði inn til mín og nokkuð ljóst að ég var búin að sofa óslitið í níu tíma. Það sem fjallaloftið gerir manni gott. Einhvern tíma verður allt fyrst og í Fram-skálanum í Bláfjöllum smakkaði ég hafragraut með rúsínum og kanilsykri í fyrsta sinn – og hann bragðaðist bara ljómandi vel.
Veðrið hafði ekkert skánað frá deginum áður og var meira að segja ívið blautara. En við vorum með vindinn í bakið og fukum til Hafnarfjarðar á mettíma. Hitinn var áfram u.þ.b. 15 stig svo okkur varð ekkert kalt þótt við værum svolítið blaut. Við áðum hjá fallegum hraundröngum og lukum við nestið og konfektið frá kvöldinu áður. Nýju hjólabuxurnar mínar reyndust vera vatnsheldar eins og framleiðandinn lofaði en regnvatnið hafði runnið niður eftir þeim og bókstaflega fyllt skóna mína.
Eftir nestispásuna hófst leitin að góðri hjólaleið frá Hafnarfirði að Garðabæ. Ekki var hún auðfundin en fannst þó að lokum eftir svolitla leit í iðnaðarhverfinu. Ó, hve það var þægilegt að skríða upp í sófa með teppi, heitt kakó og góða bók þegar ég kom heim úr þessari líka ánægjulegu hjólaferð.
Smellið hér eða á myndirnar til að sá allar myndir Sesselju úr ferðinni.
Lesið blog Hrannar um ferðina og fleira: http://hrannsa.blog.is/blog/hrannsa/entry/949954/
Hér er myndband Hrannar úr ferðinni: http://www.youtube.com/watch?v=6L8BJdCVazU