Fyrst var farið í gegn um Elliðaárdal og við stífluna hittum við Fjölni formann og fleiri hjólakappa, þar á meðal unga stúlku. Annars hefði ég verið eini kvenmaðurinn í hópnum. Dekkið hjá mér var orðið pínu lint að aftan, og þegar ég ætlaði að pumpa í það reyndist pumpan mín brotin. Þá er nú ekki ónýtt að vera á ferð með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum, áður en ég vissi hvaðan á mig stóð veðrið var búið að rétta fram nokkrar pumpur, og svo skiptust kapparnir á að pumpa í dekkið.
Leiðin lá áfram upp Elliðadalinn og tók okkur að gruna að Heiðmörkin væri líklegur áfangastaður, en á leiðinni rákumst við á vað sem strákarnir í ferðinni þurftu endilega að skoða nánar. Raunar var það Árni, einn af heldri hjólamönnunum sem fór fyrstur yfir ána, eftir það gátu unglingspiltarnir ekki verið látið fréttast að þeir hefðu ekki farið yfir. Það var því mis-blautur hópur sem hjólaði inn í fallegt rjóður í Heiðmörkinni. Þar töfraði Fjölnir formaður upp úr bakpoka sínum hvern hitabrúsann á fætur öðrum, kakó, kanilsnúða, kex, kleinur og marglitt M&M. Varð úr hið myndarlegasta hlaðborð sem við gæddum okkur á fram eftir kvöldi. Síðan var hjólað eftir mjóum stígum Heiðmerkur, í gegn um kjarr, blóma- og lúpínubreiður. Fram hjá Elliðavatni og aftur í gegn um Elliðaárdalinn.
Ég var endurnærð á sál og líkama eftir yndislega kvöldferð með Fjallahjólaklúbbnum. Ég var með á hópmyndinni, ég stend bara aðeins fyrir utan rammann. Það var tekið vídeó í ferðinni, það er að finna á youtube.com í tveimur bútum: http://www.youtube.com/watch?v=rJGqz4gyZ2E og http://www.youtube.com/watch?v=2ZBeHvNOOZY
Bestu kveðjur,
Hrönn
p align="center">
Kíkið á fleiri vídeó frá Hjóla Hrönn á YouTube og lesið bloggið hennar hér: http://hrannsa.blog.is/blog/hrannsa/