Næsta skipti var ekki beint planað. Yngri sonur minn fór með sínum vinum að gosinu og áttaði sig á því við gosstöðvarnar að lyklarnir að bílnum voru týndir, svo hann hringdi í eldri bróður sinn og bað hann að skutlast með auka lykla til sín á bílastæðið við Nátthaga. Ég spurði frumburðinn hvort hann vildi ekki bara nýta ferðina og hjóla með mér upp að eldgosinu. Við hjóluðum um nóttina og vorum enga stund að því, enda fáir á ferli. Lykillinn fannst að lokum, í svissinum á bílnum. Nú hafði runnið mikið hraun og því ekki hægt að komast nálægt gígnum. Sáum hann í fjarska, það vantaði að finna hitann og lyktina.
Þriðja ferðin var með nokkrum félögum úr Fjallahjólaklúbbnum. Í þetta sinn var okkur vísað af björgunarsveitarfólki yfir að felli á hægri hönd, það væri nefnilega mikil gasmengun niðri við hraunjaðarinn. Þaðan var ágætt útsýni yfir að gígnum og hraunánni sem rann frá honum.
Í fjórða sinn sem ég fór að eldgosinu fór ég vinstra megin við Geldingadali. Þaðan lá vel hjólanlegur stígur alveg að Litla-Hrút og þaðan var gríðarlega fallegt útsýni yfir gossvæðið. Á báðum leiðunum þurfti ég að deila stígnum með mýgrút af gangandi fólki sem gekk þó merkilega vel. Tillitssemi á báða bóga. Það er það sem virkar.
Ég hefði kannski ekki farið svona ört að gosinu ef það hefði ekki verið brakandi blíða í byrjun ágúst og því upplagt að nýta daginn til útivistar. Í fjórða sinn fór ég stíg sem sést ekki á loftmyndum, hann hlýtur að hafa verið búinn til á síðustu 2-3 árum, en hann var notaður af fjölmiðlum, ég var oft að íhuga hvers vegna það væru svona flottar senur í sjónvarpinu en ekki þegar við komum ríkisleiðina sem yfirvöld beindu okkur að. Litli-Hrútur var raunar á hættusvæði, svo skiljanlega var ekki hægt að leiðbeina fólki þangað opinberlega. Það voru engir gangandi á þessari leið, sem var töluvert lengri en aðrar leiðir að gosinu, en ég mætti ca 15 á reiðhjólum.
Grindavík var rýmd 10. nóvember eftir harða jarðskjálftahrinu. Fyrst um sinn var Grindavík lokuð, en svo var farið að hleypa fólki inn til að sækja nauðsynjar og verðmæti. 22. nóvember var fjölmiðlafólki veittur aðgangur. Daginn eftir sat ég með kaffibollan og las fréttirnar og horfði á fullt af fólki standa sitt hvoru megin við aðalsprunguna í bænum. Bíddu... er ekki Fjallahjólakklúbburinn fjölmiðill? Jú, þú ert að lesa um Reykjaneseldana í tímaritinu okkar. Við erum með útgáfu á prenti, heimasíðu, Facebook síðu og Facebook umræðuhóp þar sem fólk getur spjallað um hvaðeina tengt hjólreiðum.
Svo ég ákvað að nýta afar fallegan vetrardag og hjóla til Grindavíkur frá Ásbrú. Tilgangur ferðarinnar var líka að skoða fell og slóða á vestanverðu Reykjanesi ef það skyldi koma eldgos nálægt Svartsengi. Hvert gætum við hjólað til að verða vitni að ægikröftum náttúrunnar. Í öruggri fjarlægð. Nú veit ég hvert á ekki að hjóla, því ég skipti um stíg sem var auðveldari, en við það fjarlægðist ég Grindavík. Ég endaði á að stytta mér leið yfir hraunið og kom að girðingu sem liggur utan um fjarskiptamiðstöðina. Á loftkortum eru teiknaðir gönguslóðar sem ég taldi vel hjólanlega, og þeir voru það, en gallinn er að þeir eru innan við girðinguna. Það sem átti að taka 5 mínútur á hjóli tók 3 tíma við erfiðar aðstæður, en það er á köflum bara 20 cm brík meðfram girðingunni. 3-4 metrum fyrir neðan var svo stórgrýtt og sprungið hraun. Þetta sá ég ekki fyrir og þess vegna var ég allt of sein inn í Grindavík til að spóka mig í hópi annars fjölmiðlafólks. En úr því ég var komin til Grindavíkur hjólaði ég niður að aðal sprungunni og tók mynd. Í öruggri fjarlægð. Svo hjólaði ég Nesveg til baka.
18. desember hófst fjórða eldgosið á Reykjanesi við Sýlingarfell. En það stóð bara í rúma 2 sólarhringa og því náði ég ekki að fara að sjá það. Og þegar fimmta eldgosið hófst og hrauntungur sóttu inn í bæinn, þótti mér réttast að sitja heima og leyfa viðbragðsaðilum að meta stöðuna, vinna að varnargörðum og bjarga verðmætum.
Í nóvember teiknaði ég leiðarvísi að hjólaferð um Grindavík og Hópsnes sem verður farin með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum um leið og sundlaugin opnar og hægt að fá sér hamborgara á sjoppunni í bænum. Ljóst að það verður ekki af þeim hjólatúr á þessu ári eftir nýja jarðskjálftahrinu og eldgos innan varnargarða alveg við bæinn. En kannski 2025. Hver veit.