Þegar ég tók við félagatalinu árið 2011 hóf ég að hjóla með umslagið þegar nýr félagsmaður gekk í klúbbinn. Úr því ég var búin að klæða mig í útiföt og á leiðinni út á pósthús, þá gat ég alveg hjólað 10 aukamínútur og borið út sjálf.
Oft var það götuheitið sem vakti forvitni mína. Hvar er Mjóahlíð og hversu mjó er hún? Já, Mjóahlíð er með mjóstu götum í Reykjavík. Haðarstígur og Válastígur í Þingholtunum eru þó þrengri. Mér finnst alltaf gaman að hjóla þessar götur þegar ég á erindi í miðbæinn.
Eitt sinn gerði ég mikla leit að húsi nr 88. Fann vissulega hús númer 86 en það var á horni götunnar og því virtist mér sem heimilisfang væri ranglega skráð í þjóðskrá. En þegar ég fletti viðkomandi upp, þá bjó hann í 8b. Átta bjé.
Það hlaut að vera. Grafarvogur er skemmtilegur því þar eru margir stígar sem liggja í hlykkjum á milli umferðargatna. Ég nota mikið götukortið á ja.is til að finna nýjar hjólaleiðir. Og núna er meira að segja hægt að fá aðstoð við val á hjólaleiðum á vefnum. Þ.e. hægt að velja fararmáta, bíl, reiðhjól eða gangandi. Vel gert.
Einn fallegasta bakgarð borgarinnar fann ég þegar ég var að stytta mér leið. Og fékk meira að segja hina fríðustu fyrirsætu í kaupbæti. Það að vera umsjónaraðili félagatals Fjallahjólaklúbbsins hefur kennt mér að rata um borgina og veitt mér ómældar ánægjustundir.
Einu sinni á ári eru félagsskírteini endurnýjuð og þá þarf að bera út um 500 umslög. Við höfum hóað í pizzuveislu, hjálpast að við að pakka Hjólhestinum ofan í umslög, blaði með póstáritun og skírteinum þeirra sem hafa þá þegar greitt árgjaldið. Svo höfum við nokkur tekið einn eða fleiri bunka og borið út gangandi eða hjólandi. Í fyrra var meira að segja farið upp á Akranes og borin út þar 7 umslög til félagsmanna sem þar búa. Góð dagsferð á hjóli, kíkt í bakarí og í sund.
27. mars í fyrra hjólaði ég með Hjólhest og félagsskírteini fyrir síðustu 15 aðilana. Það varð 25 km hressandi útivera sem spannaði góðan hluta höfuðborgarinnar og nágrannasveitarfélagsins, Seltjarnarness.
Það eru góðar líkur á því, lesandi góður að þessi Hjólhestur hafi komið hjólandi heim til þín, í fylgd eins af félagsmönnum Fjallahjólaklúbbsins.
Svipmyndir frá útburðinum 2022:
© Birtist í Hjólhestinum mars 2023