Ég missti af gosinu í Eyjafjallajökli. Var þá með lítil börn og ekki í nógu góðu formi til að geta gengið upp að jöklinum. Ég ætlaði sko ekki að missa af þessu gosi. Lagðist yfir kort til að meta hvort ég gæti hjólað áleiðis, en ég hef ekki getu í 15-20 km göngu. Er kannski bannað að fara að gosinu? En þegar vefmyndavélar fóru í loftið seinnipartinn, sá ég að það var fullt af fólki við gosið. Svo ég snaraði hjólinu upp á bíl og ók að Grindavík. Þaðan hjólaði ég Suðurstandaveg, niður að Nátthaga, inn eftir dalnum og dröslaði hjólinu alla leið upp á Borgarfjall. Hélt að þar væri gosið og ég myndi ná góðri mynd af mér á reiðhjóli með gosið í baksýn. Nei, úps, vitlaust fjall, ég þurfti niður brekku og upp aðra, snarbratta. Ég hefði aldrei getað dröslað hjólinu upp þá brekku, svo ég skildi við það á Borgarfjalli. Sem betur fer, því það var komið myrkur þegar ég kom loksins að gosinu, 45 mínútum síðar. Ég hefði eytt óþarfa orku í að taka hjólið með upp síðustu brekkuna og ekkert sjálfs-myndafæri.
Þegar ég kom aftur niður á Suðurstrandarveg og hjólaði fram hjá fólki sem átti eftir að ganga 5 km inn að Grindavík, þá heyrði ég öfundardæs hægri vinstri. „Get ég fengið far?“ kallaði ung stúlka. Ég held að það hafi verið í fullri alvöru, enda var hún þá búin að ganga 15 km í erfiðu landslagi og síðustu 5 km urðu mörgum ofviða. Þá var gott að vita af Björgunarsveitarfólki sem stóð pliktina og aðstoðaði slasaða og örmagna, alla þá 5 mánuði sem gosið stóð.
Að sitja í 10 metra fjarlægð frá eldspúandi gíg verður ekki lýst með orðum. Stórkostlegt. Svo magnað að nokkrum dögum síðar fór ég aftur, og þá með nokkrum félögum úr Fjallahjólaklúbbnum. Enda búin að finna auðveldari leið sem var á færi flestra sem vildu fara upp að gosinu. Ég lá yfir veðurspánni og ákvað að flýta ferðinni um nokkra klukkutíma, það spáði snjókomu seinnipartinn. Við vorum í bongóblíðu og Þjóðhátíðarveðri í Geldingadal. Náðum niður og meira að segja góðri nestispásu áður en hríðin skall á. Alls fór ég 9 sinnum að eldstöðvunum, fór nýja leið í hvert sinn. Í annað sinn með Fjallahjólaklúbbnum, þá fórum við hjólandi frá Grindavík, slóða upp frá bænum og skoðuðum landslagið á leiðinni í leiðinni. Þá var hraun nýrunnið í Nátthaga og fossinn niður úr Meradölum var hvílíkt augnakonfekt. Gígurinn hafði þá stækkað verulega og dagurinn einstök upplifun.
Mig grunar raunar að þyrlan hafi verið ræst út einu sinni vegna mín. Ég fór þá hjólandi meðfram Langahrygg að Meradölum, skildi hjólið eftir þar og gekk yfir að Stóra-Hrút. Hélt að ég myndi sjá hraunrennslið úr gígnum þaðan, en nei, bara svart hraun eins langt og augað eygði. Svo gekk ég til baka að hjólinu. Það var töluverð umferð af þyrlum og flugvélum og mig grunar að einhver þeirra hafi sent tilkynningu, að það væri einhver rammvilltur að ganga frá gosstöðvunum í átt að Höskuldarvöllum, ekki bílastæðunum. Ég kem að hjólinu og ákveð að halda áfram för minni austur fyrir gosstöðvarnar, eins langt og slóðinn náði. Hjóla fram hjá Björgunarsveitarbíl sem var kominn að Meradölum, en þar var engin umferð gangandi, svo ég var að furða mig á veru þeirra þar. Kemur ekki þyrla landhelgisgæslunnar alveg að mér og stoppar í loftinu í 50 metra fjarlægð. Ég gat rétt ímyndað mér samskiptin: „Stjórnstöð, var konan í gulu vesti? Já, hún er fundin, hættu aflýst, þetta er bara hún Hjóla-Hrönn. Hún bjargar sér.“
Hrönn Harðardóttir
Myndir úr fyrstu ferðinni 24 mars 2021 má sjá hér ásamt myndbandi: Eldgos í Geldingadölum
Fyrir neðan eru myndir úr ferðinni 24 maí 2021. Myndir Hrönn Harðardóttir og Auður Jóhannsdóttir.
© Birtist í Hjólhestinum mars 2022.