Að þessu sinni fór 7 manna hópur til Þýskalands. Hjólað var frá Trier sem er rétt við landamærin við Luxemburg, niður með ánni Mósel til Koblenz þar sem hún rennur í Rín. Þessi leið er augljós kostur til hjólreiða enda liggur hún að öllu leiti niður í móti niður með ánni Mósel. Frábærir hjólastígar eru báðu megin við ánna og víða brýr svo auðvelt er að velja hvorn bakkann sem er. Sumstaðar eru reyndar hjólareinar með akvegum og hjólastígarnir blandast gjarnan bílaumferð í þorpunum. Umferð er hvergi vandamál enda eru þýskir bílstjórar vanir hjólreiðafólki og eru mjög tillitssamir. Áður hafði ég farið með hóp þessa leið með börn niður í 4 ára án þess að finna hið minnsta fyrir óöryggi á neinn hátt. Leiðin milli Trier og Koblenz eru sléttir 200km af samfelldu augnakonfekti í gegnum keðju af smábæjum og vínekrum. (Ótal möguleikar eru á útúrdúrum að ógleymdum helling af köstulum. )
Veðrið á þessum tíma má líkja við „gott íslenskt sumar“ og því tilvalið að framlengja íslenska sumrinu með svona ferðum. Heilt yfir var veðrið frábært og sólarvörnin mikið notuð. En við fengum líka nokkra skúri og þá einkum tvo síðustu dagana. Það er auðvelt að klæða af sér rigninguna þarna því þarna er held ég aldrei hvasst. Áin liggur um dalinn sem er djúpt grafinn í landið sem veitir skjól fyrir annars litlum vindi. Einnig er gróður talsverður sem skýlir líka.
Við nýttum okkur öll leiguhjól þar sem það er ögn ódýrara og einfaldaði ferðina. Við vorum mis heppin með hjólin sem annars skiluðu okkur vel alla leið. Gistingarnar voru fremur lágt stemmdar til að hafa hemil á verðmiðanum, en samt allstaðar til fyrirmyndar og fór mjög vel um okkur á þeim öllum. Allt bókað og frágengið fyrirfram. Morgunverður og flutningur á farangri gerði ferðina enn einfaldari og þægilegri. Kostnaður var um 160 þúsund að fluginu meðtöldu. Flogið var með Icelandair um Düsseldorf og notuðum lestakerfið þaðan.
Með morgunfluginu vorum við komin til Trier seinnipartinn og náðum því góðum göngutúr um miðbæinn. Það er eiginlega nauðsynlegt að hafa aukadag eða jafnvel tvo í Trier því það er svo ótalmargt að sjá þar. Sagan og minjar sem spanna aftur um 2000 ár til tíma Rómverja. Daginn eftir græjuðum við hjólin og hjóluðum um nokkra áhugaverða staði í Trier áður en við lögðum af stað niður með ánni. Til Trittenheim eru um 35 km sem er þægileg vegalengd til viðbótar bæjarrúntinum fyrsta hjóladaginn. Þegar komið er almennilega út úr Trier tekur sveitasælan við. Eftir eina nótt í Trittenheim heldur sveitasælan áfram þó nokkur þorp séu þrædd. Rétt fyrir utan Bernkastel gistum við í tvær nætur. Auka daginn tókum við strætó með hjólin upp í bæinn Daun og hjóluðum til baka eftir aflagðri lestarleið sem breytt hefur verið í hjólastíg. Þetta voru auðveldir um 70km með 300 metra lækkun. Vegna þess hve gistingar voru uppbókaðar varð næsti dagur yfir 100km langur. Það var full dugleg yfirferð, ekki að það hafi verið erfitt, heldur var margt að sjá sem við þurftum að hraðspóla yfir. Næst verður þessum degi skipt í tvennt. Tvær nætur vorum við síðan í Moselkern. Þann aukadag notuðum við til að skoða kastalann Eltz og í vínsmökkun. Síðasta hjóladaginn fórum við í gegnum vínhátíð í bænum Winningen. Þar var lifandi tónlist á torginu og fólk flutt á heyvögnum sem dregnir voru af dráttarvélum. Vagnarnir voru búnir dúkuðum borðum og stólum, fólkið allt uppáklætt í samræmi við tilefnið, syngjandi og trallandi. Loka áfangastaðurinn Koblenz er mjög falleg borg. Það væri ekki vitlaust að nota einn aukadag þar ef það er möguleiki.
Við vorum öll mjög ánægð með þessa vel heppnuðu ferð. Þó veit ég að betra hefði verið að kljúfa langa daginn, en það gekk ekki þrátt fyrir allt. Fjallahjólaklúbburinn er nú að skipuleggja aðra ferð þessa sömu leið en með nokkrum lagfæringum. Endanleg dagsetning er ekki komin á hreint en verið er að horfa á ágúst – september. Eins verður tekið tillit til nýrra þátta sem skapa óvissu þegar kemur að ferðalögum.
Myndir: Fjölnir, Árni Davíðs og Björgvin Jónsson.
Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2020.