Fyrir ofan Vik er gamall sveitavegur sem liggur niður að Kerlingardalsá.  Eitthvað hafði lækjunum fjölgað frá því ég heimsótti svæðið síðast; við komumst ekki niður að jökulánni fyrir vatnavöxtum í lækjunum.  Það var blautur en hress hjólahópur sem kom til baka af Heiðinni.  Ákváðum að kíkja niður í Dyrhólaey og koma við í Loftsalahelli.  Smá puð sem hefði launað okkur með geðveiku útsýni ef þokan hefði ekki byrgt okkur sýn.  Mótlæti þjappar fólki saman og eftir hressandi heimsókn í sundlaugina fórum við út að borða í Suður-Vík.  Þar var góðgætið snætt, ölið kneifað og veðurguðir mærðir, svo við gætum farið upp í Þakgil næsta dag.

 

Næsti dagur tók á móti okkur með sól og blíðu.  Frá þjóðvegi 1 er 15 km leið upp í Þakgil.  Fyrst  framhjá grösugum sveitabæjum, svo tekur ægifögur náttúran við.  Og brekkur.  Það þarf að vera í sæmilegu hjólaformi fyrir þessa leið og nú er búið að brúa mestu ána á leiðinni svo þessi vegur er líka fær fólksbílum.  Þegar við komum yfir brúna var stór hola í veginum, ca. tveggja metra djúp.  Það var talsverð umferð ökutækja þarna og, ef meira hefði hrunið úr veginum hefði  litlu mátti muna að fólk yrði innlyksa í Þakgili.  Við létum skálavörðinn vita af holunni.  Vonandi er búið að fylla í hana.  Þetta hamlaði ekki  för okkar, minnsta málið að krækja fram hjá óvæntum uppákomum, eða í þessu tilfelli, óvæntum niðurföllum.  Þegar maður er á reiðhjóli.

Á leiðinni í bæinn stóðumst við ekki mátið að hjóla niður að flugvélaflakinu á Sólheimasandi.  Það eru fjórir km frá bílastæðinu að flakinu, og ferðin tekur gangandi tvo til þrjá  klukkutíma, en á reiðhjóli er það þægilegur hálftími.  Þetta er eitt það albesta við að ferðast á reiðhjóli.  Maður nær að sjá svo miklu meira en á tveimur jafnfljótum.

Hrönn Harðardóttir
Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.

Myndir. Hrönn Harðardóttir (merktar klúbbnum), Anna Magnúsdóttir, Auður Jóhannesdóttir, Björn Bjarnason.
Sjá nánar í myndaalbúmi á Google Photos: 2017 Vík í Mýrdal